Slegið var til sannkallaðrar veislu á Bókasafni Kópavogs þegar haldin var venesúelsk hátíð.
Hátíðin byrjaði með smiðjum þar sem föndraðir voru venesúelskir fánar og armbönd. Smiðjan var svo brotin upp með dásamlegri sögustund á spænsku með leikaranum Abdias Santiago fyrir unga sem aldna. Að því loknu var boðið upp á smakk af venesúelskri matargerð og síðan var spiluð venesúelsk þjóðlagatónlist með Galaxia Paraíso með söngatriðum inn á milli frá börnum á svæðinu.
Mikil gleði og góð stemning einkenndu hátíðina og var umtalað hversu skemmtilegt var á safninu meðan á hátíðinni stóð, en myndir segja meira en þúsund orð.
Venesúelska hátíðin var haldin í samstarfi við GETU – hjálparsamtök sem styðja við flóttafólk og umsækjendur um vernd í Hafnarfirði, Kópavogi og nágrenni. Með reglulegum samverustundum, listasmiðjum og öðrum viðburðum er leitast við að rjúfa félagslega einangrun flóttafólks, efla getu þeirra og virkni og stuðla þannig að inngildingu og jákvæðu fjölmenningarlegu samfélagi.
Hátíðin er er hluti af verkefninu Bókasafnið í fjölmenningarlegu samfélagi og er styrkt af bókasafnasjóði og Nordplus.