Minjagarðurinn á Hofsstöðum enduropnaður

Nýuppfærð sýning sem margmiðlunarfyrirækið Gagarín hannaði var formlega opnuð í Minjagarðinum að Hofsstöðum sl. mánudag.  Var gestum og gangandi boðið að vera viðstödd þegar sýningin var opnuð í Minjagarðinum og við þetta tækifæri flutti Almar Guðmundsson, bæjarstjóri í Garðabæ og Hringur Hafsteinsson hjá Gagarín létt ávörp.

Nú gefa fræðsluskilti og margmiðlunarsjónaukar í Minjagarðinum gestum færi á að skyggnast inn í fortíðina á nýstárlegan hátt, en upplýsingar úr tölvum sem áður voru til staðar í garðinum eru aðgengilegar á vefnum www.afturtilhofsstada.is

Stór landnámsskáli frá lokum 9. aldar

Fornleifarannsóknir við Hofsstaði hófust árið 1994 en árið 1985 komu í ljós minjar sem bentu til búsetu á þessum stað á 10. eða 11. öld. Bæjaryfirvöld í Garðabæ ákváðu að byggja minjagarð og varðveita þannig merkar fornminjar og gera umhverfið fræðandi, aðlaðandi og aðgengilegt fyrir gesti. Niðurstöður fornleifarannsóknanna varpa mikilvægu ljósi á líf og starf fólks við upphaf byggðar á tímum landnáms og stórhug fyrstu íbúa Garðabæjar en landnámsskálinn er að öllum líkindum frá lokum 9. aldar og með stærri skálum sem fundist hafa á Íslandi. Efni á upplýsingaskiltum og margmiðlunarsjónaukum er byggt á fornleifarannsókninni.

Landnámsskálinn á Hofsstöðum var um 170 fermetrar að stærð og þar hafa líklega búið á milli 20–30 manns.

Fróðleikur á vefsíðunni afturtilhofsstada.is

Minjagarðurinn á Hofsstöðum og margmiðlunarsýningin Aftur til Hofsstaða á Garðatorgi 7 eru tilvalin vettvangur fyrir fjölskyldur og hvers kyns hópa til að fræðast og eiga saman góða stund. Minjagarðurinn er opinn allan sólarhringinn en sýningin Aftur til Hofsstaða frá kl. 9 -17 alla daga. 
Þá er vert að benda á fróðleik sem vefsíðan www.afturtilhofsstada.is býður upp á en þar má finna fræðsluefni um Hofsstaði.

Forsíðumynd! F.v. Agnes Stefánsdóttir, sviðsstjóri Minjastofnunar, Ólöf Breiðfjörð, menningarfulltrúi Garðabæjar og Þór Hjaltalín minjavörður Suðurnesja.


Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar