ÍAV stefnir að því að afhenda Garðabæ nýtt og glæsilegt fjölnota íþróttahús í Vetrarmýri þann 22. desember nk., en ÍAV er aðalverktaki hússins.
Þetta kemur fram í nýrri stöðuskýrslu um byggingu hússins, en samkvæmt stöðuskýrslunni eru nú um 70 manns að vinna við verkið og unnið er samhliða í lokafrágangi á fjölmörgum verkþáttum.
Búið er að setja niður undirkerfi fyrir gervigras og það er langt komið að leggja gervigrasið á völlinn eins og nokkrir gallharðir Stjörnumenn sáu er þeir fengu smá skoðunarferð um húsið sl. föstudag. Samhliða lagningu gervigrassins þá er frágangur þjónusturýma langt kominn og verið er að vinna í lokafrágangi allra verkþátta eins og áður segir.
Heildarfermetrar hússin eru 15.770. Í höllinni verður að finna íþróttasal, tengibyggingu á tveimur hæðum og viðbyggingu á þremur hæðum.
Íþróttasalur er með 11-14 metra lofthæð og inn af honum er upphitunarsvæði og svæði fyrir klifurvegg, frá 2. hæð tengi- og viðbyggingar er hægt að ganga inn á svalir sem eru hringinn í kringum íþróttasalinn.
Í tengibygging eru búningsklefar á 1. hæð og á 2. hæð er aðstaða fyrir m.a áhorfendur. Viðbygg-ing á 1. hæð innheldur m.a líkamsrætkarsal, æfingavöll með gervigrasi og ýmis stoðrými. Hæð 2. og 3. verða afhendar fokheldar samkvæmt samningum.
Reiknað er með að meistaraflokkur karla og kvenna í knattspyrnu geti tekið fyrstu æfingarnar jafnvel á milli jóla- og nýárs og æfingar yngri flokka ættu að geta hafist fljótlega í byrjun nýs árs.