Á Safnanótt, föstudaginn 3. febrúar kl. 20:00 opnar ný fastasýning í Hönnunarsafni Íslands  

Á sýningunni Hönnunarsafnið sem heimili má finna í kringum 200 dæmi um íslenska hönnun en safneign Hönnunarsafns Íslands telur í heild um 5000 muni frá árinu 1900 til dagsins í dag.  
 
Sýningin er sett upp sem grunnmynd af heimili en líkt og á heimilum fólks má sjá þar hlið við hlið muni frá mismunandi tímabilum. Húsgögn, borðbúnaður, fatnaður, bækur og textíll frá ólíkum tíma koma saman og varpa ljósi á brot af því sem íslenskir hönnuðir og handverksfólk hefur skapað. 
 
Heimilið er í sífelldri þróun. Stöðugt er verið að færa til, skipta út og breyta. Sköpun heimilis er lifandi ferli án endapunkts, en heimilið er fyrst og síðast sköpun þeirra sem þar búa. Smekkur, sem getur mótast af ýmiss konar áhrifaþáttum í lífi hvers og eins, er það sem gefur hverju og einu heimili sín sérkenni.   
 
Í mörg horn er að líta á heimili og ýmislegt getur komið upp á. Sama má segja um uppsetningu sýningar en í lok desember lak þak í sýningarsal safnsins. Því er einungis hægt að opna hluta sýningarinnar að þessu sinni. Það er ekki öruggt að setja upp muni í stofuhluta sýningarinnar fyrr en viðgerð hefur farið fram. Stofan stendur því tóm og minnir okkur á hverfulleika lífsins og mikilvægi þess að hlúa vel að heimilum og líka safnastarfi.  

Á opnuninni mun söngkonan Jelena Ciric, Ásgeir Ásgeirsson gítarleikari og Margrét Arnardóttir harmonikkuleikari leika heimilislega tónlist frá ýmsum heimshornum í stofunni.

Ljósmynd: Studio Fræ

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar