Mikilvægt að Stjarnan spili reglulega í Evrópukeppni þannig að afrekshugsun nái að frjóvgast og nærast í félaginu

Stjörnustúlkur mæta Val í efri hluta Bestu-deildar kvenna í kvöld klukkan 19:15 á Samsung-vellinum. Það er mikið undir fyrir Stjörnuna því það er undir þeim sjálfum komið að tryggja sér að nýju sæti í Evrópukeppninni að ári liðinu og eins og hjá strákunum þá eru tölverðir fjármunir undir.

Þegar ein umferð af fimm er búin í efri hluta deildarinnar þá er Stjarnan í þriðja sæti aðeins tveimur stigum á eftir nágrönnum sínum í Breiðablik, en annað sætið gefur þátttökurétt í Evrópukeppninni á næsta ári. Og það er skammt stórra högga á milli því eftir Valsleikinn í kvöld mæta Stjörnustúlkur svo Breiðablik á sunnudaginn kl. 14:00 í Kópavogi.

Það voru töluverðar væntingar gerðar til Stjörnunnar fyrir Bestu deildina í sumar og liðinu jafnvel spáð Íslandsmeistaratitli af nokkrum sparkspekingum enda var gengi liðsins gott sl. sumar auk þess sem liðið sigraði Meistarar meistaranna og Lengjubikarinn sl. vor.

Liðið hikstaði þó töluvert í fyrri umferð Bestu-deildarinnar, sýndi ekki sitt rétta andlit og fékk aðeins 12 stig úr fyrstu 10 umferðunum og var í neðri hluta deildarinnar. Stúlkurnar bættu þó sinn leik í síðustu 8 umferðunum og þær enduðu í þriðja sæti Bestu deildarinnar.

Eins og áður segir tryggðu Stjörnustúlkur sér sæti í Evrópukeppninni í ár eftir gott tímabil í fyrra og þær voru einmitt í Hollandi í síðustu viku þar sem stúlkurnar léku tvo leik í Evrópukeppninni, gegn Levante frá Spáni, sem tapaðist, og gegn Sturm Graz, sem Stjarnan vann eftir vítaspyrnukeppni.

Það er því ekki úr vegi að byrja að spyrja Kristján Guðmundsson, þjálfara liðsins, hvernig ferðin hafi verið til Hollands.

Hópurinn kemur til baka með góðar minningar

Þið voruð í Hollandi í síðustu viku þar sem þið tókuð þátt í undankeppni Meistaradeildarinnar til að komast í riðlakeppni deildarinnar. Hvernig var þessi ferð, hvar stendur Stjarnan miðað við þessa tvo leiki gegn Levante og Sturm Graz og varstu sáttur með frammistöðu liðsins? ,,Frammistaða liðsins var heilt yfir mjög góð og ferðin gekk öll verulega vel og kemur hópurinn allur tilbaka í Garðabæinn með góðar minningar,” segir Kristján og heldur áfram:. ,,Báðir leikirnir voru spilaðir í 35 stiga hita sem eru afar óvenjulegar aðstæður fyrir okkur. Leikirnir voru mjög ólíkir, gegn Levante vorum við lítið með boltann en nutum þess að spila góðan varnarleik en gegn Sturm Graz vorum við mikið með boltann og nutum þess að spila fótbolta á vallarhelming andstæðingsins. Að vera með stöðuna 0-0 í hálfleik gegn Levante eru góð úrslit út af fyrir sig þó lokatölur hafi orðið 0-4. Stjarnan fékk hættulegustu færin í fyrri hálfleik þar sem markverja Levante varði tvisvar og varnarmaður einu sinni á milli þess sem boltinn small í stönginni. Mörk breyta leikjum og það hefði verið gaman að sjá þróun leiksins ef Stjarnan hefði verið með 1-0 forystu í leikhléi. Gegn Sturm Graz voru yfirburðir Stjörnunnar miklir og opin færi sem Stjarnan fékk en boltinn vildi einfaldlega ekki inn í markið. Að lokum tókst þó að vinna sigur í vítakeppni og tryggja mikilvæg stig á UEFA-listann. Það sem Stjörnuliðið lærir hvað mest af þeirri reynslu að spila þessa tvo leiki er hversu mikilvægt er að halda boltanum innan liðsins og ná meiri stjórn á leikjum ásamt því að gera sér grein fyrir hversu agaður varnarleikur getur verið góður leikstjórnandi.”

Vorum of lengi að finna þá blöndu í liðinu sem vann best saman

En nú er Bestu deildinni lokið. Ykkur var spáð góðu gengi fyrir tímabil og endið í 3. sæti og tryggið ykkur þar með sæti í efri hluta úrslitakeppni Bestu deildarinnar. Ef þú lítur aðeins yfir sumarið – hvernig metur þú það, sáttur við spilamennsku liðsins og stöðu ykkar í lokin? ,,Byrjunin á keppn- istímabilinu var okkur svolítið erfið. Kannski hlustuðum við of mikið á það sem aðrir en við sjálf voru að tala um okkar lið , spár og annað , en helst var það að við vorum of lengi að finna þá blöndu í liðinu sem vann best saman. Við áttum misjafna leiki framan af en náðum okkur vel á strik nú seinni hlutann þegar meira jafnvægi var komið í liðið og leikmannahópinn. Að enda í 3. sæti í töflunni eftir að hafa verið um miðja deild lengst af var vel gert hjá liðinu,” segir Kristján.

Nú er úrslitakeppnin farin stað og þið byrjuðu á góðum sigri á móti FH. Ertu ánægður með hvernig hlutirnir gengu í þeim leik, mikilvægur sigur upp á framhaldið? ,,Stjörnuliðið spilaði mjög góðan leik og nýtti færin sín virkilega vel. Leikurinn var þó aldrei búinn þótt að staðan væri orðin 3-0 á tímabili í seinni hálfleik því FH spilaði sinn besta leik i dágóðan tíma og ógnaði okkur allan tímann og voru hársbreidd frá því að jafna leikinn. Úrslit leiksins voru gríðarlega mikilvæg fyrir Stjörnuna og kom liðinu skyndilega í raunhæfa möguleika á að enda hærra í töflunni í lok mótsins.”

Markmið að elta og setja pressu á efstu liðin

Þrátt fyrir að ýmislegt hefði geta farið betur í sumar þá er það í raun í ykkar höndum í dag að ná 2. sæti í úrslitakeppni Bestu-deildar og þar með að tryggja ykkur þátttökurétt í Evrópu að ári. Það hlýtur að vera jákvætt og þið hljótið að vera nokkuð hungruð að komast þangað aftur nýkomin heim frá Hollandi og hvaða markmið settuð þið ykkur fyrir úrslitakeppnina? ,,Þátttaka Stjörnunnar í forkeppni Meistaradeildar í seinustu viku var gríðarlega mikilvæg fyrir leikmenn til þess að sjá hvert er næsta stig í þróun og þroska leikmanna og liðsins. Metnaður leikmanna eykst við að fá að spila fyrir félagið sitt við margar af sterkustu leikmönnum heims og er sterkur hvati fyrir liðið til þess að gera enn betur í Bestu deildinni. Markmið Stjörnunnar í úrslitakeppninni er að elta og setja pressu á efstu liðin út mótið en forysta þeirra var á tímabili nokkuð afgerandi.”

Mikilvægt að halda mistökum í lágmarki

Næsti leikur ykkar er í kvöld, fimmtudaginn 14. september, við Val á Samsungvelli, en Valur er nánast komin með 9 fingur á Íslandsmeistaratitilinn. Hvernig líst þér á þann leik, mikilvægt að taka stiginn þrjú upp á baráttuna um 2. sætið, Evrópusætið? ,,Leikurinn gegn Val er gríðarlega mikilvægur fyrir Stjörnuliðið til þess að halda áfram að setja pressu á tvö efstu liðin í deildinni. Leikirnir á milli þessara tveggja liða í sumar hafa verið hnífjafnir og það er mikilvægt að halda mistökum í lágmarki. Bæði lið eru full sjálfstrausts eftir vel heppnaðar keppnisferðir í seinustu viku í Evrópukeppninni,” segir Kristján en Stjarnan vann fyrri leik liðanna í sumar og síðari leikurinn fór jafntefli.

Að rýna eingöngu í úrslit leikja er villandi

Ef við rýnum í sumarið, þá töpuðu þið ekki leik í sumar á móti Val og Breiðablik, tveimur efstu liðunum í deildinni, en töpuðu m.a. fyrir Tindastól og Selfossi sem er þegar fallið um deild. Hentar það ykkur betur að leika á móti sterkari liðunum ef við getum orðað það svo – eitthvað andlegt vanmat í gangi gegn lægra skrifuðum andstæðingum þótt það eigi ekki að vera? ,,Svona er bara boltinn. Það er hægt að spila virkilega vel en ná ekki að vinna eða spila verulega illa og vinna leikinn. Það er frammistaðan sem skiptir okkur mestu máli og að það séu við sjálf sem greinum hana og höldum öðrum utanaðkomandi frá þeirri greiningu. Að rýna eingöngu í úrslit leikja er villandi en gefur þó til kynna niðurstöðu leikjanna og oftast fylgja góð úrslit góðri frammistöðu liða. Í fljótu bragði finn ég þrjá leiki þar sem frammistaða liðsins var undir þeim væntingum sem gerðar eru til Stjörnuliðsins. Ég finn ansi fleiri leiki þar sem frammistaða Stjörnuliðsins var góð.”

Eðlilegur fylgifiskur þátttöku í Evrópukeppni og við fögnum því bara

Og það er skammt stórra högga á milli því þið eigið Breiðablik á sunnudag-inn. 17. september, þú ert sjálfsagt ekki farinn að velta þeim leik fyrir þér enda mikilvægur leikur við Val í kvöld. Þið fáið degi minni hvíld en Blikar, ósattur við það eða ekkert verið að velta sér upp úr því? ,,Þessi munur á leikdögum er vegna Evrópuleikja Vals og Stjörnunnar í seinustu viku og heimferðar til Íslands eftir þá leiki. Þetta er eðlilegur fylgifiskur þátttöku í Evrópukeppni og við fögnum því bara.”

Mikilvægt fyrir unga iðkendur að eiga sterkar fyrirmyndir

En það er svo væntanlega mikilvægt að fá góðan stuðning í kvöld á Samsungvellinum og í raun bara út alla úrslitakeppnina, mikilvægt fyrir leikmenn og félagið að komast aftur Evrópukeppnina að ári? ,,Það er hvoru tveggja ánægjulegt og mikilvægt að Stjarnan spili reglulega í Evrópukeppni þannig að afrekshugsun nái að frjóvgast og nærast í félaginu. Fyrir unga iðkendur að eignast sterkar fyrirmyndar í íþróttum er mótandi og mikilvægt. Stuðningur við liðið úr stúkunni er alltaf mikilvægur og vonumst við eftir að sjá okkar harðasta stuðningsfólk í kvöld,” segir Kristján og nú er um að gera að mæta og styðja stúlkurnar í úrslitakeppninni.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar