Jólahlaðborð FEBG var haldið í Jónshús, félags- og íþróttastarf eldri borgara í Garðabæ fyrr í desember.
Á annað hundrað gestir tóku þátt í aðventugleðinni. Dásamlegar veitingar sem bráðnuðu í munni komu frá Múlakaffi. Pálmar Ólason lék undur ljúfa tóna á píanóið. Formaður félagsins, Laufey Jóhannesdóttir sá um að allt færi vel fram og sagði nokkrar sögur. Stór hópur eldri Fóstbræðra kom og söng falleg lög og í lokin stýrði Pálmar fjöldasöng og lék undir á harmónikku. ,,Þetta var vel heppnuð aðventustund og glaðir og mettir gestir héldu út í stjörnubjart vetrarkvöld,” segir Laufey og bætir við: ,,Stjórn FEBG vill nota tækifærið og þakka öllum fyrir komuna.”



