Á ekki að vera gott að eldast í Garðabæ?

Það er gott að eldast í Garðabæ og margt er vel gert fyrir eldri kynslóðina. En það er hægt að gera miklu betur. Í Garðabæ eins og annars staðar á Íslandi gjalda aldraðir fyrir flækjustig sem fylgir því að margir koma að málefnum þeirra. Ríki, sveitarfélög, frjáls félagasamtök og einkaaðilar vinna að málefnum aldraðra og nokkuð skortir á samþættingu þjónustu og samstarf milli þessara aðila. Eldra fólk er einnig margslunginn hópur en ekki einsleitur og býr við mismunandi aðstæður. Í hópnum er fólk sem býr við dágóðan efnahag og ríf lífeyrisréttindi en einnig hópar sem búa á leigumarkaði og hafa takmörkuð réttindi í lífeyrissjóði.

Miðflokkurinn leggur áherslu á að eldri borgarar komi sjálfir að ákvarðanatöku um málefni sem þá varða. Miðflokkurinn hefur markað stefnu í málefnum aldraðra sem nefnist: ,,Frá starfslokum til æviloka.” Þar er lögð áhersla á samfellda og aukna þjónustu eftir því sem aldurinn færist yfir. Samkvæmt stefnunni verður öllum sem koma að þjónustu við eldra fólk fylkt saman þannig að nauðsynleg samhæfing og samvinna eigi sér stað. Tekið verði tillit til mismunandi umönnunar- og þjónustuþarfar mismunandi aldursskeiða og kappkostað að eitt þrep taki við af öðru þannig að eldra fólk og aðstandendur þeirra þurfi ekki að berjast fyrir réttindum aldraðra við hvert skref. Miðflokkurinn vill hlusta eftir röddum sérfræðinga sem lagt hafa áherslu á aukna þátttöku og utanumhald heilsugæslu þannig að nauðsynleg yfirsýn um aðstæður hvers og eins séu til á einum stað.

Hlúa þarf að eldra fólki eftir starfslok, bæði hvað varðar félagslega þætti sem eru að mörgu leyti til fyrirmyndar hér í Garðabæ en einnig þarf að gefa öldruðum val um hvort þeir kjósi frekar aukna heimaþjónustu eða dvöl á öldrunarstofnun. Forvarnir, svo sem hvatar til hreyfingar og virkni, stuðla að betri andlegri og líkamlegri heilsu. Það eru forréttindi að fá að eldast og forðast ber að líta á ellina sem sjúkdóm. Í eldra fólki býr kraftur og reynsla sem gagnast bæði þeim og samfélaginu í heild.

Miðflokkurinn leggur áherslu á einstaklingsmiðaða þjónustu sem komi til móts við þarfir hvers og eins. Eldra fólk skóp núverandi þjóðfélagsgerð og vegna verka þeirra eru lífskjör þjóðarinnar með því sem best þekkist. Eldra fólk á skilið virðingu og viðurkenningu fyrir framlag sitt til samfélagsins. Eflum þjónustu við aldraða og gerum efri árin að tíma lífsfyllingar og lífsgleði. Lesandi góður, atkvæði þitt skiptir máli, ég treysti Lárusi Guðmundssyni, oddvita Miðflokksins, til að standa vörð um málefni Garðbæinga.

Sigrún Aspelund, eldri borgari, skipar heiðurssæti á lista Miðflokksins í Garðabæ.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar