30 metra hjóla- og göngurás í gegnum Arnarnesið

Leiðin yfir Arnarnesið er ein af fjölförnustu stofnæðum fyrir hjólandi umferð á höfuðborgarsvæðinu í dag, en hún tengir m.a. Reykjavík við Garðabæ og Hafnarfjörð. Á þeirri leið þarf þó m.a. að fara yfir Arnarneshálsinn þar sem nokkur hækkun er og fólk þarf að þvera umferðargötur, en nú er áformað að hefja framkvæmdir við hjóla- og göngurás (undirgöng) í gegnum Arnarnes fyrir hjólandi og gangandi umferð. Með því verður hægt að komast í gegnum Arnarneshálsinn án þess að þurfa að þvera umferðargötu.

Katrín Halldórsdóttir sérfræðingur hjá Vegagerðinni

7 metra breið rás/göng með ljósopi

Katrín Halldórsdóttir, sérfræðingur fyrir höfuðborgarsvæðið hjá Vegagerðinni, segir frumdrög vegna framkvæmdarinnar séu tilbúin og verkhönnun sé í gangi. ,, Verið er að verkhanna undirgöng vestan Hafnafjarðarvegar við Arnarneshæð.  Þegar orðið undirgöng er notað þá sjá margir fyrir sér dimm og þröng göng, við mörg undirgöng þarf að að ganga/hjóla niður í mót til þess að komast að þeim.  Við leggjum kapp á að útfæra þessi göng þannig að þau liggi vel í landinu, séu björt og opin.  Sumir vilja frekar nota orðið rás fyrir mannvirkið, þá erum við að tala um hjóla- og göngurás.  Rásin/göngin verða nálægt 7 m að breidd og til þess að auka birtu verður gert ljósop,“ segir Katrín.

Endurhanna umferðarljós á brúnni

,,Samhliða þessum framkvæmdum verður farið í að endurhanna umferðarljós ofan á brúnni – við gatnamót Hafnarfjarðarvegar og Arnarnesvegar, en mikil þörf er á því. Stígakerfi við rásina (undirgöngin) munu svo tengjast að núverandi stígakerfi. Stefnt er á að útfæra aðskildar leiðir fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur við rásina (brúna) í framhaldinu, en í gegnum undirgöngin/rásina verður lagðar aðskildar leiðir fyrir gangandi -og hjólandi vegfarendur,“ segir hún.

Framkvæmdir gætu hafist snemma vors

Göngin sjálf verða rétt yfir 30 metrar að lengd. ,,Við vonumst til þess að framkvæmdin geti farið í útboð í byrjun komandi árs, framkvæmdartíminn fer eftir veðurfari en við erum að reikna með að þær geta hafist snemma vors, og standi þá yfir næsta vor og sumar og jafnvel haust en framkvæmdaráætlun liggur ekki fyrir að svo stöddu,“ segir Katrín.

Vegagerðin heldur utan um þessar framkvæmdir, og passar ákveðið samræmi t.d. er notast við hönnunarleiðbeinginar fyrir hjólreiðar (2019), og allar framkvæmdir fara í gegnum ferli sem kallast umferðaröryggisrýni til að tryggja ákveðin gæði og umferðaröryggi.  Vegagerðin greiðir framkvæmdarkostnað með fjármögnunin er í gegnum Samgöngusáttmála – sem að ríkið og sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu komu að (þ.m.t. Garðabær og Kópavogur), og fjárframlag sveitarfélaganna og ríkis kemur þar inn.

Forsíðumynd: Undirgöngin/rás við Arnarneshæð.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar