750 manns lögðu leið sína á hrekkjavökuball bókasafnsins

Starfsfólk bókasafnsins á Garðatorgi skreytti safnið hátt og lágt fyrir Hrekkjavökuna. Það mátti finna leðurblökur, risa könguló, svakalegt grasker, hryllilegar bækur og margt fleira.

Margir, hátt í 750 manns,  lögðu leið sína á hrekkjavökuballið sem haldið var fyrir börn laugardaginn 26. október sl.  Þá var dansað, föndrað og leikið sér.

Hrekkjavökugleði fyrir allra yngstu krílin fór svo fram á foreldramorgni 31. október klukkan 10:30. Þau sem mættu hlýddu á ljúfa tóna og nutu dýrðarinnar í barnadeild bókasafnsins.

Á Hrekkjavökudaginn sjálfan leiddi Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur fræðslu um drauga og draugagöngu. Draugagangan hófst á bókasafninu á Garðatorgi og hélt sem leið lá upp í Minjagarðinn á Hofsstöðum. Á leiðinni sagði Dagrún frá draugum og þeim ólíku gerðum drauga sem finnast á Íslandi, uppvakningum, afturgöngum, útburðum og fépúkum, auk þess sagði hún frá vel völdum íslenskum draugasögum. Gestir lærðu að þekkja drauga frá hinum lifandi og margt fleira.

Margt verður um að vera í nóvember á Bókasafni Garðabæjar

Álftanessafn heldur áfram að bjóða upp á föndur á borðum alla fimmtudaga. Yfir vetrartímann er opið í Álftanessafni fyrsta laugardag í mánuði og þá er eitthvað í boði fyrir fjölskylduna. Jólaföndur verður á borðum laugardaginn 7. desember á milli klukkan 12 og 15.

Á Garðatorgi halda leshringirnir áfram sínu starfi að venju. Þeir sem vilja bjóða börnunum sínum að lesa fyrir hund geta pantað tíma hjá safninu þar sem hundar koma í heimsókn laugardaginn 9.nómvember.

Skuggaleikhúsið ÞYKJÓ kemur í heimsókn laugardaginn 16.nóvember og bregður á leik með ljós og skugga. Smiðjan er ætluð börnum frá fjögurra ára aldri. Rithöfundarnir Kristín Helga Gunnarsdóttir og Hjalti Halldórsson lesa úr nýjum bókum sínum, Fíasól í logandi vandræðum og Hinn eini sanni sveinn, 23.nóvember kl.13.
Jólabókaspjall Bókasafns Garðabæjar fer fram fimmtudaginn 28.nóvember klukkan 20. Gestir fá að njóta rithöfunda, léttra veitinga og notalegrar stundar í hlýju fangi Bókasafns Garðabæjar þar sem öll eru velkomin.

Dagskrá bókasafnsins er á Facebook og vefnum bokasafn.gardabaer.is

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar