Aðventuhátíð – Tónleikar Kórs Vídalínskirkju

Sunnudaginn 10. desember, 2. sunnudag í aðventu, verður aðventuhátíð, sem jafnframt eru tónleikar Kórs Vídalínskirkju, í Vídalínskirkju kl. 17.00.

Það er áralöng hefð fyrir aðventuhátíð í Vídalínskirkju og hefur kór kirkjunnar borið uppi dagskrána sem flutt er.
Að þessu sinni flytur einn kórfélaganna, Sigurður Þórðarson verkfræðingur, hugleiðingu en einnig verður flutt jólalag, Jólabæn, eftir Sigrúnu Andrésdóttur konu hans.

Kór Vídalínskirkju flytur fjölbreytta aðventu- og jólaefnisskrá og fær til liðs við sig Ármann Helgason klarinettleikara í nokkrum lögum. Meðal laga sem flutt verða eru lög eftir Ingibjörgu Þorbergs, Jón Ásgeirsson, Arnór Vilbergsson, Sigurð Flosason, John Rutter og J. S. Bach. Þá verður flutt frumgerð þekktasta jólasálms allra tíma, Stille Nacht, þar sem tveir kórfélagar, Árni Jón Eggertsson og Bergvin Þórðarson, syngja dúett ásamt kórnum við undirleik kórstjórans, Jóhanns Baldvinssonar, á gítar. Þá fá kirkjugestir að taka undir í nokkrum lögum og Matthildur Bjarnadóttir stýrir stundinni.

Á eftir verður boðið upp á súkkulaði og piparkökur í safnaðarheimilinu.

Eins og alltaf á aðventuhátíð Vídalínskirkju er enginn aðgangseyrir og öllum opin, og verður henni einnig streymt á Facebooksíðu Vídalínskirkju.

Í júní 2024 hyggur Kór Vídalínkirkju á kórferð til Ungverjalands, en þá verða 30 ár liðin frá því að kórinn fór eftirminnilega ferð þangað. Þáverandi stjórnandi kórsins, Ferenc Utassi, skipulagði ferðina á sínum tíma og er einnig að skipuleggja þessa ferð. 12 kórfélagar, sem voru í ferðinni fyrir 30 árum, verða einnig með í ferðinni á næsta ári. Tónleikagestir geta stykt ferðasjóð kórsins með frjálsum framlögum á staðnum eða með því að leggja inn á ferðasjóð kórsins 0318-26-005905 kt: 590594-2379.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar