Jóna og Kristrún heiðraðar fyrir þeirra framlag í nýrri uppgerðri Smiðju

Smiðjan í Kirkjuhvoli, sem hýst hefur listnámskeið eldri borgara í Garðabæ í yfir 20 ár, var opnuð á ný föstudaginn 16. júní síðastliðinn, eftir tæplega þriggja mánaða lokun vegna framkvæmda. Húsnæði Smiðjunnar er komin til ára sinna en allt fram til 1993 var Hofsstaðaskóli þar með sína starfsemi og minnast margir Garðbæingar þess tíma.

Allt frá 1994 hafa ýmis listanámskeið verð kennd í Smiðjunni og má þá helst nefna trésmíði, glerlist, leirlist og listmálun. Fyrir marga er Smiðjan mjög kær staður, ekki eingöngu til að sinna listsköpun heldur til að sækja góðan félagsskap og njóta samvista. Á föstudögum er hið víðfræga „föstudagskaffi“ þar sem „nemendur“ mæta með eigið bakkelsi og ræða lífsins gagn og nauðsynjar. Afrakstur þessa listastarfs er síðan sýndur á hinni árlegu vorsýningu í Jónshúsi sen segja má að sé uppskeruhátíð félagsstarfs í Smiðjunni. Á vorsýningunni gefur á að líta ótrúlega fallega listmuni sem unnir hafa verið frá hausti og fram á vor.

Smiðjan hefur fengið góða yfirhalningu og verið endurskipulögð; m.a. hafa veggir verið málaðir, skipt hefur verið um gólfefni og húsgögn endurnýjuð og ráðist var í mikla tiltekt ásamt fleiru.
Ljóst er að margir félagsmenn höfðu beðið með mikilli óþreyju eftir þessum opnunardegi þar sem „nemendur“ og aðrir velunnarar gerðu sér glaðan dag en Almar Guðmundsson bæjarstjóri Garðabæjar ávarpaði einnig gesti. Í tilefni dagsins færði Elín Þ. Þorsteinsdóttir umsjónarmaður með félagsstarfi eldri borgara í Garðabæ, þeim Kristrúnu E. Kristófersdóttur og Jónu Valgerði Höskuldsdóttur, blómvendi fyrir þeirra ríkulega framlag til starfsemi Smiðjunnar í gegnum árin.

Mynd: Í tilefni dagsins færði Elín Þ. Þorsteinsdóttir umsjónarmaður með félagsstarfi eldri borgara í Garðabæ og Almar Guðmundsson, bæjarstjóri í Garðabæ, þeim Kristrúnu E. Kristófersdóttur og Jónu Valgerði Höskuldsdóttur, blómvendi fyrir þeirra ríkulega framlag til starfsemi Smiðjunnar í gegnum árin.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar