Hefur eldað yfir 30 þúsund kvöldverði fyrir þátttakendur á Símamótinu á 22 árum

Sjálfboðaliðar leika stórt hlutverk á Símamóti Breiðabliks ár hvert, en þeirra störf verða seint fullmetin því án sjálfboðaliða væri ekkert Símamót.

Haukur Valdimarsson matreiðslumaður er einn sjálfboðaliðanna sem hefur unnið óeigingjarnt starf fyrir Breiðablik í yfir 20 ár, en hann hefur verið ,,aðal kokkurinn” og séð um að elda fyrir þá þátttakendur, farastjóra og þjálfara sem skráðir eru í mat á Símamótinu.

Hvenær og hvernig kom það til að Haukur ákvað að slá til og byrja að elda ofan í hundruð stúlkna á Símamóti Breiðabliks ár hvert? ,,Þegar dætur mínar, Jóna Kristín og Hildur Sif byrjuðu að æfa fótbolta hjá Breiðablik um árið 2000 fór ég í unglingaráð Breiðabliks. Þá var Ari Skúlason formaður og eftir að hafa rætt málin í góðan tíma þá ákváðum við að gera þetta sjálfir frá árinu 2002 þ.e.a.s. að sjá um matinn á Símamótnu,” segir Haukur sem er menntaður matreiðslumaður en sinnir þó öðrum störfum í dag þótt hann taki stundum að sér einstaka veislur. ,,Ég hef starfað við sölumennsku frá 1993, en hef alltaf klætt mig reglulega í kokkagallann með vinnu.”

Haukur með dætrum sínum, Hildi Sif og Jóna Kristínu og eiginkonu, Lindu Björk er þær tóku við Íslandsmeistaratitlinum árið 2010 eða 2011

Var nánast alltaf sama fólkið sem sá um Símamótið

,,Þetta var á þessum árum nánast alltaf sama fólkið sem sá um Símamótið og það hefur alltaf verið mjög gaman að vera hluti af þessu. Á síðustu árum hafa svo margir nýir komið inn m.a. Eysteinn og Jóhann sem hafa að mestu skipulagt allt í kringum mótið.”

Rúmlega 3000 pylsur fara á grillið á laugardaginn

Þetta er langur tíma sem þú hefur verið með puttana í þessu, 23 árið í ár. Hvert er þitt hlutverk í raun? ,,Á mótinu undirbúum við og berum fram morgunmat 3 morgna og svo er boðið upp á kvöldmat tvö kvöld. Laugardagskvöldið eru síðan grillaðar pylsur fyrir alla þátttakendur og í ár verða þetta yfir 3000 pylsur,” segir Haukur, sem reiknar með um 500 stúlkum í mat í ár auk farastjóra og þjálfara. ,,Þetta var mun fjölmennara hér áður fyrr og meira að gera í eldhúsinu, en þá voru fleiri aldursflokkar að keppa auk þess sem allar Blikastelpurnar mættu í morgunmat og kvöldmat,” segir hann, en þegar þetta er gróflega tekið saman þá hefur hann eldað yfir 30.000 þúsund kvöldverði á samtals 44 dögum í þessi 22 ár.

Mikill áhugamaður um fótbolta

Er Haukur sjálfur mikill fótboltaáhugamaður? ,,Já, ég er mikill áhugamaður um fótbolta og held með Breiðablik og Arsenal í enska boltanum. Ég eldaði meira að segja fyrir Arsenalstelpurnar árið 2005 eða 2006 þegar þær komu að keppa við Breiðablik,” segir Haukur sem hefur sjálfsagt dekrað við vel við leikmenn Arsenal, en hann hefur einnig eldað fyrir stelpurnar í Chelsea. ,,Já, það er rétt. Kvennalið Chelsea kom og heimsótti Símamótið eitt árið og að sjáfsögðu var þeim boðið í mat,” segir hann.

,Já, ég er mikill áhugamaður um fótbolta og held með Breiðablik og Arsenal í enska boltanum. Ég eldaði meira að segja fyrir Arsenalstelpurnar árið 2005 eða 2006 þegar þær komu að keppa við Breiðablik,” segir Haukur

Hefur ekki staðið vaktina einn í eldhúsinu

En hvernig hefur svo matseðilinn á Símamótinu litið út undanfarin ár? ,,Við höfum verið með sama matseðilinn svona sirka síðustu 10 ár, hakkabollur með sósu, salati og hrísgrjónum og svo er Lasagna með salati og brauð seinna kvöldið,” segir Haukur og vill koma því á framfæri að hann hafi alls ekki staðið einn í eldhúsinu. ,,Það hafa margir komið að eldamenskunni með mér m.a. konan mín, Linda Björk Elíasdóttir, sem hefur verið með mér öll þessi ár ásamt bróðir mínum Herði, sem er líka matreiðslumaður. Þá má ekki gleyma Jóhanni, sem er matreiðslumaður í Hjallaskóla og hefur aðstoða okkur síðustu ár,” segir Haukur, en maturinn er bæði eldaður í Smáraskóla og í Fagralundi.

Á leiðinni að hætta síðustu 10 ár!

Og 23 ár er góður tími. Hvað með framhaldið? ,,Þú segir nokkuð,” segir hann brosandi. ,,Ég er búinn að segja undanfarin 10 ár að þetta verði mitt síðasta mót, en hér er ég enn og þetta er alltaf jafn skemmtilegt,” segir hann að lokum.

Forsíðumynd: Hjálpast að í eldhúsinu! Haukur ásamt Ásdísi Marion Gísladóttur, bróðir sínum Herði og Þorsteini Hauki, syni Harðar á mótinu árið 2004

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar