299 tilboð bárust í lóðir í Hnoðraholti

Alls bárust 299 tilboð í lóðir í Hnoðraholti norður, en tilboðin voru opnuð á fundi bæjarráðs sl. þriðjudag. 53 tilboð bárust í sjö einbýlishúsalóðir, 67 tilboð bárust í par og raðhúsalóðir (6 lengjur, 21 íbúð) og 179 tilboð bárust í 10 fjölbýlishúsalóðir. Flest tilboðin voru talsvert yfir lágmarksverði byggingarréttarins.

Við erum mjög ánægð með þessar niðurstöður

Þegar Garðapósturinn náði tali af bæjarstjóra rétt eftir bæjarráðsfund var Almar Guðmundsson kátur í bragði. „Við erum mjög ánægð með þessar niðurstöður. Við vissum auðvitað að við vorum að bjóða lóðir á besta stað og það er ánægjulegt hversu mörg tilboð bárust,“ segir Almar en hátt í 300 tilboð bárust, flest talsvert yfir lágmarksverði byggingarréttarins. „Ég þreytist ekki á að segja að þetta er besta landið á höfuðborgarsvæðinu myndi ég segja og stefnir í mjög spennandi hverfi með fjölbreyttum búsetukostum og í frábærri tengingu við útivistarsvæði.“

Hnoðraholt norður! Grænu reitirnir eru þær lóðir sem boðnar voru út í fyrsta áfanga, en hvítu reitirnir eru lóðirnar sem verða líklega boðnar út með haustinu

Búast má við næstu úthlutun í haust

Enn var verið að taka saman tilboðin og ganga frá upplýsingum um þau þegar Garðapósturinn fór í prentunn, en eins og áður segir bárust 53 tilboð í sjö einbýlishúsalóðir, 67 tilboð bárust í par og raðhúsalóðir (6 lengjur, 21 íbúð) og 179 tilboð bárust í 10 fjölbýlishúsalóðir. Í heildina mun Garðabær bjóða byggingarétt á um 250 lóðum í Hnoðraholti að þessum meðtöldum en búast má við næsta hluta með haustinu. Hnoðraholt norður er fyrsti áfangi í upp- byggingu Garðabæjar í Hnoðraholti. Hnoðraholtið er íbúðahverfi með áherslur á fjölbreyttar húsagerðir sem falla vel að núverandi byggð. Hverfið mun taka mið af anda staðar og þeirra umhverfisgæða sem Hnoðraholtið býður upp á til að tryggja lífsgæði íbúa.

Fyrstu íbúar geta flutt inn 2025

Reikna má með að nýir lóðarhafar muni hefja uppbyggingu sem fyrst og að fyrstu íbúar geti flutt inn 2025.

Þorraholt og Vetrarmýri framundan

Það eru fleiri aðilar en Garðabær sem eru að standa að uppbyggingu í Hnoðraholti og Vetrarmýri. Í Þorraholti munu rísa um 230 íbúðir og munu byggingarframkvæmdir hefjast síðar á þessu ári. Þá eru fyrstu framkvæmdir í Vetrarmýri á vegum framkvæmdafélagsins Arnarhvols þegar farnar af stað. Garðabær á eftir að bjóða út tvo áfanga til viðbótar í Vetrarmýri.

Mynd: Rýnt í tilboðin! Gunnar Valur Gíslason, Hrannar Bragi Eyjólfsson, Almar Guðmundsson, bæjarstjóri og Margrét Bjarnadóttir virða fyrir sér tilboðin sem bárust í lóðir í Hnorðaholti norður á fundi bæjarráðs sl. þriðjudag

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar