70% íbúa undir 40 ára í Urriðaholti

Við gerð nýs aðalskipulags Garðabæjar árið 2016 var ljóst að aldurssamsetning íbúa bæjarins væri þannig að samfélagið í Garðabæ var tiltölulega mittismjótt og það vantaði fleiri íbúa á aldrinum 20-40 ára til þess að aldurspíramídinn væri réttur, þ.e. væri píramídalagaður. Nú þegar Urriðaholtið er langt komið í uppbyggingu er áhugavert að skoða íbúasamsetningu eftir hverfum.

Í Garðabæ eru 55% íbúa undir 40 ára aldri en þegar Urriðaholtið er skoðað þá eru þar u.þ.b. 70% íbúa undir 40 ára meðan sama hlutfall er 52% í gamla Garðabæ og um 56% á Álftanesi.
Þegar við skoðum síðan börn á grunnskólaaldri þá er hlutfallið í Garðabæ um 14% bæði í bænum í heild og svo í gamla Garðabæ, hlutfallið á Álftanesi er 17% en einungis 8.5% í Urriðaholti. Hlutfall barna á grunnskólaaldri hefur alltaf verið tiltölulega hátt á Álftanesi á landsvísu eins og fjöldi íbúa per íbúð.

Tafla. Garðabær íbúasamsetnin eftir hverfum í Garðabæ. Í Garðabæ eru 55% íbúa undir 40 ára aldri en þegar Urriðaholtið er skoðað þá eru þar u.þ.b. 70% íbúa undir 40 ára meðan sama hlutfall er 52% í gamla Garðabæ og um 56% á Álftanesi.

Hátt hlutfall barna á leikskólaaldri í Urriðaholti

Þegar hlutfall barna á leikskólaaldri er skoðað þá breytist hins vegar myndin mikið. Um 8% barna í bænum í heild er á leikskólaaldri. Það hlutfall er síðan 7% í gamla Garðabæ og á Álftanesi en er hins vegar rúmlega 16% í Urriðaholti.

Hátt hlutfall barna á leik- og grunnskólaaldri hefur kallað á viðbrögð frá Garðabæ. Þannig var farið af stað með samkeppni um nýjan leikskóla í Urriðaholti á árinu 2021. Nú stendur yfir hönnunarvinna við leikskólann og samkvæmt uppfærðri tímalínu þess verkefnis verður farið verður í framkvæmdir við þann skóla á árinu 2022 og gert ráð fyrir að hann verði tilbúinn til að taka við börnum á árinu 2023.

Þá liggur fyrir að hraða þarf stækkun Urriðaholtsskóla til þess að taka við þeim mikla fjölda barna sem er á leikskólaaldri í hverfinu og kann að vilja að fara í sinn hverfisskóla. Á þriggja ára fjárhagsáætlun Garðabæjar er gert ráð fyrir þeirri fjárfestingu og má búast við að þess gæti í fjárhagsáætlun með augljósum hætti árið 2022. Í framhaldi af stækkun Urriðaholtsskóla verður ráðist í byggingu íþróttahúss og sundlaugar við skólann.

Nýr ungbarnaleikskóli við Vífilsstaði

Með stækkandi bæjarfélagi og stórum árgangi sem er að hefja leikskólagöngu í haust var þó ljóst að bregðast þyrfti við enn meir en nefnt er hér að ofan og því var ráðist í það verk að opna nýjan leikskóla í Garðabæ núna í haust. Nýi leikskólinn, er nefnist Mánahvoll, tók til starfa í ágúst í húsnæði leikskólanna Krakkakots og Holtakots á Álftanesi. Starfsemi Mánahvols flyst svo í október yfir á Vífilsstaði þar sem verið er að reisa leikskólabyggingu úr einingahúsum við hliðina á leikskólanum Sunnuhvoli sem er þar fyrir. Mánahvoll verður sex deilda ungbarnaleikskóli fyrir börn á aldrinum 12-24 mánaða. Með hinum nýja leikskóla hefur verið hægt að bjóða börnum niður í 12 mánaða aldur kost á leikskóladvöl við upphaf nýs skólaárs og fyrirhugað er að börn sem fædd eru í október 2020 fái næst boð um dvöl og komist að í Mánahvoli. Staðsetning leikskólans við Vífilsstaði er ákjósanleg vegna þægilegs aðgengis frá megin samgönguæðum og til þess að taka það yfirfall sem nú hefur myndast vegna stórs árgangar leikskólabarna sem er að hefja dvöl, jafnframt verður hægt að nýta þessa lausn fyrir fyrstu íbúa Hnoðraholts þegar upp-bygging þess hverfis hefst.

Sigurður segir að það liggi fyrir að hraða þurfi stækkun Urriðaholtsskóla til þess að taka við þeim mikla fjölda barna sem er á leikskólaaldri í hverfinu og kann að vilja að fara í sinn hverfisskóla. ,,Á þriggja ára fjárhagsáætlun Garðabæjar er gert ráð fyrir þeirri fjárfestingu og má búast við að þess gæti í fjárhagsáætlun með augljósum hætti árið 2022. Í framhaldi af stækkun Urriðaholtsskóla verður ráðist í byggingu íþróttahúss og sundlaugar við skólann,“ segir Sigurður.

Uppbygging og vegatengingar í Urriðaholti

Á næsta ári er stefnt að því að klára íþróttavöll í Miðgarði við Urriðaholtsskóla, má þá búast við því að Stjarnan geti hafið æfingar í hverfinu fyrir yngstu aldurshópana á árinu 2022.

Þá er hafin deiliskipulagsvinna á Garðahrauni efra til þess að tengja Urriðaholt við Vífils-staðasvæðið og íþróttamannvirkin þar og eins til þess að komast með öruggari hætti að miðbæ Garðabæjar, samhliða því er verið að skoða auknar göngutengingar annaðhvort með brú eða undirgöngum milli Garðahrauns efra og neðra.

Í þessari vinnu er jafnframt verið að horfa til Flóttamannavegar (Elliðavatnsvegar) og að bæta legu hans í landi og auka öryggi á honum. Flóttamannavegur er svokallaður skilavegur Vegagerðarinnar sem á og rekur þann veg en til stendur að færa ábyrgð hans til Garðabæjar. Það sem hefur staðið í vegi slíkri yfirtöku er að vegurinn er ekki í ásættanlegu ástandi. Garðabær vill ekki taka við veginum nema að hann sé lagaður og afhentur eða að fé fylgi frá ríkinu til Garðabæjar þannig að hægt sé að ráðast í lagfæringar á veginum. Flóttamannavegurinn verður mikilvæg samgöngutenging milli Urriðaholts og miðsvæðis Garðabæjar þegar Urriðaholtið hefur verið tengt inn á veginn og hann betrumbættur.

Sigurður Guðmundsson, bæjarfulltrúi og formaður skipulagsnefndar

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar