Hrannar Bragi Eyjólfsson, formaður íþrótta- og tómstundaráðs Garðabæjar flutti léttan íþrótta- og tómstundaannál í Garðabæ fyrir árið 2024 á íþróttahátíð Garðabæjar sem haldin var í Miðgarði á dögunum þar sem hann stiklaði á því helsta sem gerðist á liðnu ári.
Meðfylgjandi er annáll Hrannars Braga:
Kæru Garðbæingar,
Velkomin til íþróttahátíðar Garðabæjar árið 2025. Hér komum við saman til að fagna saman og gleðjast yfir þeim árangri sem íþróttafólkið okkar hefur náð. Við munum veita viðurkenningar fyrir landsliðsþátttöku, fyrir frammistöðu á erlendum vettvangi og fyrir framlag til félagsmála í Garðabæ. Við munum einnig útnefna lið ársins og þjálfara ársins og svo í lokin útnefnum við íþróttakarl og íþróttakonu ársins.
Áður en við gerum það ætla ég að flytja annál íþrótta- og tómstundamála í Garðabæ árið 2024, ég kemst auðvitað aldrei yfir allt en ég ætla að stikla á því helsta sem gerðist á liðnu ári.
Íþróttabærinn Garðabær – íbúar ánægðir með aðstöðu til íþróttaiðkunar
Í febrúar árið 2024 kom árleg þjónustukönnun Gallup út og kom þar í ljós að íbúar Garðabæjar eru almennt ánægðir með þjónustuna í bænum. Garðabær var í könnuninni efstur í ánægju íbúa með aðstöðu til íþróttaiðkunar í bænum en 85% íbúa sögðust ánægðir með aðstöðu til íþróttaiðkunar í Garðabæ.
Fjórar íþróttamiðstöðvar eru í Garðabæ, í Ásgarði, Miðgarði, Mýrinni og á Álftanesi, tvær almenningssundlaugar og tvær skólasundlaugar, þrír knattspyrnuvellir í fullri stærð, fleiri vellir í minni stærð, fjórir golfvellir, púttvöllur, tvær reiðhallir og fjöldi hreystivalla sem eru við yndislegar göngu- og hjólaleiðir sem þræða fallega bæinn okkar.
Nýr hjóla- og göngustígur í Vífilsstaðahrauni
Það má nefna það hér að nýr hjóla- og göngustígur í Vífilsstaðahrauni, á milli Urriðaholts og Vífilsstaða, var vígður árið 2024. Stígurinn er upplýstur og malbikaður og fer um einstaka náttúru í hrauninu. Hann er mjög vel heppnaður og góð viðbót við frábært samgöngunet í Garðabæ. Þá var brúin við Vífilsstaðavatn einnig endurnýjuð á árinu.
Uppbygging í Urriðaholti
Á árinu hófst þar að auki uppbygging á íþróttahúsi í fullri stærð og sundlaug við Urriðaholtsskóla í Urriðaholti og þannig höldum við áfram að bæta við íþróttamannvirkjum í Garðabæ. Garðabær er sannarlega íþróttabær.
Viðhald og endurnýjun á íþróttamannvirkjum umfangsmikil á árinu
Íþróttaaðstaðan í Garðabæ er góð en nauðsynlegt er að hlúa að henni og sinna viðhaldi eins vel og hægt er. Töluvert var lagt í viðhald og endurnýjun á íþróttamannvirkjum í bænum árið 2024.
Nýr gólfdúkur var lagður í fimleikasalnum í Ásgarði, auk þess sem lendingar- og stökkdýnur og ýmis annar búnaður var endurnýjaður og LED lýsing var sett inn í allan salinn. Að auki var ráðist í viðgerðir á þaki í stærri salnum í Ásgarði og í Mýrinni.
Þá var loftræstisamstæða sett upp í Miðgarði fyrir 2. og 3. hæð íþróttahússins, en það var gert til að undirbúa nýtingu á hæðunum tveimur. Á árinu 2025 hefst undirbúningur að því að koma hæðunum í gagnið en stefnt er að því að Miðgarður verði lifandi samfélagsmiðstöð í bænum.
Ný stúka á Álftanesi
Á árinu voru nýir áhorfendabekkir settir inn í íþróttahúsið á Álftanesi, en það var þörf á bættri áhorfendaaðstöðu í kjölfar árangurs Álftnesinga í körfubolta undanfarin ár. Nýja stúkan hefur gefist vel og mikil stemning hefur verið í Forsetahöllinni frá því að hún var tekin í notkun.
Garðabær fyrsta sveitarfélagið til að tekjutengja hvatapeninga
Árið 2024 var Garðabær fyrsta sveitarfélagið til að tekjutengja hvatapeninga. Tekjutengingin virkar þannig að tekjulægri fjölskyldur sem eru undir ákveðnum viðmiðum geta sótt um svokallaða viðbótarhvatapeninga. Þannig vill Garðabær koma til móts við tekjulægri heimili í bænum í þeirri von að sem flest börn geti sótt skipulagt íþrótta- og tómstundastarf, en rannsóknir sýna að það er góð forvörn í lífi barna og ungmenna.
Garðabær er fyrsta sveitarfélagið til að tekjutengja hvatapeninga og var jafnframt fyrsta sveitarfélagið til að byrja með hvatapeninga, sem í öðrum sveitarfélögum eru oftast kallaðir frístundastyrkur, en það var árið 2005 sem þeir voru fyrst veittir.
Samningar endurnýjaðir við félög
Á árinu voru samstarfssamningar Garðabæjar við nokkur félög í bænum endurnýjaðir. Samningar voru endurnýjaðir við Skátafélagið Vífil, Skátafélagið Svani, GKG, Golfklúbbinn Odd, Golfklúbb Álftaness, Garðasókn, Hestamannafélagið Sprett og Tennisfélag Garðabæjar.
Með samstarfssamningum hefur Garðabær og félögin það að markmiði að boðið sé upp á skipulagt íþrótta- og tómstundastarf fyrir börn og unglinga í bænum undir leiðsögn vel menntaðra og hæfra leiðbeinenda þar sem lýðheilsa og forvarnargildi íþrótta eru höfð að leiðarljósi. Samningarnir eiga sér langa sögu og hafa gefist vel, enda hafa þeir treyst rekstrargrundvöll félaganna og þar með styrkt íþrótta- og æskulýðsstarf í bænum.
Pílufélag Garðabæjar fékk inngöngu í UMSK
Pílufélag Garðabæjar fékk inngöngu inn í UMSK árið 2024 og hefur þannig gerst fullgildur aðili að íþróttahreyfingunni. Við óskum Pílufélaginu sérstaklega til hamingju með það.
Pílufélag Garðabæjar er góð viðbót inn í blómlegt og fjölbreytt íþróttalíf í Garðabæ. Það eru 18 íþróttafélög í Garðabæ sem bjóða meðal annars upp á handbolta, fótbolta, körfubolta, fimleika, hjólaíþróttir, sund, tennis, tafl, júdó, karate, siglingar, hestamennsku, skátastarf og golf.
Öflug sumarnámskeið
Til marks um grósku í íþrótta- og tómstundalífi Garðbæinga buðu 12 félög upp á 45 sumarnámskeið í sumar fyrir börn á aldrinum 4-15 ára. Það var því nóg um að vera í bænum í sumar en Garðabær hefur einsett sér það markmið í samstarfi við félögin í bænum að fjölbreytt sumarnámskeið séu í boði fyrir yngstu aldurshópana frá skólaslitum og að skólasetningu í skólum bæjarins. Það hefur gengið vel undanfarin ár og verður áfram.
Vel heppnað Landsmót hestamanna 2024
Hestamannafélagið Sprettur hélt í samstarfi við Hestamannafélagið Fák 25. Landsmót hestamanna í júlí árið 2024. Sjálfboðaliðar unnu hörðum höndum að því að gera mótið sem glæsilegast og það tókst! Öflug liðsheild Sprettara og Fáksmanna skiluðu glæsilegum viðburði sem lengi verður í minnum hafður, en Landsmót hestamanna er einn stærsti íþróttaviðburður landsins. Við óskum Hestmannafélaginu Spretti til hamingju með frábært Landsmót hestamanna 2024 og framúrskarandi starf á árinu. Yngri flokka starf félagsins hefur farið vaxandi og til marks um það voru sjö knapar í U-21 árs landsliðinu sem tók þátt á Norðurlandamótinu úr Spretti, eða um helmingur alls landsliðsins. Frábær árangur og öflugt starf!
Félögin fagna góðu gengi
Félögin í Garðabæ náðu eftirtektarverðum árangri á árinu og voru áberandi í íslensku íþróttalífi.
Kylfingar úr karlasveit GKG Íslandsmeistarar annað árið í röð
GKG fagnaði 30 árum frá stofnfundi félagsins á árinu og karlasveit félagsins fagnaði áfanganum með því að vinna Íslandsmeistaratitilinn annað árið í röð. GKG hefur enn og aftur sýnt það að klúbburinn er einn stærsti og sterkasti golfklúbbur landsins. Til hamingju GKG með farsælt ár!
Stjarnan skín skært
Ungmennafélagið Stjarnan hefur fyrir löngu skipað sér sess sem eitt fremsta íþróttafélag landsins. Það má með sanni segja að Stjarnan hafi skinið skært árið 2024.
Framúrskarandi fimleikar hjá Stjörnunni
Fimleikadeild Stjörnunnar fagnaði enn einu farsælu árinu. Meistaraflokkur kvenna varð Íslands- og bikarmeistari á árinu, auk þess sem að Stjörnukonur voru uppistaðan í kvennalandsliði Íslands þegar þær urðu Evrópumeistarar í fjórða sinn. Þrjár úr meistaraflokki kvenna hjá Stjörnunni voru tilnefndar sem fimleikakonur ársins hjá Fimleikasambandi Íslands ásamt því að Ásta Kristinsdóttir var tilnefnd til Íþróttamanns ársins hjá ÍSÍ árið 2024. Stjarnan sendi 10 lið á Bikarmót í hópfimleikum sem öll enduðu í þremur efstu sætunum, þar af fjögur sem urðu bikarmeistarar. Þessu til viðbótar varð Stjarnan Norðurlandameistari í blönduðum flokki unglinga árið 2024. Allt er þetta stórkostlegur árangur hjá fimleikafólki í Stjörnunni.
Kraftur í kraftlyftingadeild Stjörnunnar
Kvenna- og karlalið Stjörnunnar í kraftlyftingum urðu stigahæstu liðin í hvorum flokki fyrir sig á Íslandsmótinu í klassískum kraftlyftingum í opnum flokki sem haldið var í október 2024 í Miðgarði og unnu þar með liðabikara bæði kvenna og karla.
Þetta er í fyrsta sinn sem Stjarnan verður Íslandsmeistari í liðakeppni í klassískum kraftlyftingum og er það til marks um gríðarlega góða þróun og vöxt í starfi deildarinnar.
Margir af liðsmönnum Stjörnunnar í opnum flokki í klassískum kraftlyftingum hafa unnið sér keppnisrétt á EM og HM í klassískum kraftlyftingum á næsta ári og stefnir í að stór hluti landsliðsins verði skipaður Stjörnufólki.
Í kvennaflokki átti Stjarnan fimm keppendur og vann liðið til þriggja Íslandsmeistaratitla og tveggja silfurverðlauna.
Í karlaflokki átti Stjarnan sjö keppendur og vann liðið einn Íslandsmeistaratitil, þrenn silfurverðlaun og þrenn bronsverðlaun.
Stjarnan alls staðar í efstu deild
Stjarnan hefur einnig vakið verðskuldaða athygli fyrir sterkt og faglegt starf í öðrum deildum. Félagið er eitt það stærsta á landinu og státar af þeim árangri að vera með lið í efstu deild í bæði karla- og kvennaflokki í knattspyrnu, körfubolta og handbolta. Það er magnaður árangur sem Stjörnumenn geta verið stoltir af.
Magnaður árangur Garðbæinga
Í einstaklingsgreinum áttu Garðbæingar einnig afreksfólk sem náði eftirtektarverðum árangri. Garðbæingar náðu frábærum árangri á erlendum vettvangi, fjölmargir urðu Íslands- og bikarmeistarar og sumir settu Íslandsmet í sínum greinum.
GKG kylfingar gera það gott
Aron Snær Júlíusson varð Íslandsmeistari í golfi árið 2024 í annað sinn á ferlinum, var stigameistari karla á GSÍ mótaröðinni og setti mótsmet á Hólmsvelli á árinu. Þá náði hann frábærum árangri á erlendum vettvangi á árinu.
Hulda Clara Gestsdóttir varð Íslandsmeistari í höggleik í annað sinn á árinu og náði einnig góðum árangri í bandaríska háskólagolfinu, sigraði m.a. deildarkeppni Denver-háskóla og hafnaði í 12. sæti í svæðiskeppni NCAA. Þá gegndi hún lykilhlutverki í íslenska landsliðinu og lenti í 36. sæti á Evrópumóti einstaklinga í Finnlandi í júlí. Hulda Clara hóf árið í 604. sæti á heimslista áhugakylfinga en er í dag í 188. sæti. Mögnuð bæting og frammistaða á árinu.
Gunnlaugur Árni Sveinsson, kylfingur úr GKG, náði einnig framúrskarandi árangri á árinu, bæði hér heima og úti í Bandaríkjunum. Hann var valinn á Fred Haskins listann yfir bestu háskólakylfingana í Bandaríkjunum og var eini nýliðinn á listanum. Gunnlaugur Árni lék síðan fyrir Íslands hönd á Evrópumótinu í liðakeppni sem tryggði sér þátttökurétt í efstu deild á næsta ári.
Jafnframt endaði hann í 9. sæti á opna breska áhugamannamótinu sem er eitt allra sterkasta áhugamannamót í heimi. Undir lok árs var Gunnlaugur Árni valinn til að keppa fyrir hönd Evrópu í Bonallack Trophy þar sem 12 bestu áhugakylfingar Evrópu keppa á móti 12 bestu áhugakylfingum Asíu og Eyjaálfu. Gunnlaugur Árni hóf árið í 962. sæti á heimslista áhugakylfinga en er í dag í 118. sæti. Einnig stórkostlegur árangur hjá Gunnlaugi.
Þess má geta að Hulda Clara Gestsdóttir og Gunnlaugur Árni Sveinsson voru á dögunum útnefnd kylfingar ársins af Golfsambandi Íslands. Við óskum þeim til hamingju með þá merkilegu nafnbót.
Frábær árangur í frjálsum
Ingiberg Eide Garðarsdóttir frjálsíþróttakona var á meðal þeirra níu sem keppenda í heiminum sem náði keppnisrétti á Paralympics í París í sumar og þar að auki lenti hún í 4. sæti á HM í Japan. Hún náði þeim stórkostlega árangri einnig að setja Íslandsmet í kúluvarpi bæði innanhúss og utanhúss. Frábær íþróttakona þar á ferð.
Ísold Sævarsdóttir, frjálsíþróttakona og íþróttakona Garðabæjar árið 2023, náði frábærum árangri þegar hún varð Norðurlandameistari undir átjan ára stúlkna í sjöþraut. Ísold er frábær íþróttamaður sem klárlega á framtíðina fyrir sér.
Valgarð Reinhardsson, fimleikamaður, varð Íslandsmeistari í áttunda sinn á ferlinum og keppti einnig á EM, Heimsbikarmóti og á Norðurlandamóti. Íslenska landsliðið náði sínum besta árangri á EM í sögunni og Valgarð varð Norðurlandameistari á gólfi á árinu. Hann var á dögunum útnefndur fimleikamaður ársins af Fimleikasambandi Íslands.
Dansarar náðu stórkostlegum árangri
Dansparið Hanna Rún Bazev Óladóttir og Nikita Bazev kepptu á Evrópumeistaramótinu í Þýskalandi í byrjun október og náðu þeim frábæra árangri að lenda í 3. sæti en það er besti árangur sem íslenskt danspar hefur náð á stórmóti síðan dansinn fór inn í Alþjóðadansíþróttasambandið WDSF. Þau eru einnig bikar- og Íslandsmeistarar 2024, eru í danslandsliðinu, höfnuðu í 6. sæti á HM atvinnumanna í latíndönsum og náðu frábærum árangri á sterkum alþjóðlegum mótum á árinu. Stórkostlegur árangur hjá þeim sem þau geta verið stolt af.
Kraftlyftingafólk úr Stjörnunni átti gott ár
Hanna Jóna Sigurjónsdóttir, kraftlyftingakona hjá Stjörnunni, varð bikarmeistari í sínum flokki í aprílmánuði og lenti síðan í 11. sæti á HM í klassískum kraftlyftingum sem fór fram í Litáen á árinu. Í október varð hún síðan Íslandsmeistari í sínum flokki, en þess er vert að geta að Hanna Jóna keppti fyrst í kraftlyftingum í byrjun árs 2023. Ótrúlegur árangur hjá Hönnu Jónu.
Friðbjörn Bragi Hlynsson varð einnig Íslandsmeistari í sínum flokki í klassískum kraftlyftingum og hafnaði einnig í 13. sæti á EM í Króatíu. Þá bætti hann sitt eigið Íslandsmet í hnébeygju, réttstöðu og samanlögðum árangri á árinu, en þar með náði hann yfir 100 GL stigum og var þriðji íslenski kraftlyftingakarlinn sem nær þeim stóra áfanga. Frábær árangur og það er greinilega kraftur í kraftlyftingamanninum.
Við óskum kraftlyftingadeild Stjörnunnar til hamingju með stórkostlegt ár.
Það er ógerlegt að telja upp öll þau afrek sem Garðbæingar hafa unnið á íþróttavellinum í ár, en ég tel hér nokkur dæmi sem geta gefið okkur innsýn inn í hið gróskumikla og fjölbreytta íþróttastarf sem fram fer hér í bænum okkar.
Íþróttamaður Garðabæjar
Í dag útnefnum við íþróttafólk Garðabæjar. Aldrei hafa fleiri kosið í vefkosningu um íþróttafólk Garðabæjar. 3.406 kusu á vef Garðabæjar. Til að setja það í samhengi er það um 17% af íbúafjölda Garðabæjar.
Það er greinilegt að áhugi Garðbæinga er mikill og íbúum er annt um að verðugir einstaklingar hljóti þann mikla heiður að bera nafnbótina íþróttakarl eða íþróttakona Garðabæjar.
Íþróttamaður Garðabæjar á sér langa sögu í bænum. Þetta er í 43. sinn sem við útnefnum íþróttafólk Garðabæjar en það var Bræðrafélag Garðakirkju sem veitti verðlaunin í fyrsta sinn árið 1982. Seinna tók íþrótta- og tómstundaráð Garðabæjar við útnefningunni.
Garðabær hefur frá upphafi verið mikill íþróttabær. Öll hugmyndafræði með stofnun félaganna í bænum hefur byggt á þeirri hugsjón að íþrótta- og æskulýðsstarf eigi fyrst og fremst að þroska góðar og heilbrigðar manneskjur sem vinna sér og samfélaginu sínu gagn með góðu og göfugu hátterni.
Í dag erum við samankomin til að fagna afreksfólkinu okkar, þeim sem skarað hafa fram úr, sem er vel og nauðsynlegt, en við megum aldrei missa sjónar á markmiðum, tilgangi og hugsjónum íþróttastarfsins.
Íþróttir snúast ekki bara um afrek, heldur um að bæta sjálfan sig og leggja sig fram fyrir hópinn. Þannig eru þær tækifæri til að kenna sjálfsaga, samstöðu og virðingu fyrir samherjum og mótherjum, bæði innan og utan vallar. Íþróttamaðurinn þarf að læra að sigra, en ekki síst hvernig taka skuli tapi með reisn og virðingu fyrir öðrum – og líta á það sem tækifæri til að vaxa og læra.
Meginmarkmið alls íþróttastarfs er að skapa heilbrigða einstaklinga sem vinna sér og samfélaginu sínu gagn með því að vinna að hinu góða. Við megum ekki gleyma að einhvern tímann hættum við í íþróttum og þá ríður á miklu að eftir standi góður og heilbrigður einstaklingur.
Íþróttamaður Garðabæjar þarf að hafa þetta hugfast og hafa hugsjón íþróttanna í stafni – vera fyrirmynd bæði innan og utan vallar fyrir æsku Garðabæjar.
Fórnfúsir einstaklingar standa að baki íþróttabænum
Við megum samt aldrei gleyma að framúrskarandi árangur gerist ekki af sjálfu sér, því að baki hverju ykkar standa fjölmargir fórnfúsir einstaklingar sem eiga einnig heiður skilinn, sem vinna eftir hugsjón og starfa aðeins í þágu íþróttanna til þess að bregða birtu og veita hamingju inn í líf íþróttafólks í Garðabæ.
Ég vil nota tækifærið og þakka þessum fórnfúsu einstaklingum, sjálfboðaliðum og öllum þeim sem hafa gert það mögulegt að halda úti því blómlega íþrótta- og tómstundastarfi sem á sér stað hér í Garðabæ. Þið eruð lífæð íþróttanna í bænum.
Kæru Garðbæingar! Höldum áfram að stefna hátt í rétta átt.