Innviðaráðuneytið hefur óskað eftir upplýsingum um innheimtu innviðagjalda/byggingarréttargjalda í tengslum við skipulagsmál og lóðaúthlutanir í Garðabæ, en ráðuneytið hefur óskað eftir samskonar upplýsingum frá öllum sveitarfélögu landsins.
Innviðaráðuneytið er með til skoðunar í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga hvort tilefni sé til að leggja til breyt-ingar á lögum þar sem fjallað yrði um gjöld sem sveitarfélög innheimta nú á einkaréttarlegum grundvelli vegna skipulagsmála og lóðaúthlutana, sbr. tillögur starfshóps um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði frá 19. maí 2022. Með lagasetningu yrði þá m.a. stefnt að samræmingu og auknu gegnsæi varðandi gjaldtöku vegna innviðauppbyggingar samhliða húsnæðisuppbyggingu.
Til að hægt sé að leggja mat á áhrif mögulegra lagabreytinga af þessu tilefni er þörf á upplýsingum um hvernig álagning og innheimta gjalda er háttað hjá hverju sveitarfélagi.
Af því tilefni hefur ráðuneytið óskað eftir að sveitarfélagið taki saman og sendi ráðuneytinu eftirfarandi upplýsingar og/eða sjónarmið sveitarfélagsins.
Hefur sveitarfélagið innheimt á sl. fimm árum sérstök gjöld á grundvelli einkaréttarlegra samninga vegna þátttöku lóðarhafa í innviðagerð, vegna greiðslu lóðarhafa fyrir byggingarrétt eða önnur sambærileg gjöld, svo sem svokölluð innviðagjöld eða byggingarréttargjöld?
Hver var upphæð þessara gjalda á árinu 2023 (gjaldskrá), hvernig eru þau ákveðin og á hvaða gjaldstofn eru þau lögð?
Hefur upphæð gjaldanna verið birt almenningi og þá með hvaða hætti?
Hver var árleg heildarupphæð þessara gjalda sem sveitarfélagið innheimti á árunum 2018- 2023?
Til hvaða verkefna hafa gjöldin verið nýtt á vegum sveitarfélagsins?
Hafa gjöldin verið fullnýtt á hverju ári í tengslum við framkvæmdir á opnum svæðum?
Önnur sjónarmið sem sveitarfélagið vill koma að í tengslum við mögulega frumvarpsvinnu.
Bæjarráð fól bæjarstjóra að hlutast til um að veita ráðuneytinu umbeðnar upplýsingar.
Mynd: Mikil uppbygging er framundan í Vetrarmýri, Urriðaholti og á Álftanesi