900. fundur bæjarstjórnar Garðabæjar

Fimmtudaginn 3. mars sl. kom bæjarstjórn Garðabæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Sveinatungu á Garðatorgi 7. Fundurinn var merkilegur fyrir þær sakir að þetta var 900. fundur bæjarstjórnar frá upphafi en fyrsti fundur bæjarstjórnar Garðabæjar var haldinn 6. janúar 1976 en í byrjun þess árs fékk Garðabær kaupstaðarréttindi. Fundurinn 1976 var einnig haldinn í Sveinatungu en það var heitið á húsi þar sem fyrrum bæjarskrifstofur Garðabæjar voru til húsa áður en þær fluttu yfir í ráðhúsið á Garðatorgi. Það er því viðeigandi að bæjarstjórn fundar nú á ný í Sveinatungu, þar sem fjölnota fundarrými bæjarins eru staðsett við Garðatorg.

Bæjarstjórn Garðabæjar 2018-2022. Frá vinstri: Áslaug Hulda Jónsdóttir, Guðjón E. Friðriksson bæjarritari, Ingvar Arnarson, Harpa Þorsteinsdóttir, Sara Dögg Svanhildardóttir, Gunnar Einarsson, Björg Fenger, Sigurður Gunnarsson, Almar Guðmundsson, Jóna Sæmundsdóttir, Sigríður Hulda Jónsdóttir, Gunnar Valur Gíslason

11 bæjarfulltrúar í bæjarstjórn Garðabæjar frá 2018

Bæjarstjórn Garðabæjar 2018-2022 er skipuð 11 bæjarfulltrúum þeim Áslaugu Huldu Jónsdóttur, Sigríði Huldu Jónsdóttur, Sigurði Guðmundssyndi, Gunnari Val Gíslasyni, Jónu Sæmundsdóttur, Almari Guðmundssyni, Björgu Fenger, Gunnari Einarssyni, Söru Dögg Svanhildardóttur, Ingvari Arnarssyni og Hörpu Þorsteinsdóttur. Forseti bæjarstjórnar 2021-2022 er Björg Fenger. Í vor fara fram sveitarstjórnarkosningar og að þeim loknum tekur ný bæjarstjórn til starfa næsta kjörtímabil sem er fjögur ár.

Mynd af fyrstu bæjarstjórn Garðabæjar, hreppsnefnd og bæjarstjórn frá 1975-1976, frá vinstri á mynd eru Guðmundur Einarsson, Guðrún Erlendsdóttir, Ólafur G. Einarsson oddviti, Ágúst Þorsteinsson, Hilmar Ingólfsson og Garðar Sigurgeirsson, sveitarstjóri og bæjarstjóri.

Fundir bæjarstjórnar opnir öllum og sýndir í beinu streymi

Bæjarstjórn Garðabæjar fundar fyrsta og þriðja fimmtudag hvers mánaðar í Sveinatungu, fundarsal bæjarstjórnar á Garðatorgi 7, og fundir bæjarstjórnar eru opnir. Íbúar eru velkomnir á fundi bæjarstjórnar til að fylgjast með umræðu um málefni bæjarins. Fundirnir eru líka sýndir í beinu streymi á vef Garðabæjar, gardabaer.is. Fundarboð bæjarstjórnar er ávallt birt á vef Garðabæjar tveimur dögum fyrir fund og fundargerð bæjarstjórnar er aðgengileg á vefnum daginn eftir fund. Á vefnum má líka nálgast upptökur af eldri fundum bæjarstjórnar.

Mynd af gömlu Sveinatungu þar sem bæjarskrifstofurnar voru til húsa

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar