Snyrtileg starfsemi á nýju athafnasvæði í Rjúpnahlíð

Kópavogur og Garðabær hafa undanfarna daga greint á um staðsetningu fyrirhugaðs iðnaðarhverfis, eins og bæjarfulltrúar í Kópavogi hafa nefnt það, sem Garðabær hyggst reisa í Rjúpnahlíð, sem er í útjaðri Garðabæjar, nálægt hesthúsum Spretts á Kjóavöllum, en er rétt við landamörk Kópavogs þar sem fjölmenn íbúðabyggð er til staðar.

Sitt sýnist hverjum í þessu máli en bæjarfulltrúar í Kópavogi hafa verið duglegir að gagnrýna fyrirhugaða breytingu á aðalskipulagi Garðabæjar í Rjúpnahlíðinni, eins og fram hefur komið í Kópavogspóstinum, vefsíðunni kgp.is og öðrum fjölmiðlum, sem gerir ráð fyrir stækkun á vaxtamörkum svæðisins með tilheyrandi iðnaðarsvæði, á meðan Almar Guðmundsson bæjarstjóri í Garðabæ segir fyrirhugaða uppbyggingu í Rjúpnahlíð á byrjunarstigi og íbúar geti enn skilað inn athugasemdum sem verður tekið tillit til.

Heilmikill munur á athafnasvæði og iðnaðarsvæði

Garðapósturinn/Kópavogspósturinn hafði samband við Almar og spurði af hverju Garðabær hefði áhuga að breyta gildandi svæðaskipulagi og stækka vaxtarmörkin í Rjúpnahlíð? ,,Garðabær er vaxandi sveit-arfélag og á núorðið meira af óbyggðum og miðlægum svæðum en aðliggjandi sveitarfélög. En það er ástæða til þess að leiðrétta það strax að hér er ekki stefnt að iðnaðarsvæði heldur athafnasvæði og það er heilmikill munur á þeim skilgreiningum í aðalskipulagsáætlunum og raunveruleikanum. Á meðan iðnaðarsvæði gerir ráð fyrir starfsemi sem getur haft mengun í för með sér t.d. verksmiðjum, brennslustöðvum, sorpvinnslu o.s.frv. þá gera athafnasvæði ráð fyrir atvinnustarfsemi þar sem lítil hætta er á mengun, s.s. léttan iðnað, hreinleg verkstæði, lagerhúsnæði og starfsemi sem getur þarfnast mikils rýmis innan húss og utan,” segir Almar.

Gráa svæðið er hið fyrirhugaða nýja athafnasvæði í Rjúpnahlíðinni, nálægt íbúðabyggðinni í Austurkór

Snyrtileg starfsemi og tillit tekið til umhverfislegra þátta

,,Á þessu stigi máls er hægt að setja ákvæði sem varða eðli og umfang þeirra atvinnustarfsemi sem þar getur átt sér stað. Við horfum til þess að ákvæði í skipulagi stuðli að því að hér verði um snyrtilega starfsemi að ræða og að eins mikið tillit verði tekið og unnt er til umhverfislegra þátta. Það er í anda þeirrar stefnu sem Garðabær hefur unnið eftir um árabil og menn sjá í Urriðaholti eða á miðsvæði Álftaness,” segir hann og heldur áfram: ,,Við viljum leggja okkar að mörkum til uppbyggingar á atvinnustarfsemi á höfuðborgarsvæðinu og við finnum fyrir því að mörg fyrirtæki, stór og smá sýna því vaxandi áhuga að vera staðsett í Garðabæ.

Talsverð fjarlægð milli íbúða- hverfisins og athafnasvæðisins

En er þessi fyrirhugaða uppbygging æskileg og sanngjörn gagnvart Kópavogsbúum með það að leiðarljósi að Kópavogsmegin er fjölmenn íbúðabyggð og ekki var gert ráð fyrir þessari uppbyggingu í landi Garðabæjar samkvæmt núverandi aðalskipulagi? ,,Við sjáum fyrir okkur að það verði talsverð fjarlægð milli íbúðahverfisins og athafnasvæðisins. Við sýnum því auðvitað skilning að íbúar í jaðarbyggðum sjái eftir opnum svæðum í nærumhverfi sínu en bendum um leið á að Garðabær hefur nú þegar deiliskipulagt stór útivistarsvæði í Heiðmörk og Sandahlíð og í friðlandi Vífilsstaðavatns. Unnið er að deiliskipulagi fyrir útivistarskóg í Smalaholti og golfvöll í Vetrarmýri og einnig að útivistarsvæði í Urriða-vatnsdölum. Öll þessi svæði verða í nærumhverfi íbúa í efri byggðum Kópavogs og þeir munu njóta þeirra, nú sem endranær.”

Gott að fá viðbrögð það mun hafa áhrif á framhaldið

Skipulag svæðisins er í auglýsingu og það er hægt að skila inn athugasemdum, en verður tekið tillit til þeirra? ,,Fyrsta stig skipulagsferlis er að samþykkja og kynna verkefnislýsingu og kalla eftir athugasemdum. Við erum við upphafsreitinn og því er gott að fá viðbrögð það mun hafa áhrif á framhaldið. Þá skiptir engu hvort það séu íbúar utan eða innan Garðabæjar sem leggja fram athugasemdir.”
En hafa Kópavogsbúar eitthvað um málið að segja þar sem verið er að tala um uppbyggingu í landi Garðabæjar? ,,Auðvitað hafa bæði íbúar og yfirvöld í Kópavogi eitthvað um málið að segja þar sem að hér er um uppbyggingu við sveitarfélagsmörk að ræða.”

Bæjarfulltrúar í Kópavogi hafa mikið talað um ,,Græna trefilinn“, sem er sameiginlegt og samfellt útivistarsvæði við efri jaðar byggðarinnar, en hann liggur við vaxtarmörk byggðarinnar við Austurkór og Tröllakór í Kópavogi og á landi Garðabæjar, við lóðarmörk Kópavogs, að Garðabær sé að reyna að breyta gildandi skipulagi svæðaskipulagsins á höfuðborgarsvæðinu og áratuga löngu samkomulagi sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um ,,Græna trefilinn“ sem þeir vilja meina að liggi við landamörk sveitarfélaganna í Rjúpnahlíð, eruð þið að því? ,,Meginhugmynd græna trefilsins er að tengja saman útivistarsvæði og skógræktarsvæði ofan og utan vaxtarmarka sem mynda kraga eða trefil utan um byggðina. Mörk hans hafa ekki verið dregin með skýrum eða afgerandi hætti hvorki í gildandi né eldri áætlunum. Garðabær hefur fylgt eftir þeim markmiðum sem Græni trefillinn stendur fyrir, m.a. með því að deiliskipuleggja útivistarsvæði og friðlýst svæði sem minnst hefur verið á hér að framan.”

Leggjum okkur fram um að halda samtalinu áfram við Kópavog

En þykir ekki fullljóst að bæjarstjórn Kópavogs muni hafna breytingum á gildandi svæðiskipulagi Rjúpnahlíðar og að þessar breytingar á svæðaskipulaginu sem þið hafið áhuga á að gera nái því ekki fram að ganga vegna andstöðu bæjarstjórnar Kópavogs? ,,Við vonum svo sannarlega að til þess komi ekki og við leggjum okkur fram um að halda samtalinu áfram við Kópavog.”

Hafa áður deilt um skipulagsmál á landamörkum sveitarfélaganna

Garðabær og Kópavogur hafa tekist töluvert á á undanförnum vikum og mánuðum hvað skipulagsmál varðar því ekki er langt síðan að Kópavogsbær og íbúar í Þorrasölum og Þrymsölum í Kópavogi gagnrýndu fyrirhugaða uppbyggingu Garðabæjar í Hnoðraholti, lagningu vegar við landamörk Garðabæjar og Kópavogs og hversu há byggðin ætti að vera í Hnoðraholti, næst Þorrasölum og Þrymsölum. Er búið að leysa það mál og með hvaða hætti? ,,Samkomulag náðist á milli Garðabæjar og Kópavogs þegar deiliskipulag fyrir Hnoðraholt norðurhluta var staðfest fyrir þremur árum og gerir skipulagið ráð fyrir því að vegtenging þessi (Vorbraut) verði lögð í lokaðan stokk framan við hús við Þorrasali ellegar að fundin verði önnur lausn á legu brautarinnar við deiliskipulagningu golfvallarins sem nú er unnið að.”

Íbúar í Öldu- og Örvasölum í Kópavogi þurfa að keyra veg innan landamarka Garðabæjar til að komast heim til sín. Landamörkin eru hvíta punktalínan

Persónulega hefur mér fundist það furðuleg ráðstöfun

Hefur Kópavogur skipulagt íbúðabyggð sína í gegnum árin alltof nálægt landamörkum Garðabæjar því áhugavert er að íbúar í Öldu- og Örvasölum í Kópavogi þurfa að keyra veg, sem Kópavogur lagði í landi Garðabæjar, til að komast heim til sín og þá var frétt um það fyrir alls ekki löngu að íbúi í Þrymsölum í Kópavogi hafi verið búinn að taka landsvæði í Garðabæ hálfgerðu ,,eignanámi“ með því að stækka lóð sína inn á land Garðabæjar? ,,Það er rétt að lóðarmörk í Salahverfi og Kórahverfi liggja sums staðar alveg að sveitarfélagsmörkum og hvorki gert ráð fyrir göngustígum eða opnum svæðum meðfram þeim. Persónulega hefur mér fundist það furðuleg ráðstöfun,” segir Almar og bætir við: ,,Garðabær mun leggja sitt að mörkum til að bæta um betur og gerir ráð fyrir opnum svæðum meðfram sveitarfélagmörkum bæði í þeim skipulagsáætlunum sem hafa verið staðfestar og þeim sem eru í mótun.”

Eins og sjá má á myndinni eru margar baklóðir í Þrymsölum inn á landi Garðabæjar en hvíta punktalínan sínir landamörk bæjarfélaganna tveggja

Viljum áfram eiga gott samstarf við Kópavog, bæði bæjaryfirvöld og íbúa

En áttu von á að deilan í Rjúpnahlíð muni leysast á farsælan hátt fyrir bæði bæjar félögin eða eru þau komin í hár saman? ,,Samstarf við Kópavog er og hefur verið gott í gegnum árin og við teljum okkur yfirleitt hafa sýnt þessum góðu nágrönnum okkar skilning.
Við viljum áfram eiga gott samstarf við Kópavog, bæði bæjaryfirvöld og íbúa. Samtalið um áform okkar er rétt að hefjast. Við munum vanda til verka, eins og við höfum alltaf gert,” segir Almar að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar