Skipulagsnefnd Garðabæjar hefur vísað tillögu að breytingu á aðalskipulagi og nýju deiliskipulagi fyrir háholt í Hnoðraholti til forkynningar. Tillagan gerir ráð fyrir fjölbreyttri íbúðabyggð, nýjum leikskóla og búsetukjarna fyrir fatlað fólk með stuðningsþarfir.
Í skipulaginu er gert ráð fyrir alls 65 nýjum íbúðum, sem skiptast þannig:
- 15 lóðir fyrir einbýlishús á einni hæð
- 11 lóðir fyrir einbýlishús á tveimur hæðum
- 18 lóðir fyrir raðhús á einni hæð
- 21 lóð fyrir raðhús á tveimur hæðum
Einnig er í tillögunni gert ráð fyrir leikskóla og sérútbúnum búsetukjarna fyrir fatlað fólk.

Björg Fenger, formaður skipulagsnefndar Garðabæjar, sagði í samtali við Garðapóstinn að þær 65 íbúðareiningar sem áformaðar eru væru kærkomin viðbót á svæðið. ,,Þarna gerum við m.a. ráð fyrir raðhúsum á einni hæð sem þjóna vel þörf þeirra sem vilja minnka við sig en vera áfram í sérbýli. Þarna er verið að hugsa á sambærilegum nótum og í Unnargrund. Auk þess verða þarna rað- og einbýlishúsalóðir sem höfða vel til fjölskyldufólks, enda stutt í leikskóla, skóla og aðra þjónustu.”
Veitur telja ekki þörf fyrir hitaveitutanka á háholtinu
Breyting á aðalskipulagi felur meðal annars í sér að fella út svæði sem áður var ætlað undir hitaveitutanka þar sem Veitur telja ekki lengur þörf á uppbyggingu þeirra á svæðinu. Í staðinn er gert ráð fyrir að nýta svæði undir leikskóla en hin nýja staðsetning leikskólans hefur ákveðna kosti umfram þann stað sem núgildandi deiliskipulag gerir ráð fyrir.
Styðja við enn betri landnotkun á svæðinu
En hvað segir Björg um hvaða áhrif hefur það á skipulagið að Veitur hafa fallið frá því að vera með hitaveitutanka á háholtinu – eru þið að fá betri staðsetningu fyrir leikskólann? ,,Já ég tel að brottfall hitaveitutankanna og nýja staðsetning leikskólans sé jákvæð og styðji við enn betri landnotkun á svæðinu. Þetta gefur okkur líka möguleika á að skapa enn skemmtilegri ásýnd fyrir svæðið í heild en Vífilstaðaásinn sem er stígur í trjágöngum og eitt af sérkennum skipulagssvæðisins liggur í hinni nýju tillögu frá Vífilsstöðum í suðri yfir í hinn nýja leikskóla í norðri.

65 sérbýlislóðir boðnar út á seinni hluta ársins
Og skipulagsnefnd hefur samþykkt að tillögurnar verði forkynntar, í samræmi við skipulagslög, en forkynningin gefur íbúum, hagsmunaaðilum og öðrum tækifæri til að kynna sér áformin áður en þau fara í formlegt umsagnarferli. Hvenær stefnið þið svo á bjóða þessar lóðir út? ,,Stefnan er sett á að bjóða þessar 65 sérbýlislóðir út á seinni hluta ársins,“ segir Björg.
Vinnan við deiliskipulagið fyrir suðurhlíðar Hnoðraholts muni hefjast öðru hvoru megin við næstu áramót
Og þá er bara suðurhlíð Hnoðraholts eftir, hvenær fer deiliskipulags vinna í gang fyrir þann hluta? ,,Ég geri ráð fyrir að vinnan við deiliskipulagið fyrir suðurhlíðar Hnoðraholts muni hefjast öðru hvoru megin við næstu áramót. Þar munum við áfram leggja áherslu á að búa til skemmtilegt og heildstætt hverfi, þar sem fólk getur notið útivistar, nálægðar við þjónustu ásamt því að vera miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu. Ég reikna með að áfram verði lögð áhersla á sérbýli, eins og gert er á háholtinu og einnig á stórum hluta Hnoðraholts norður sem er einmitt í uppbyggingu núna. Það verður gaman að sjá svæðið byggjast upp. Ég er sannfærð um að Hnoðraholt; Vetrarmýri, Vífilsstaðir og útivistarperlur í kring muni skapa sannfærandi heild og þarna er eitt allra mest spennandi íbúðasvæði á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Björg að lokum
