Það voru alls 40 stúdentar sem tóku á móti skírteinum sínum við brautskráningu í síðustu viku í hátíðarsal FG,Urðarbrunni.
Sá nemandi sem nú skaraði fram úr og var dúx á haustönn 2023 var Ína Magney Magnúsdóttir, en hún stundaði nám á Listnámsbraut,myndlistarsviði. Fékk hún einnig verðlaun fyrir góðan árangur í myndlist.
Samfélagsverðlaun skólans fékk Þórður Bjarni Baldvinsson, af Leiklistarbraut, en þessi verðlaun fá þeir sem setja jákvæðan svip á skólastarfið og umhverfi hans. Þórður Bjarni fékk einnig verðlaun fyrir skólasókn í félagi við Benedikt Björn Johnsen. Þórður var því miður ekki viðstaddur athöfnina.
Karen Ósk Kjartansdóttir flutti ræðu nýstúdents og Anna Bíbí Wium Axelsdóttir flutti heimagert atriði við hið þekkta lag ,,Nína“ (Draumur um Nínu) eftir Eyjólf Kristjánsson. Sneri hún texta lagsins upp á FG með skemmtilegum hætti.
Ína Magney Magnúsdóttir var sá nemandi sem skaraði fram úr og var dúx á haustönn 2023, en með henni á myndinni er Kristinn Þorsteinsson, skólameistari FG.
Anna Bíbí fékk einnig viðurkenningu fyrir góðan árangur í leiklist og í íþróttum. Þá fékk Sveinn Elí Helgason einnig viðurkenningu fyriríþróttaiðkun.
Flestir sem brautskráðust, alls 11, voru af Félagsvísindabraut, átta af Viðskiptabraut og sex af Hönnunar og markaðsbraut. Átta kláruðu íþróttabraut, fjórir af Listnámsbraut, tveir af Alþjóðabraut og einn af Náttúrufræðibraut.
Kristinn Þorsteinsson fór víða í ræðu sinni, fjallaði meðal annars um náttúruhamfarir í Grindavík, bílastæðavandræði við FG og réttindiminnihlutahópa. Þá ræddi hann einnig hina svokölluðu gervigreind og þær áskoranir sem henni fylgja. Fáir vita í raun hvert það fyrirbæri stefnir, en það hefur nú þegar mikil áhrif.
Nýr aðstoðarskólameistari FG, Anna Margrét Gunnarsdóttir, stjórnaði athöfninni, en þetta var hennar fyrsta brautskráning, Anna hóf stöfvið FG í haust og leysti Snjólaugu Bjarnadóttur af hólmi, sem hafði starfað við skólann í áratugi.
Á næsta ári fagnar Fjölbrautaskólinn í Garðabæ 40 ára afmæli sínu, en sá starfsmaður sem nú er með lengsta starfsreynslu í skólanum er Guðný Guðnadóttir, annar bókasafnsfræðinga skólans. Hún hóf nám á sínum tíma í FG, er stúdent frá skólanum og með henni starfar Anna Björg Sigurðardóttir. Ekki er ýkja langt síðan viðamiklar breytingar voru gerðar á bókasafninu og það fært til nútímalegra horfs með það að markmiði að bæta starfsaðstöðu nemenda.