128.000.000 kr. áætlaðar til niðurgreiðslu á skólamáltíðum – dugar ekki til

Guðbjörg Linda Udengard, sviðsstjóri fræðslu- og menningarsviðs kynnti drög að minnisblaði um gjaldfrjálsar skólamáltíðir í Garðabæ þ.m.t. verkferla vegna afgreiðslu skólamáltíða skólaárið 2024-2025 á fundi bæjarráðs í síðustu viku. Á fjárhagsáætlun Garðabæjar fyrir árið 2024 eru 128.000.000 kr. áætlaðar til niðurgreiðslu á skólamáltíðum. Ljóst er að kostnaður Garðabæjar verður meiri en gert er ráð fyrir í áætluninni. Umfang skýrist þegar fjöldi skráninga barna í skólamáltíðir liggur fyrir.

Afgreiðsla gjaldfrjálsra skólamáltíða getur hafist við upphaf skólaársins 2024-2025 og verða forráðamenn upplýstir fyrir skólabyrjun um fyrirkomulag skólaársins.

Samkvæmt breytingum á lögum um tekjustofna sveitarfélaga er gert ráð fyrir auknu fjárframlagi ríkissjóðs til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna gjaldfrjálsra skólamáltíða.

Bæjarráð hefur samþykkt innleiðingu gjaldfrjálsra skólamáltíða í Garðabæ miðað við að Jöfnunarsjóður f.h. ríkissjóðs beri 75% af áðurgildandi kostnaði foreldra við mat-aráskrift grunnskólabarna og Garðabær 25%. Forráðamenn þurfa samt að skrá börn sín eftir sem áður í mataráskrift.

Mataráskrift fellur niður ef hún er nýtt minna en 50% á mánuði

Verði mataráskrift barns nýtt minna en 50% í mánuði, þá falli áskrift barnsins sjálfkrafa niður næsta mánuð á eftir til að stemma stigu við matarsóun. Forráðamenn barnsins bera þá ábyrgð á að skrá barnið í mataráskrift að nýju.

Framlög til Garðabæjar vanáætluð frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem nemur tæplega 100 börnum

Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga verða framlög til Garðabæjar vegna skólaársins 2024-2025 vanáætluð frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem nemur tæplega 100 börnum miðað við fjölda nemenda haustið 2024 og um 9% að auki vegna lægri gjaldskrár ríkisins fyrir máltíðir en skólamáltíðir í Garðabæ kosta í raun.

Bæjarráð hefur falið bæjarstjóra að gæta hagsmuna Garðabæjar gagnvart Jöfnunarsjóði sveitarfélaga þannig að sjóðurinn greiði Garðabæ í samræmi við raunkostnað skólamáltíða og raunfjölda nemenda í þjónustunni. Þá fól bæjarráðs sviðsstjóra fræðslu- og menningarsviðs að halda utan um þann kostnað sem til fellur vegna málsins, nýtingu áskrifta, umfang matarsóunar og greina þannig nákvæmlega hvernig innleiðing gjaldfrjálsra skólamáltíða tekst í grunnskólum Garðabæjar. Sviðsstjóri fræðslu- og menningarsviðs á að gera skólanefnd grunnskóla og bæjarráði grein fyrir því hvernig til hefur tekist þegar reynsla er komin á málið og stuðli jafnframt að umræðu innan skólasamfélagsins um óæskileg áhrif matarsóunar.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar