Alls er 41 Garðbæingur á framboðslistum stjórnmálaflokkanna í Suðvesturkjördæmi fyrir Alþingiskosningarnar á laugardaginn, en þeir voru 36 árið 2021 og 41 í alþingiskosningunum árið 2017. Alls bjóða 10 flokkar fram í kjördæminu eins og í kosningunum árið 2017 og 2021. Einn af tíu oddvitum flokkanna í SV-kjördæmi eru búsettur í öðru kjördæmi. Flestir Garðbæingar eru á lista Sjálfstæðisflokksins eða 7. talsins. Aðeins 2 Garðbæingar er á fjórum framboðslistum, á lista Flokks fólksins, Sósíalistaflokksins, Pírata, og Vinstri grænna, en það er sami fjöldi og var listum þeirra fyrir kosningarnar 2021 og 2017. Að vísu var bara einn Garðbæingur á lista Sósíalistaflokksins síðast þegar var kosið.
Flestir Garðbæingar á lista Sjálfstæðisflokksins
Eins og áður segir eru flestir Garðbæingar á framboðslista Sjálfstæðisflokksins, 7 talsins, en stutt er þó í næstu flokka því á framboðslista Miðflokksins og Lýðræðisflokksins eru sex frambjóðendur með lögheimili í Garðabæ og hlutfallið er reyndar ansi hátt hjá Lýðræðisflokknum því aðeins eru 14 frambjóðendur á framboðslista þeirra á meðan allir aðrir flokkar eru með 28 frambjóðendur á sínum lista nema Sósíalistaflokkurinn sem er með 27 frambjóðendur í SV-kjördæmi. Í Framsóknarflokknum, Viðreisn og Samfylkingunni eru fimm Garðbæingar á framboðslistum þeirra og eins og áður segir þá eru aðeins tveir Garðbæingar á listum Flokk fólksins, Sósíalistaflokksins, Pírata, og Vinstri grænna.
Oddvitar, Miðflokksins, Sjálfstæðisflokksins og Lýðræðisflokksins búsettir í Garðabæ
Af oddvitunum 10 eru þrír þeirra búsettir í Garðabæ, en það eru þeir Bergþór Ólason, Miðflokki, Arnar Jónsson Lýðræðisflokki og Bjarni Benediktsson Sjálfstæðisflokki.
Níu oddvitar af tíu búsettir í Kraganum
Níu af tíu oddvitum flokkanna í Sv-kjördæmi eru með lögheimili í Kraganum fyrir kosningarnar á laugardaginn, þeir voru 8 fyrir kosningarnar 2021, en aðeins höfðu 6 af 10 oddvitum flokkanna lögheimili í Kraganum í kosningunum 2017. Fyrir kosningarnar á laugardaginn er það eingöngu Davíð Þór Jónsson, oddviti Sósíalista-flokksins sem er ekki með lögheimili í Kraganum heldur að Laugateigi í Reykjavík.
Þrír oddvitar eru með lögheimili í Garðabæ eins og áður segir. Þrír eru með lögheimili í Kópavogi, Willum Þór Þórsson Framsóknarflokki, Anna Möller í Samfylkingunni og Guðmundir Ingi Kristinsson í Flokki fólksins. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er búsett í Hafnarfirði, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir Pírati býr í Mosfellsbæ og Guðmundur Ingi Guðbrandsson er með lögheimili í Kjósahreppi.
Allir frambjóðendur Framsóknarflokksins, Miðflokksins og Samfylkingarinnar eru með lögheimili í SV kjördæmi og allir nema einn hjá Lýðræðisflokknum og Sjálfstæðisflokknum. Tveir á lista Viðreisnar eru ekki með lögheimili í Kraganum og annar þeirra er Sigmar Guðmundsson, sem er með lögheimili í Reykjavík, en hann skipar annað sæti á lista flokksins í SV-kjördæmi. Þrír á lista Vinstri grænna búa ekki í kjördæminu og meðal þeirra er Eva Dögg Davíðsdóttir sem er í 2. sæti listans, en hún er með lögheimili í Reykjavík. Þá eru fimm fram-bjóðendur á lista Flokks fólksins ekki með lögheimili í SV kjördæmi, 6 á lista Pírata og 7 á lista Sósíalistaflokksins.
26 frambjóðendur geta ekki gefið sér né flokki sínum atkvæði í Suðvesturkjördæmi
Af 265 frambjóðendum sem skipa framboðslistana 10 í Suðvesturkjördæmi þá eru 26 þeirra með lögheimili í öðru kjördæmi. Það þýðir að þessir 26 frambjóðendur geta ekki kosið sinn eigin flokk í kjördæminu þar sem þeir eru á lista. Þeir geta því ekki gefið sjálfum sér atkvæði, né strikað sig út ef þeir hefðu áhuga á því.
Forsíðumynd: Álftanesskóli! Kosið verður á tveimur stöðum í Alþingiskosningunum í Garðabæ
á laugardaginn, í Íþróttahúsinu Mýrinni (við Hofsstaðaskóla og FG) og í Álftanesskóla