Anna Júlía í GKG Íslandsmeistari í holukeppni kvenna

Anna Júlía Ólafsdóttir í GKG gerði sér lítið fyrir og varð Íslandsmeistari í holukeppni kvenna 2024 er hún sigraði Fjólu Margréti Viðarsdóttur, GS 6&5 í úrslitaleiknum, en Íslandsmótið í holukeppni 2024 fór fram dagana 14.-16. júní á Hlíðavelli hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar.

Þetta er fyrsti Íslandsmeistaratitill Önnu Júlíu á ferlinum í einstaklingskeppni en hún er 24 ára og var að ljúka námi í bandarískum háskóla, þar sem hún lék golf samhliða náminu.

Mótið var það 36. í röðinni frá því að fyrst var keppt árið 1988.

Í fyrri hluta Íslandsmótsins í holukeppni, sem fram fór föstudaginn 14. júní var leikinn 36 holu höggleikur án forgjafar, þar sem sextán efstu keppendurnir komust áfram í útsláttarkeppni, en GKG átti 8 fulltrúa á mótinu. Að höggleik loknum voru leiknar fjórar umferðir í holukeppni.

Keppt verður í karlaflokki á Íslandsmótinu í holukeppni dagana 22.-24. júní á Garðavelli á Akranesi og þar á GKG 10 fulltrúa, þar á meðal er Aron Snær Júlíusson sem er ríkjandi Íslandsmeistari í holukeppni.

Íslandsmeistari! Eva Kristinsdóttir, Anna Júlía Ólafsdóttir og Fjóla Margrét Viðarsdóttir. Myndir/[email protected]

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar