Að eldast í Garðabæ – spornum við félagslegri einangrun

Ég er það heppinn að hafa átt yndislega ömmu og afa sem bjuggu í Garðabæ. Þær eru ljúfar bernskuminningarnar sem leita á mig þegar ég hugsa til baka til þeirra í Faxatúni 29. Vegna þeirra eru málefni eldri borgara mér mjög hugleikin.

Spornum við félagslegri einangrun

Afi minn, séra Bragi Friðriksson, var félagslyndur og duglegur að starfa fyrir félög í bænum, en amma, Katrín Eyjólfsdóttir, var hlédrægari. Það var mikið áfall fyrir hana þegar afi kvaddi þessa jarðvist og hélt heim á leið í maí 2010. Amma átti þá ellefu ár ólifuð en ég sá á þessum tíma smátt og smátt hvernig hún einangraðist félagslega. Eftir ljúfa heimsókn kvaddi ég oft með tárin í augunum, sorgmæddur, því ég vissi hvað beið hennar; einveran.

Garðabær verður að sporna við félagslegri einangrun eldri borgara. Covid hefur aukið á þetta mein og því verður bærinn að gera allt hvað hann getur til þess að styðja við félög eldri borgara í bænum og styrkja félagsstarf sem fer víða fram í Garðabæ, s.s. í Jónshúsi, Litlakoti á Álftanesi og Kirkjuhvoli.

Aukum samgang yngra og eldra fólks

Samvinna og samvera yngri og eldri er af hinu góða. Garðabær verður að skapa og stuðla að því að þannig umhverfi og samvera teljist eðlileg og sjálfsögð.
Heimsóknaþjónustan er mikilvæg og ég varð vitni af þeirri frábæru þjónustu sem amma mín fékk, bæði í heimahjúkrun og á Ísafold. En einnig mætti hugsanlega virkja skólana til þess að gera meira í því að sameina kynslóðirnar í leik og starfi. Menningin í bænum þarf einnig að stuðla að heilbrigðu mannlífi allra Garðbæinga á öllum æviskeiðum.

Skipuleggjum blandaða byggð

Ég er ungur og tala því reglulega fyrir því að byggðar séu íbúðir fyrir ungt fólk í bænum. Það er ekki síður mikilvægt að byggðar séu íbúðir fyrir eldra fólk í blandaðri byggð yngra og eldra fólks. Nú eru ýmsir rótgrónir Garðbæingar sem búa í stórum húsum og vilja minnka við sig – en finna ekki endilega íbúð við hæfi í bænum. Höldum Garðbæingum í Garðabæ, bæði ungum sem öldnum – og tryggjum fjölbreytt íbúðaval í bænum.

Það á ekki að einangra fólk og setja alla í aldurstengda dilka. Garðabær á að skipuleggja hverfi þar sem íbúðir eldri borgara eru settar niður innan um hús yngri fjölskyldna. Á leiksvæðum barna eiga að vera bekkir fyrir eldra fólkið og hverfin ætti að skipuleggja þannig að samgangur yngra og eldra fólks sé eðlilegur hluti daglegs lífs.

Verum virk félagslega!

Séra Bragi ávarpaði eitt sinn eldra fólkið í Garðabæ. Þá sagði hann: „Takið vel boði um félagslega samvinnu!“ Það er lykilatriði að bærinn skapi vænlegt umhverfi til félagsstarfs – en svo þurfum við að mæta og taka þátt! Þökkum fyrir þá blessun sem lífið er.

Hrannar Bragi Eyjólfsson

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar