Féllum strax fyrir óspilltri náttúrunni sem umlukti hverfið – segir Hafliði Kristinsson formaður íbúasamtaka Urriðholts og Garðbæingurinn okkar árið 2024

Hafliði Kristinsson, fjölskyldu- og hjónabandsráðgjafi, formaður íbúasamtaka Urriðaholts og nú Garðbæingurinn okkar 2024, hefur með eldmóði og óeigingjörnu sjálfboðastarfi unnið ómetanlegt starf í þágu samfélagsins í Urriðaholti. Hann hefur á síðustu árum byggt upp sterkan vettvang fyrir samtal milli íbúa og bæjaryfirvalda og ekki síst tryggt að raddir íbúa heyrist þegar kemur að uppbyggingu og þróun hverfisins. 

Í þessu viðtali við Garðbæinginn okkar fáum við aðeins að kynnast manninum á bak við þetta óeigingjarna starf, sem hann sinnir fyrir íbúa í Urriðhaolti.

Næstelstur 11 systkina

En hver er Hafliði Kristinsson? ,,Ég er fæddur árið 1956, næstelstur 11 systkina en foreldrar mínir voru kartöflu- og kúabændur í Þykkvabænum. Einhvern veginn æxlaðist það þannig að ég ílentist hjá móðurafa og ömmu í Reykjavík og þar gekk ég í Austurbæjarskólann, en öll sumur og flest frí frá skóla var ég mættur í Þykkvabæinn. 17 ára fór ég sem skiptinemi til Bandaríkjanna og það ár opnaði mér nýjan heim. Konan mín, Steinunn Þorvaldsdóttir, kemur frá Vestmannaeyjum og við höfum eignast 4 börn, þrjú þeirra eru á lífi en við misstum frumburðinn okkar aðeins tveggja daga gamlan. Í dag eigum við 7 barnabörn og njótum samverunnar við allan hópinn okkar. Fyrra háskólanámið mitt var í guðfræði og um 13 ára skeið var ég prestur í Hvítasunnukirkjunni Fíladelfíu. Síðan fluttum við í þrjú ár til Los Angeles þar sem ég lærði hjóna- og fjölskyldumeðferð og síðastliðin 25 ár hef ég starfað sem fjölskylduráðgjafi. Fyrir níu árum bætti ég svo við leiðsögunámi frá Endurmenntun HÍ og hef starfað meðfram ráðgjöfinni sem leiðsögumaður erlendra ferðamanna, auk þess að skipuleggja ferðir með vinum og göngufélögum víða um heiminn,“ segir Hafliði.

Garðbæingurinn okkar 2025! Almar Guðmundsson, Margrét Bjarnadóttir, Páll Ásgrímur, Hafliði Kristinsson, Ingimundur Orri Jóhannsson, Birna Guðmundsdóttir og Hrafnhildur Sigurðardóttir.

Hvernig kom það til að þú ákvaðst að búa þér heimili í Urriðaholti, nýju hverfi í Garðabæ sem var í uppbyggingarfasa? ,,Við höfðum búið okkur heimili í Smáíbúðahverfinu í Reykjavík og þegar allir voru fluttir að heiman fórum við að líta í kring um okkur að nýrri íbúð í fjölbýlishúsi. Mágkona mín og tengdamóðir höfðu þá nýverið fest sér íbúðir í Urriðaholtinu og við fórum að skoða þetta nýja hverfi. Við hrifumst af hugmyndafræðinni bak við uppbyggingu hverfisins og féllum strax fyrir óspilltri náttúrunni sem umlukti hverfið. Svo fundum við þessa dásamlegu íbúð með óhindrað útsýni yfir Urriðavatn og þá var ekki aftur snúið. Við fluttum síðan í Urriðaholt í júlímánuði árið 2017 en þá var hverfið enn að miklu leyti óbyggt.

Upphaf stofnunar íbúasamtakanna má rekja til samstarfs þriggja áhugamanna um plokk í hverfinu

Hvað leiddi svo til þess að þú varðst formaður íbúasamtaka Urriðaholts og fyrir hvað standa þau? ,,Upphaf stofnunar íbúasamtakanna má rekja til samstarfs okkar þriggja áhugamanna um plokk í hverfinu. Þær Inga Þyrí Kjartansdóttir og Arnheiður Sigurðardóttir voru byrjaðar að halda hverfinu hreinu mitt í öllu plastfokinu frá byggingarsvæðunum og ég gekk í hópinn. Þær höfðu líka heilmiklar skoðanir á því sem betur mætti fara í þessu nýja hverfi og eftir íbúafund með Gunnari, þáverandi bæjarstjóra, beindi hann því til okkar hvort við gætum ekki stofnað íbúasamtök í kringum þennan áhuga okkar. Við tókum hann á orðinu og stofnfundur samtakanna var haldinn 27. maí 2019. Meginmarkmið samtakanna er að efla samhug og samkennd íbúanna, að vera tengiliður milli íbúa og bæjaryfirvalda og að vinna þannig að framfara- og hagsmunamálum í hverfinu.“

,,Upphaf stofnunar íbúasamtakanna má rekja til samstarfs okkar þriggja áhugamanna um plokk í hverfinu. Þær Inga Þyrí Kjartansdóttir og Arnheiður Sigurðardóttir voru byrjaðar að halda hverfinu hreinu mitt í öllu plastfokinu frá byggingarsvæðunum og ég gekk í hópinn,“ segir Hafliði en með honum á myndinni eru þær Arnheiður (l.t.v.) og Inga Þyrí.

En hvað er það sem hvetur þig helst áfram í starfi þínu fyrir íbúasamtökin og samfélagið í Urriðaholti? ,,Það sem hvetur mig áfram er gott samstarfsfólk, jákvæð viðbrögð íbúanna og gott viðhorf bæjaryfirvalda til áskorana okkar um það sem betur má fara. Síðan er mjög gefandi að fá að vera þátttakandi í uppbyggingu nýs hverfis og sjá góðar hugmyndir verða að veruleika, eins og til dæmis plokkhátíðina okkar að vori.“

Helstu áskoranir okkar hafa falist í innviðauppbyggingunni

Það má segja að þú standir vaktina vakinn og sofinn fyrir íbúa í Urriðaholti, hvaða áskoranir hafið þið helst verið að takast á við í Urriðaholti og hverjar eru þær helstu í dag núna þegar hverfið er að verða fullbyggt? ,,Helstu áskoranir okkar hafa falist í innviðauppbyggingunni og þar var áherslan lengi að flýta sem mest mátti úrræðum fyrir barnafjölskyldurnar. Síðan hafa samgöngumálin verið lengi á dagskrá og örugg tenging Urriðaholts við önnur hverfi Garðabæjar að ég tali nú ekki um tenginguna við Flóttamannaveginn. Þegar hverfið er nánast fullbyggt er áherslan á menningu og mannlíf innan hverfisins og hvernig við sem íbúar getum haldið hugsjóninni um umhverfisvænt hverfi gangandi. Við höfum líka viljað efla samheldni og samvinnu innan hverfisins og leitað leiða til að bjóða uppá viðburði sem efla þessa hugsjón.“

Hafliði og Steinunn bjuggu í þrjú ár í Los Angeles þar sem hann lærði hjóna- og fjölskyldumeðferð

Hef kynnst mikið af góðu fólki

Og þú hefur sjálfsagt lært mikið af því að starfa svona náið með samfélaginu í Urriðaholti? ,,Það er ótalmargt sem maður lærir við að hella sér út í vinnu í umhverfi sem maður þekkti ekki fyrir. Samtöl við íbúana og bæjaryfirvöld hafa verið gefandi lærdómsferli og ég hef kynnst svo mikið af góðu fólki sem verður bæði að andliti hverfisins og gefur bæjaryfirvöldum mildari ásýn og mikinn vilja til samvinnu. Sjálfboðaliðsstarf er afar gefandi og hefur verið hluti af lífi mínu frá því ég man eftir og mér finnst óhugsandi að vera ekki í einhverju þannig starfi.“

Ég upplifi afar góðan anda í hverfinu

Hvernig lýsir þú anda samfélagsins í Urriðaholti, er samheldnin góð og hvað er það sem gerir þetta hverfi að einstökum stað til að búa á? ,,Ég upplifi afar góðan anda í hverfinu og mér þykir mjög vænt um hlýjuna og þakklætið sem fólk lætur í ljósi þegar eitthvað tekst vel eða þegar mikilvægir áfangar eru í höfn. Mér þótti afar vænt um hversu vel íbúarnir tóku á móti flóttafólkinu frá Úkraínu og voru tilbúnir að vera með í verkefninu að útvega þeim það sem þau vantaði til að koma sér fyrir í hverfinu.“

Hver eru helstu markmiðin þín og íbúa fyrir hverfið næstu árin og hvernig heldur þú að samfélagið geti eflst enn frekar? ,,Helstu markmiðin eru að fylgja eftir mikilvægum þáttum sem enn eru á framkvæmdastigi og að halda áfram að þrýsta á um framgang verkefna sem enn hafa ekki orðið að veruleika af þeim mikilvægu draumum sem við höfum verið að berjast fyrir undanfarin ár. Ég vildi gjarnan sjá íbúana nýta innviði hverfisins til hins ítrasta og njóta á sama tíma þeirra dásemda í náttúrunni allt í kringum okkur.“

Þetta er sannarlega hvatning til að halda áfram

En hvaða áhrif hefur nú þessi viðurkenning, Garðbæingurinn okkar 2024, fyrir þig? ,,Mér þykir afar vænt um þessa viðurkenningu, en á sama tíma hugsaði ég hversu margir aðrir hlytu að vera líklegri til að fá þessa nafnbót því ég hef aðeins búið í Garðbæ í tæp átta ár. Þetta er sannarlega hvatning til að halda áfram á þessari braut og að halda merki Urriðaholts á lofti á lokasprettinum í uppbyggingu hverfisins.“

Eru einhverjir þættir í samfélaginu í Urriðaholti sem þú telur að gætu verið fyrirmynd fyrir önnur hverfi í Garðabæ? ,,Mér finnst okkur hafa tekist vel til með verkefni sem hafa vakið áhuga íbúa hverfisins og eflt tengsl og samhug. Við erum líka með öfluga og góða íbúasíðu á Facebook þar sem íbúar hafa minnt bæði á góða hluti og gert athugasemdir við það sem betur mætti fara.“

Hafliði starfar m.a. sem leiðsögumaður og hann hefur gengið 37 sinnum að gosinu í nágrenni Grindavíkur

Hjálpar til að mál festist ekki í átökum eða þrætum

Og svona í léttum tóni, er reynsla þín sem fjölskyldu- og hjónabandsráðgjafi einnig að nýtast íbúum í Urriðaholti – allir hamingjusamir í Urriðaholti? ,,Ég held að reynsla mín í að hlusta á erfið mál í ráðgjöfinni og reyna síðan að finna nýjan og betri flöt á erfiðu samtali eða að stinga upp á nýrri nálgun í að koma athugasemdum á framfæri hafi stundum hjálpað til að mál festist ekki í átökum eða þrætum. Ég vona að flestir séu hamingjusamir í Urriðaholti en ég held að það sé meira undir hverjum og einum komið þótt umhverfið og gott mannlíf geti augljóslega stuðlað að meiri vellíðan.“

Skorað stig með ,,high school” liðinu á Arrowhead, stóra heimavelli Chiefs í Kansas City

Hvað gerir svo Garðbæingurinn okkar í frítíma sínum annað en að standa vaktina fyrir íbúa í Urriðaholti? ,,Ég hef áhuga á ótalmörgu utan þess sem ég vinn við dagsdaglega. Ég hef mikinn áhuga á útivist, tónlist, íþróttum og kirkjulegu starfi. Við hjónin eigum góða fjölskyldu og vinahópa sem við göngum á fjöll með og ég hef sungið í gospelkór Fíladelfíu í mörg ár. Við eru dugleg að sækja tónleika og við höfum ferðast víða um heiminn bæði í göngu- og menningarferðir. Við erum reyndar á leið til Ítalíu um páskana með börnum og barnabörnum en við reynum að ferðast reglulega með þessum hóp. Síðustu daga höfum við fylgst spennt með gengi íslenska landsliðsins í handbolta, erum alsæl með árangur Liverpool í ensku og ég vona að Kansas City Chiefs vinni NFL ofurskálina. Svo skemmtilega vill til að ég hef skorað stig með ,,high school” liðinu mínu á Arrowhead, stóra heimavelli Chiefs, þegar ég var skiptinemi í Kansas City um árið,“ segir Hafliði, Garðbæingurinn Okkar brosandi að lokum.

Hafliði Kristinsson, fjölskyldu- og hjónabandsráðgjafi, formaður íbúasamtaka Urriðaholts og nú Garðbæingurinn okkar 2024, hefur með eldmóði og óeigingjörnu sjálfboðastarfi unnið ómetanlegt starf í þágu samfélagsins í Urriðaholti. Hér tekur hann við viðurkenningunni Garðbæingurinn okkar árið 2024 úr hendi Almars Guðmundssonar bæjarstjóra í Garðabæ.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar