Fjárhagsáætlun Garðabæjar fyrir árið 2025 var samþykkt á fundi bæjarstjórnar 5. desember sl. ásamt því að 3ja ára áætlun fyrir árin 2026-2028 var lögð fram. Leiðarljós Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ er nú sem endranær ábyrgur rekstur bæjarfélagsins, lágar skattálögur og framúrskarandi þjónusta við bæjarbúa.
Álagningarhlutfall fasteignaskatts af íbúðarhúsnæði lækkar í 0,161% af fasteignamati og verður þar með áfram hið lægsta á höfuðborgarsvæðinu.
Áætlað er að bæjarsjóður skili rúmlega 700 m.kr. rekstrarhagnaði á árinu 2025.
Styrk fjármálastjórn – stöðugleiki
Við framlagningu fjárhagsáætlunar fyrir réttu ári síðan lögðum við bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins upp með það leiðarljós að stórbæta rekstur A hluta bæjarsjóðs á árinu 2024.
Útkomuspá fyrir árið 2024 sýnir að þetta markmið muni nást. Þrátt fyrir viðvarandi verðbólgu og háa vexti undanfarin ár ásamt miklum launahækkunum og auknum þunga velferðarmála hefur fjárhagslegt aðhald og rekstrarhagræðing skilað stórbættri afkomu A hluta bæjarsjóðs á yfirstandandi ári og þar með einnig samstæðunnar í heild. Þetta hefur náðst án þess að dregið hafi verið úr viðhaldi og endurbótum á fasteignum bæjarins sem ráðist var í af miklum krafti á árinu 2023 og fram haldið á yfirstandandi ári.
Samkvæmt útkomuspá 2024 verður rekstrarhagnaður A hluta bæjarsjóðs 94 m.kr. og rekstrarhagnaður samstæðu A og B hluta samtals 474 m.kr.
Rekstrarhagnaður A hluta bæjarsjóðs 2025 er áætlaður 304 m.kr. og rekstrarhagnaður samstæðu A og B hluta 712 m.kr.
Þessi styrking á rekstri bæjarsjóðs byggir fyrst og fremst á festu við stjórn fjármála bæjarins og eiga bæjarstjóri, sviðstjórar, forstöðumenn stofnana og allt annað starfsfólk Garðabæjar þar stærstan hlut að máli.
Þjónustan efld
Á árinu 2025 verður lögð sérstök áhersla á að mæta ungmennum, eldri borgurum og fötluðu fólki í Garðabæ. Það gerum við m.a. með því að styrkja enn frekar skólaþjónustuna, efla forvarnarstarf barna og ungmenna, vinna gegn félagslegri einangrun eldri borgara ásamt því að hefja undirbúning að nýjum virkniúrræðum fyrir fatlað fólk.
Þessu til viðbótar er ætlunin að nýta stafrænar lausnir í auknum mæli til að bæta enn frekar þjónustu við bæjarbúa.
Unnið verður áfram að hagræðingu í rekstri árið 2025, enda mikilvægt að fjármunir bæjarbúa nýtist sem best.
Mikið fjárfest í innviðum Garðabæjar
Veltufé frá rekstri er ein mikilvægasta kennitalan í rekstri sveitarfélaga. Þetta er fjárhæðin sem afgangs verður þegar búið er að greiða allan rekstrarkostnað og alla vexti af lánum bæjarins. Áætlað er að veltufé frá rekstri bæjarsjóðs á árinu 2024 verði 2.665 m.kr., nái tæpum 2.950 m.kr. á árinu 2025 og aukist síðan jafnt og þétt á næstu árum.
Stóraukið veltufé frá rekstri leiðir til þess að áfram verður fjárfest markvisst í innviðum bæjarins með hóflegri lántöku. Skuldahlutfall hefur lækkað, ekki síst í A sjóði, og mun sú þróun halda áfram á næstu árum.
Samkvæmt fjárhagsáætlun 2025 og þriggja ára áætlun fyrir árin 2026-2028 er áformuð áframhaldandi styrking innviða bæjarins á næstu árum. Áætluð fjárfesting 2025 nemur um 5.000 m.kr. og áætlað er að fjárfest verði fyrir rúmar 15.000 m.kr. á tímabilinu 2026-2028 til frekari uppbyggingar íbúðarsvæða, skólabygginga og skólalóða, íþróttamannvirkja, stíga, útivistarsvæða o.fl.
Ábyrgur rekstur í þágu íbúanna
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ hafa í gegnum tíðina lagt megin áherslu á styrka fjármálastjórn og stöðugleika í fjármálum bæjarins. Þannig hefur verið lagður grunnur að lágum sköttum á bæjarbúa.
Áfram stefnum við ótrauð að því að álagningarhlutföll útsvars og fasteignaskatts í Garðabæ séu áfram hin lægstu meðal stærstu sveitarfélaga landsins, að þjónustukannanir staðfesti mikla ánægju íbúa með þá þjónustu sem bærinn veitir og að íbúar séu ávallt mjög ánægðir með Garðabæ sem sveitarfélag til að búa í.
Björg Fenger, bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs
Gunnar Valur Gíslason, bæjarfulltrúi og formaður velferðarráðs