Bæjarstjórn Garðabæjar samþykkti sl. fimmtudag fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árið 2025. Í henni er lögð áhersla á sterkan rekstur sveitarfélagsins og framúrskarandi þjónustu við íbúa. Útkomuspá fyrir yfirstandandi ár sýnir að áherslur síðustu ára á sterkari grunnrekstur hafa gengið eftir. Afkoma bæjarins og fjárhagsstaða styrkist enn frekar þrátt fyrir óvissu í efnahagsmálum, háa vexti og verðbólgu.
Lykiltölur fjárhagsáætlunar:
· Rekstrarniðurstaða A sjóðs er jákvæð um 359 m.kr.
· Rekstrarniðurstaða A og B sjóðs er jákvæð um 712 m.kr.
· Veltufé frá rekstri nemur um 2.949 m.kr. og 9,1% af heildartekjum bæjarins.
· Skuldahlutfall A sjóða lækkar í 119%
· Skuldaviðmið samstæðu áætlað 103,9%
Markmið fjárhagsáætlunar er að halda álögum lágum, tryggja áframhaldandi lífsgæði íbúa og halda áfram að þróa og bæta þjónustu sveitarfélagsins.
Lækka fasteignaskattinn og með lægstu útsvarsprósentu á meðal stærri sveitarfélaga
„Við erum stolt af því að við lækkum fasteignaskattinn og erum sem fyrr með lægstu útsvarsprósentu meðal stærri sveitarfélaga á landinu. Þetta er okkar stefna og mikilvægt til að létta byrðar af heimilum og fyrirtækjum,“ segir Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar. Í fjárhagsáætluninni er gert ráð fyrir að fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði lækki í 0,161 % frá síðasta ári og útsvarsprósentan í Garðabæ verði áfram 14,71%.
Framkvæmt fyrir sex milljarða
Garðabær áformar framkvæmdir upp á sex milljarða króna árið 2025. Þar vegur þyngst þriðji áfangi Urriðaholtsskóla með sundlaug og íþróttahúsi, mikilvægar veituframkvæmdir á Álftanesi og umbætur á leik- og grunnskólalóðum. „Við höldum áfram að sýna ráðdeild þegar kemur að framkvæmdum, forgangsröðum þeim en höfum gæfu til þess að setja fram framtíðarsýn þar sem íbúar njóta góðs af traustum og nútímalegum innviðum, í nýrri og eldri hverfum. Mikilvægar nýframkvæmdir og endurbætur munu áfram njóta forgangs. Uppbygging í Garðabæ heldur áfram og íbúar geta treyst á góða þjónustu – hvar og hvenær sem er,“ bætir Almar við.
Mæta ungmennum og eldra fólki
Íbúum Garðabæjar gafst kostur á að senda inn ábendingar um áherslur í fjárhagsáætlun ársins 2025. Dæmi um ábendingar sem tekið var tillit til eru endurbætur á lóð Hofsstaðaskóla sem munu hefjast á næsta ári. Þá mun hefjast undirbúningur að nýju virkniúrræði fyrir fatlað fólk í samræmi við ábendingar íbúa.
Í fjárhagsáætlun er lögð megináhersla á að mæta ungmennum og eldri borgurum Garðabæjar ásamt því að efla stafræna þjónustu bæjarins. Áherslumál ársins 2025 má kynna sér í greinargerð fjárhagsáætlunar.
Unnið verður að fjölmörgum verkefnum
„Í umfangsmikilli fjárhagsáætlun Garðabæjar er auðvelt að týna sér í tölunum. Mér finnst því mikilvægt að draga fram með einföldum hætti dæmi um þau fjölmörgu verkefni sem við munum vinna að og klára árið 2025,“ segir Almar og nefnir dæmi:
- Lagfærum skólalóð Hofsstaðaskóla
- Hönnum stækkun á skólahúsnæði og opnum nýja leikskóladeild á Álftanesi
- Aukum áherslu á greiningu og eftirfylgni með námsárangri barna í bænum
- Kaupum nýjan búnað til raungreinakennslu
- Sköpum atvinnutækifæri fyrir fatlað fólk í stofnunum bæjarins
- Höldum áfram framkvæmdum við sundlaug og íþróttasal í Urriðaholtsskóla
- Hleypum Ungmennahúsi af stokkunum
- Hefjum framkvæmdir við tengingu fráveitu Álftaness við Skerjafjarðaveitur
- Fjölgum ráðgjöfum í barnavernd
- Höldum áfram með framkvæmdir á verkefnum sem hlutu kosningu í Betri Garðabæ
- Nýtum stafrænt vinnuafl í auknum mæli með aðstoð róbótatækni og gervigreindar
- Tökum í notkun nýja aðstöðu fyrir eldri borgara á Álftanesi