81 barn innritað á leikskólann Mánahvol

Ungbarnaleikskólinn Mánahvoll hóf starfsemi sína í ágúst 2021.  Um 81 barn eru nú innritað í Mánahvol en gert er ráð fyrir að leikskólinn geti verið með pláss fyrir allt að 112 börn þegar allar átta deildirnar verða komnar til starfa.

Leikskólinn er staðsettur við hliðina á leikskólanum Sunnuhvoli sem var þar fyrir. Fyrstu vikurnar fór starfsemi skólans fram í húsnæði leikskólanna Krakkakots og Holtakots á Álftanesi en fljótlega fóru börnin yfir í húsnæðið viðVífilsstaðatún.

Fyrst um sinn voru tvær deildir opnaðar, Harpa og Sól. Í byrjun árs var þriðja deildin, Plútó, opnuð og fjórða deildin Mars opnaði í febrúar. Fimmta deildin Venus, opnaði svo í mars og sjötta deildin Jörðin í maí. Tvær deildir eiga eftir að bætast við, Máni og Júpíter. Nöfnin á deildunum voru valin úr himingeimnum í vísun á nafn skólans Mánahvols.

Um 81 barn eru nú innritað í Mánahvol en gert er ráð fyrir að leikskólinn geti verið með pláss fyrir allt að 112 börn þegar allar átta deildirnar verða komnar til starfa. Framundan á árinu eru örlitlar framkvæmdir en ofan á leikskólann verður sett hallandi þak. Þá verður leikskólalóðin fullkláruð í haust en þar mun koma annar sandkassi, lítið trampólín, fleiri rólur, og kastali svo eitthvað sé nefnt.

Kristín Hemmert Sigurðardóttir er leikskólastjóri á Mánahvoli og segir fyrstu mánuðina á Mánahvoli hafa gengið vel. „Börn og starfsfólk er mjög ánægt með þessa fínu aðstöðu hérna á Vífilsstaðatúni. Húsnæðið er mjög skemmtilegt og skólaandinn er hlýlegur.“

Samvinna, traust, sköpun og gleði

Kristín segir að umhverfið í kringum leikskólann sé rólegt og fallegt og stjórnendur eru ánægðir með að hafa fengið að koma að teikniborðinu þegar verið var að hanna skólann. „Við erum mjög ánægð með útkomuna hérna og börnunum líður líka vel í skólanum sem býður upp á fjölbreytt og skemmtilegt starf. Einkunnarorð skólans eru samvinna, traust, sköpun og gleði og unnið hefur verið eftir því frá upphafi.“

Á Mánahvoli eru reynslumiklir og metnaðarfullir leikskólakennarar sem leggja mikla áherslu á útiveru, upplifun og skynjun. Í leikskólanum er einnig horft til þess að börnin fái að upplifa og prófa nýjar áskoranir í öruggu umhverfi með kennurum. Kristín segir afar mikilvægt að finna og nýta styrkleikana hjá starfsfólkinu til þess að hver og einn fái að njóta sín í starfi.

Þá segir Kristín lykilinn að góðu leikskólastarfi vera samvinnu og jákvætt viðmót. Það skipti miklu máli að ná trausti hjá börnunum og foreldrum. „Við sýnum börnunum umhyggju og sköpum rólegt umhverfi fyrir þau svo þeim líði sem allra best. Við viljum líka mynda traust tengsl við foreldra því ef þeir treysta okkur, treysta börnin okkur. Ég held að okkur hafi tekist það vel.“

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar