Veitingastaðurinn Bytes er staðsettur í Arena rafíþróttahöllinni í Turninum á Smáratorgi

Það vita sjálfsagt ekki allir um veitingastaðinn Bytes á Smáratorgi í Kópavogi, en veitingastaðurinn er staðsettur í ARENA, sem er ein af flottustu rafíþróttahöllum heims.

BYTES veitingastaður opnaði á sama tíma og Arena, en gengið er inn á veitingastaðinn í gegnum inngang Arena. Það er þó engin skylda er að spila tölvuleiki til að njóta veitinga staðarins.

Kópavogspósturinn/Garðapósturinnn sló á þráðinn til Daníels Rúnarssonar, framkvæmdastjóra Bytes og Arena og forvitnaðist nánar um veitingastaðinn.

Kvöldmatur með fjölskyldunni

Hvernig kom það til að þið ákváðuð að opna veitingastaðinn Bytes a sama stað og samhliða Arena rafiþrottahöllinni? ,,Samspil Bytes og Arena er ekki ólíkt því sem má sjá með Keiluhöllina og Shake & Pizza. Staðirnir spila vel saman, gestir Arena eru fastagestir á Bytes en það er líka ekkert mál að koma bara inn á Bytes til að fá sér kvöldmat með fjölskyldunni,” segir Daníel.

Og hvers konar veitingastaður er Bytes, hvað i boði? ,,Á Bytes er hlý og góð stemming sem hentar öllum, ungum sem öldnum. Við leggjum mesta áherslu á pizzurnar okkar sem hafa gengið afskaplega vel. Botninn er úr sérlöguðu súrdeigi frá vinum okkar í Brikk en pizzurnar eru þunnar og krispí og engu til sparað í gæðum hráefna og áleggja. Síðan erum við líka með hamborgara, kjúklingavængi, franskar og annað sambærilegt meðlæti.”

Og geta gestir spilað tölvuleiki á meðan þeir gæða sér a veitingum eða hvernig er þetta? ,,Það er að sjálfsögðu smá tölvuleikjatenging á staðnum. Hægt er að spila nokkrar tegundir af leikjatölvum á litlum sem stórum skjám. Það getur stytt biðina fyrir yngstu kynslóðina eða lengt kvöldið fyrir þá sem eldri eru að leika sér aðeins í tölvuleikjum fyrir eða eftir matinn. Og síðan eru bara örfá skref yfir í Arena þar sem hægt er að spila tölvuleiki á yfir 120 tölvum.”

Vill sjá enn fleiri Kópavogsbúa og Garðbæinga

Og er þetta vinsælt? ,,Bytes hefur notið vaxandi vinsælda og nýtur þess auðvitað að það er stöðugur gestagangur á Arena. Nú viljum við hinsvegar fara að sjá fleira fólk héðan úr hverfinu og næstu bæjarfélögum eins og Garðabæ en það er bara nokurra mínútna akstur t.d úr Garðabæ yfir til okkar á Smáratorgið. “

Íþróttaviðburðir í beinni á risaskjáum

Og þið eruð einnig með fullt af sjónvörpum til að fylgjast með rafíþróttum og öðrum íþróttaviðburðum i beinni útsendingu? ,,Já, við erum með risaskjái af bestu gerð og einnig nokkur minni sjónvörp þannig að hægt er að horfa á íþróttaviðburði hvort sem er í hefðbundnum íþróttum eða rafíþróttum hjá okkur. Sunnudagarnir eru sérstaklega vinsælir en þá sýnum við frá Formúlu 1 sem oftast er uppúr hádegi og svo frá um 17 og fram eftir kvöldi sýnum við frá ameríska fótboltanum, NFL, en aðdáendur þessara íþrótta hafa safnast saman hjá okkur og skemmt sér vel,” segir Daníel.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar