Nú styttist í að nýr og glæsilegur bar og veitingastaður, 212 – Bar & Bistró, opni í Urriðaholti, en stefnt er á að opnun staðarins nú í desember eða í byrjun janúar í síðasta lagi.
Jón Bjarni Steinsson er einn af eigendum 212 – Bar & Bistró, en hann hefur undanfarin ár starfað sem framkvæmdastjóri Dillon Whiskey Bar á Laugavegi. ,,Ég byrjaði sem þjónn á Broadway að mig minnir 1998 og hef verið viðloðandi veitingarekstur síðan. Bæði á veitingastöðum, skemmtistöðum ásamt hótelrekstri,” segir Jón Bjarni.
Hvernig veitingastaður verður 212 – Bar & Bistró? ,,Þetta verður bæði bar og veitingastaður þar sem hægt verður að fá hollan og góðan mat í hádeginu til að borða á staðnum eða til að taka með. Eftir því sem líður á kvöldið breytist hann í hefðbundnari veitingastað með matseðli.
Matseðilinn er langt kominn, en hugsunin er að þar geti allir fundið eitthvað við sitt hæfi. Meira verður þó lagt uppúr því að hafa frekar færri rétti en fleiri og vanda vel til verka, en við eigum eftir að prófa okkur enn frekar áfram með matseðilinn þegar eldhúsið verður komið í gang. En þetta verður matur úr öllum áttum þar sem lögð er áhersla á hollt og gott hráefni. Þannig verður gott úr-val af Vegan réttum í bland við “venjulegan” mat. Annars munu kokkarnir fá nokkuð frjálsar hendur og munu mjög reglulega breyta til. Ég sé svo um barinn og þar verður lögð áhersla á mjög gott úrval af vínum og flotta barþjónustu. Það verður Sommelier starfandi á staðnum sem mun sjá um að bæði velja vín inn á staðinn og aðstoða gesti við val á vínum. Einnig verður aðstaða, fyrir þá sem það vilja, til að fylgjast með íþróttum, þó þannig að það ónáði ekki þá sem komnir eru til að njóta matarins.“
Og verða opið allan daginn, eldhúsið opið frá morgni til kvölds? ,,Það verður opið allan daginn, já og líklega frá morgni allavega á sumrin enda mikil nálægð við Heiðmörk og staðurinn því tilvalinn til að byrja eða enda góðan hjóla- eða göngutúr.”
Og þú fékkst íbúa í Urriðaholti með þér í lið og spurðir þá m.a. hvernig veitingastað þeir vildu fá í Urriðaholt? ,,Ég gerði það og þau fjölmörgu svör sem þar bárust nýtast okkur vel. Þó að staðurinn verði að sjálfsögðu fyrir alla sem þangað vilja koma þá lítum við svo á að við séum mikið til að þjóna íbúum hverfisins.”
Hvernig kom það til að þú leist til Urriðaholts með opnun á veitingastaðar í huga?
,,Það kom þannig til að ég flutti heim í Garðabæ í nóvember 2019 og fann það strax að það vantaði einhvern stað þar sem hægt væri að fá sér mat eða drykk í hverfið og fór á stúfana til að athuga hvort gert væri ráð fyrir einhverju slíku. Náði svo í skottið á nafna mínum Guðmundssyni hjá Urriðaholti ehf og þegar ég komst að því að þarna væri gert ráð fyrir stað að þá fór boltinn að rúlla.”
Og íbúar almennt spenntir í Urriðaholti að fá alvöru veitingastað í hverfið? ,,Ég hef fengið mjög jákvæð viðbrögð og fólk spyr mikið um staðinn. Okkur hlakkar rosalega mikið til að opna,” segir hann.
Mynd: Framkvæmdir í fullum gangi! Eigendur 212 Bar & Bistró eru f.v. Katrín, Helga, Fannar og Jón Bjarni.