Ársreikningur Garðabæjar fyrir árið 2024 var lagður fram til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar í síðustu viku. Almar Guðmundsson bæjarstjóri kynnti helstu lykiltölur og niðurstöður rekstrarársins og þakkaði jafnframt starfsfólki bæjarins fyrir þeirra hlut í góðum rekstri bæjarsjóðs.
Í framhaldinu tóku bæjarfulltrúar til máls og lögðu fram bókanir þar sem bæði árangur og framtíðarsýn voru rædd. Þar kom m.a. fram ánægja með jákvæða afkomu, sterka sjóðstöðu og vaxandi þjónustuþörf vegna fjölgunar íbúa – auk ábendinga um nauðsyn þess að efla áhættugreiningu og skilning á flóknari þáttum fjárhagslegs og rekstrarlegs eðlis sveitarfélagsins.
Samkvæmt ársreikningnum skilaði rekstur Garðabæjar árið 2024 jákvæðri niðurstöðu upp á 1.183 milljónir króna, og veltufé frá rekstri nam 2.466 milljónum króna sem samsvarar 8,1% af rekstrartekjum bæjarins, samanborið við 2,2% árið 2023.
Sterk fjárhagsstaða og ábyrg rekstrarstefna
Björg Fenger, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, lagði fram bókun þar sem hún fór yfir meginniðurstöður ársreikningsins og lagði áherslu á að staðan væri til marks um sterkan og traustan grunn fyrir áframhaldandi þjónustu og uppbyggingu í bænum. „Ársreikningur Garðabæjar fyrir árið 2024 endurspeglar sterka fjárhagslega stöðu bæjarsjóðs. Rekstrarniðurstaða ársins er jákvæð um 1.183 milljónir króna og sjóðstreymið er sterkt,“ segir í bókun Bjargar.
Hún bendir á að sterk staða bæjarsjóðs sé forsenda þess að bærinn geti tekist á við vaxandi þjónustuþörf í takt við íbúafjölgun og uppbyggingu nýrra hverfa. Sérstaklega sé mikilvægt að sjá til þess að þjónustan haldist í hendur við vöxtinn. „Fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum A-hluta á árinu 2024 nam 6.264 milljónum króna. Þar af vó uppbygging skóla og íþróttamannvirkja langþyngst, um 2.800 milljónir króna eða 45% af öllum fjárfestingum A-hluta bæjarsjóðs,“ sagði Björg.
Í bókuninni kemur einnig fram að allur rekstrarafgangur ársins hafi verið nýttur í fjárfestingar, auk hóflegrar lántöku – og að skuldir A-hluta sjóðsins hafi lækkað um 2 milljarða króna á árinu, sem sé til marks um árangur í fjármálastjórnun.
Skuldahlutföll og sjóðstaða í réttu hlutfalli
Björg benti á að allar kennitölur í rekstri bæjarins væru jákvæðar:
- Skuldaviðmið er nú 97%
- Skuldahlutfall er 120% (var 126% árið 2023)
- Veltufé frá rekstri er, eins og áður sagði, 2.466 m.kr. eða 8,1% af rekstrartekjum
„Ábyrgur rekstur bæjarsjóðs með vellíðan og lífsgæði bæjarbúa að leiðarljósi endurspeglar áherslur bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Við teljum mikilvægt að tryggja öryggi, festu og skilvirkni í rekstri bæjarins, halda álögum sem lægstum meðal stærstu sveitarfélaga landsins og tryggja áfram mikla ánægju íbúa með þjónustu bæjarins,“ segir í bókun Bjargar.