Á Íþróttahátíð Garðabæjar voru þau Halldóra Jónsdóttir og Björgvin Júníusson heiðruð sérstaklega fyrir framlag sitt til félagsmála í Garðabæ á Íþróttahátíð Garðabæjar, sem haldin var í Miðgarði sl. sunnudag.
Í umsögn um Halldóru og Björgvin segir eftirfarandi:
Halldóra Jónsdóttir
Halldóra Jónsdóttir er sannarlega einstök kona sem hefur haft mikil áhrif á samfélagið í Garðabæ. Hún fæddist árið 1928 og verður því 97 ára á þessu ári. Hún hefur búið í Garðabæ í 59 ár og verið virkur þátttakandi í samfélaginu. Eiginmaður hennar, Hjalti Einarsson, tók einnig virkan þátt í félagsmálum í Garðabæ og fékk heiðursviðurkenningu fyrir störf sín á íþróttahátíð Garðabæjar árið 2006.
Halldóra gekk í Kvenfélag Garðahrepps árið 1966 sem síðar varð Kvenfélag Garðabæjar. Hún hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir félagið og verið virkur félagi um nærri sextíu ára skeið. Hún var endurskoðandi reikninga á árunum 1975-1981, sat í varastjórn 1981 og sat svo í stjórn félagsins frá 1982-1988, lengst af sem gjaldkeri. Hér á árum áður voru reknir gæsluvellir í Garðabæ, sem segja má að séu undanfari leikskólanna, en Kvenfélagið sá um að kaupa og endurnýja allan tækjabúnað og féll það í hlut Halldóru að halda utan um verkefnið um nokkurt skeið. Halldóra var gjaldkeri Kvenfélagsins árið 1982 þegar það keypti skautbúninginn sem Fjallkona Garðabæjar hefur verið í við hátíðahöld á 17. júní ár hvert. Halldóra geymdi búninginn um langa hríð sem þýddi að Fjallkonan varð ávallt að heimsækja Halldóru áður en skautun fór fram. Halldóra hefur alla tíð verið ötull og fórnfús félagi og var gerð að heiðursfélaga Kvenfélags Garðabæjar árið 2003.

Hún sat lengi í sóknarnefnd Garðasóknar, meðal annars sem varaformaður, og gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir sóknina. Hún var í sóknarnefnd á þeim tíma þegar öll umhirða á kirkjum og kirkjugörðum var höndum sóknarinnar og mæddi því mikið á sóknarnefndarmönnum. Halldóra tók það t.d. að sér að þrífa Garðakirkju og sá um að allt umhverfi hennar væri prýðilegt og fagurt. Eiginmaður hennar Hjalti var í Bræðrafélaginu sem réðst í það stórvirki að byggja Safnaðarheimilið Kirkjuhvol en bræðrafélagar nutu mikils styrk frá eiginkonum sínum, ekki síst Halldóru Jónsdóttur sem fór þar fremst í flokki. Halldóra starfaði síðan sem gangavörður og síðar matráður í Hofsstaðaskóla sem hóf göngu sína í safnaðarheimilinu áður en skólinn flutti í það húsnæði sem við þekkjum í dag.
Halldóra hefur stutt Stjörnuna dyggilega í gegnum árin og var lengi í Bakvarðasveitinni hjá kvennahandboltanum og þvoði einnig treyjur af bæði karla- og kvennaliði félagsins um langa tíð.
Halldóra hefur tekið virkan þátt í kórastarfi í bænum, söng í Garðakórnum allt frá stofnun hans og þar til hann hætti starfsemi, eða næstum því 30 ár. Hún hefur tekið virkan þátt í starfi Félags eldri borgara í Garðabæ, m.a. þegar eiginmaður hennar var formaður þar, en Halldóra átti frumkvæði að því að koma félagsvistinni af stað og stýrði henni í mörg ár hjá félaginu.
Þá hefur hún verið félagi í Inner Wheel allt frá 1994. Öllu þessu til viðbótar sat hún í umhverfismálanefnd Garðabæjar um tíma.
Halldóra Jónsdóttir er sannarlega fyrirmynd sem hefur lagt sitt af mörkum til samfélagsins í Garðabæ með óeigingjörnu starfi sínu og elju. Hún hefur haft mikil áhrif á uppbyggingu bæjarins og er virðingarverð kona sem við getum öll litið upp til.
Björgvin Júníusson
Björgvin Júníusson hefur verið ómetanlegur fyrir íþróttastarf í Álftanesi og Garðabæ. Hann er íþróttakennari í Álftanesskóla og búsettur á Álftanesi. Segja má að hann hafi búið í íþróttahúsinu á Álftanesi mest alla sína tíð.
Björgvin byrjaði sem iðkandi handbolta, 14 ára, og þátttakandi í fyrsta liði Álftaness sem keppti á Íslandsmóti í hópíþrótt. Hann kom að þjálfun strax á unglingsárum í fótbolta og körfubolta hjá félaginu og haldið úti íþróttaskóla barnanna í 25 ár.

Hann hefur tekist á við ýmis sjálfboðaliðastörf fyrir félagið og sat í stjórn þess í 3 ár áður en hann fór í íþróttafræðinám á Laugarvatni. Björgvin var ráðinn í hálfa stöðu framkvæmdastjóri hjá UMFÁ árið 2002 og gegndi því starfi í 22 ár. Samhliða því hefur hann þjálfað fótbolta, fimleika, frjálsíþróttir og badminton.
Björgvin hefur einnig tekið að sér ýmis sjálfboðaliðastörf fyrir sérsamböndin og setið í nefndum á þeirra vegum.
Björgvin hefur verið vakinn og sofinn yfir uppbyggingu á íþróttastarfi á vegum sveitarfélagsins Álftaness og síðan Garðabæjar eftir sameiningu 2013.
Björgvin hefur sýnt fram á mikla ástríðu og elju fyrir íþróttum og samfélagsþjónustu. Hans framlag hefur verið ómetanlegt og hann hefur haft mikil áhrif á uppbyggingu íþróttastarfs í sveitarfélaginu.