809 tilboð bárust í lóðir í Hnoðraholti

Það var handagangur í öskjunni þegar sex starfsmenn bæjarskrifstofu Garðabæjar opnuðu tilboð sem bárust í byggingarétt á lóðum í Hnoðraholti. Garðabær auglýsti byggingaréttinn til sölu fyrir skemmstu og það er ekki hægt að segja annað en að mikill áhugi sé fyrir hverfinu, en alls bárust 809 tilboð með millligöngu frá fjórum fasteignasölum.

Þegar Garðapósturinn fór í prentun í gær var enn verið að yfirfara tilboðin, en ljóst er að áhuginn á hverfinu, sem er einstaklega vel staðsett, er mikill.

Yfir 50 tilboð bárust í einbýlishúsalóðina Skerpuholt 2

„Umslögin voru 381 sem við tókum upp og í þeim voru rúmlega átta hundruð tilboð. Ég er að sjálfsögðu afskaplega glaður að sjá þessa miklu ásókn í hverfið, enda býður það upp á svo mikil lífsgæði og svo marga möguleika. Vinsælasta lóðin var einbýlishúsalóðin Skerpluholt 2, en í hana bárust yfir 50 tilboð,“ segir Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar, en af þessum mikla fjölda eru auðvitað hluti að bjóða í margar lóðir og heildarúthlutunin á því enn eftir að taka á sig mynd.

Einstakt hverfi

Hnoðraholt norður er íbúðahverfi með áherslur á fjölbreyttar húsagerðir sem falla vel að núverandi byggð. Garðabær bauð fyrsta áfanga til sölu í sumar, en nú í öðrum áfanga var um að ræða sölu á byggingarrétti fyrir eina parhúsalóð , tíu raðhúsalóðir (43 íbúðir), 23 einbýlishúsalóðir og fimm fjölbýlishúsalóðir.

491 tilboð bárust í 25 einbýlishúsalóðir

Tölurnar eru birtar með fyrirvara um yfirferð, en alls bárust 103 tilboð í fimm fjölbýlishúsalóðir, 215 tilboð í rað- og parhúsalóðir en mest var ásóknin í einbýlishúsalóðir en í þær bárust alls 491 tilboð. Hæsta tilboð í einbýlishús er rúmar fimmtíu milljónir og hæsta tilboð í fjölbýlishús er um 240 milljónir.

Nýir lóðarhafar geta hafist handa upp úr áramótum

„Það sem er kannski best er að uppbyggingaraðilar geta hafist handa mjög fljótlega, enda hverfið og lóðirnar þegar byggingarhæfar. Nýir lóðarhafar gætu þannig séð hafist handa upp úr áramótum,“ segir Almar og bætir við að næsta verk sé að ganga frá sölunni við þau sem gerðu tilboðin.

Forsíðumynd! Bæjarfulltrúarnir, Þorbjörg Þorvaldsdóttir, Björg Fenger og Sara Dögg Svanhildardóttir fara yfir tilboðin sem bárust í lóðir í Hnoðraholti sl. þriðjudag

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar

Vefkökur og persónuvernd

Vefur kgp.is notast við vefkökur í þeim tilgangi að veita þér sem bestu upplifun þegar þú heimsækir okkur á vefnum.  Vefkökurnar eru vistaðar í vafranum þínum og þjóna m.a. þeim tilgangi að kerfið "þekkir þig" þegar þú kemur aftur á vefinn okkar.  Þannig þarftu t.d. ekki að fara aftur í gegnum samþykktarferlið fyrir vefkökur, ert ekki spurð(ur) aftur og aftur hvort þú vilt skrá þig á póstlista eða um aðra virkni sem þú hefur annað hvort samþykkt eða hafnað í fyrri heimsóknum o.fl. o.fl.

Þú getur stillt vefkökurnar hér til vinstri.

Með kærri kveðju,
Starfsfólk KGP.is vefsins