Almar Guðmundsson, bæjarstjóri í Garðabæ hefur sent erindi til fjármála- og efnahagsráðherra, forsætisráðherra og heilbrigðisráðherra þar sem óskað er eftir samráði við Garðabæ um framtíð og skipulag Vífilsstaðasvæðisins þar með talin framtíðarnýtingu fasteigna á Vífilsstöðum sem eru í eigu ríkisins.
Rúmlega 7 ár eru liðin síðan samningur var undirritaður á milli Garðabæjar og ríkissjóðs um kaup Garðabæjar á alls 202,4 hektarar landssvæði í kringum Vífilsstaðaspítala, svæði austan Vífilsstaða (Skyggnir), núverandi golfvallarsvæði GKG, friðland í Vífilsstaðahrauni og Rjúpnahæð á móts við Kjóavelli og var kaupverðið 558,6 milljónir króna, en það byggðist á mati á grunnverði landsins sem aðilar stóðu sameiginlega að. Í samkomulaginu var einnig ákvæði um að til viðbótar kaupverðinu eigi ríkið rétt á hlutdeild í ábata af sölu byggingarréttar á svæðinu.

Þess má geta að framkvæmdarfélagið Arnarhvoll bauð tæplega 3,3 milljarða króna í allar lóðirnar í fyrsta áfanga í Vetrarmýri, og enn á eftir að bjóða út tvo áfanga til viðbótar í Vetrarmýri.
Tekið var fram í samningnum sem voru undirritaðir árið 2017 að allar húseignir ríkisins á Vífilsstöðum væru undanskildar og átti að gera lóðarleigusamning um eignirnar. Með kaupunum á landinu tryggði Garðabær sér forræði yfir eignarhaldi landsins, sem auðveldar bæjarfélaginu að vinna að gerð skipulagsáætlana fyrir svæðið.
Svæðið býður upp á margþætta möguleika enda er staðsetningin einstök
Garðapósturinn heyrði í Almari og spurði hann nánar um erindið sem hann sendi ráðherrunum í síðustu viku og hver tilgangurinn væri með því? „Vífilsstaðir eru perla í bæjarlandinu með sterka sögulega skírskotun. Nú er komið að því að móta framtíðarsýn svæðisins og uppfæra skipulag. Svæðið býður upp á margþætta möguleika enda er staðsetningin einstök. Með bréfinu er ég að kalla eftir samvinnu við ríkið um næstu skref, enda eru fasteignirnar á svæðinu að langmestu leyti í þeirra eigu.“
Um er að ræða flestar eignirnar á Vífilsstaðatorfunni
Hefur Garðabær áhuga að eignast ríkiseignirnar á Vífilsstöðum, hvaða eignir eru þetta fyrir utan Vífilsstaðaspítala, hvað vill þá Garðabær gera við þær, nýta eða rífa og yrði það ekki bara aukinn kostnaður fyrir Garðabæ að reka og viðhalda þessum fasteignum? „Um er að ræða flestar eignirnar á Vífilsstaðatorfunni, en þarna eru líka byggingar í eigu Garðabæjar og Hjallastefnunnar. Við viljum móta sameiginlega sýn með ríkinu um framtíðareignarhald á fasteignum ríkisins þarna. Ég sé það þannig fyrir mér að mikilvægt sé að fá sterka þróunaraðila með ríki og okkur inn í framvinduna á svæðinu og þar með eignarhald á fasteignum. Svo þarf líka að horfast í augu við margar þeirra eru í slæmu ástandi. Hlutverk Garðabæjar í málinu er fyrst og fremst að leggja fram framtíðarsýn og fá öfluga aðila, ríki og fleiri, með í að þróa svæðið. Eignarhald okkar á fasteignum er ekki aðalatriðið í því.“

Skylda okkar að spítalabyggingin verði áfram í öndvegi á svæðinu
Er hugmyndin að Vífilsstaðaspítala verði lokað þegar nýtt þjóðarsjúkrahús verði komið í notkun árið 2029 eins og gert er ráð fyrir og viljið þið þá vera búin að tryggja nýja starfsemi fyrir húsið? „Það er ríkisins að svara fyrir núverandi notkun á húsinu. Við teljum skyldu okkar að spítalabyggingin verði áfram í öndvegi á svæðinu og vitum að hún hentar síður fyrir nútíma heilbrigðisþjónustu. Það þarf því að finna framtíðarnotkun fyrir húsið sem hæfir því og tryggir að það verði þarna áfram í öndvegi. Það eru ýmsar aðrar leiðir að því markmiði en að Garðabær eignist húsið.“
Og er eitthvað landssvæði enn í landi Vífilsstaða sem ríkið á og Garðabær vill eignast? „Nei.“
Hvernig sjáið þið framtíðarskipulag Vífilsstaðalands, sérstakleg við og kringum Vífilsstaðaspítalann í átt að Vífilsstaðavatni og Reykjanesbrautinni? „Það liggur aðeins fyrir rammaskipulag fyrir svæðið og nú er undirbúingur hafinn að frekari skipulagsvinnu sem við teljum æskilegt að hafa samráð við ríkið um. Það er því búið að skilgreina nákvæmlega hvernig svæðið verður nýtt. Þarna er þegar mikilvæg fræðslustarfsemi á vegum Garðabæjar og Hjallastefnunnar sem við viljum hlúa áfram að. En þarna eru margvísleg tækifæri í skipulagi sem þarf að ræða og vinna að.“


Þegar um er að ræða sölu lóða á Vífilsstaðalandinu sjálfu skiptist ábatinn á milli Garðabæjar og ríkis
Og Garðabær hefur nú þegar selt byggingarlóðir fyrir nokkra milljarða í Vetrarmýri, hvað verð hafið þið fengið fyrir þessar lóðir og hver er hlutur ríkisins af ábatanum af sölunni? „Landið í Vetrarmýri var í eigu Garðabæjar og allar tekjur af því renna því til okkar. En þegar um er að ræða sölu lóða á Vífilsstaðalandinu sjálfu skiptist ábatinn á milli Garðabæjar og ríkis samkvæmt samningnum sem gerður var 2017.“
Þetta er stórt verkefni en áríðandi að fyrstu skrefin verði stigin sem fyrst
Að lokum, hvað finnst þér skipta mestu máli í þeirri vinnu sem framundan er varðandi Vífilsstaði? „Þróun svæðins og framtíð verður að liggju fyrir sem fyrst þannig að íbúar Garðabæjar, t.d. nýir íbúar í Vetrarmýri og Hnoðraholti þegar þar að kemur, sjái að uppbygging fari af stað. Þetta er stórt verkefni en áríðandi að fyrstu skrefin verði stigin sem fyrst. Ég kalla eftir áhuga íbúa og dugmikilla þróunaraðila og er sannfærður um að þau komi með snjalla sýn og auka orku inn í verkefnið,“ segir Almar að lokum.
