Fjárhagsáætlun fyrir árið 2024 var samþykkt í bæjarstjórn Kópavogs að lokinni seinni umræðu í síðustu viku. Einnig var samþykkt þriggja ára áætlun fyrir tímabilið 2025-2027.
Breytingar sem urðu á fjárhagsáætluninni milli umræðna fela meðal annars í sér hækkun á viðhaldskostnaði bygginga í eigu bæjarins og hækkun á frístundastyrk til barna í Kópavogi. Áfram verður hagrætt í rekstri og meðal annars dregið úr nefndarkostnaði með fækkun funda í flestum nefndum og ráðum.
Þá lágu upplýsingar um hlutdeildarfélög ekki fyrir við fyrri umræðu. Heildaráhrif þeirra á rekstrarniðurstöðu áætlunarinnar er sú að rekstrarniðurstaða hækkar um 90 milljónir. Rekstrarniðurstaða samstæðunnar verður 228 milljónir samkvæmt áætluninni.
Dregið úr nefndarkostnaði með fækkun funda
Kópavogspósturinn heyrði í Ásdísi og spurði hana m.a. í hverju þessar breytingar felast á milli umræðna og hvar á að skera frekar niður til að hægræða í rekstri bæjarins? ,,Rekstur Kópavogsbæjar er traustur og við erum að reka bæinn með ábyrgum hætti. Við þær aðstæður sem nú ríkja í efnahagslífinu er mikilvægt að hagræða í rekstri án þess þó að ráðast í niðurskurð sem kemur niður á þjónustu bæjarins. Í fjárhagsáætlun var samþykkt að draga úr nefndarkostnaði með fækkun funda í ráðum og nefndum, töluverður sparnaður fæst með því. Þá verður kortlagt hvernig unnt er að ná hagkvæmari innkaupum, meðal annars með stofnun vefverslunar sem tryggir lægstu verðin hverju sinni í innkaupum bæjarins,” segir Ásdís.
Fasteignaskattar í Kópavogi verða með þeim lægstu á landsvísu
Og þið ætlið að lækka fasteignagjöldin á milli ára? ,,Já, við ætlum að lækka fasteignaskatta og önnur fasteignagjöld milli ára. Fasteignaskattar verða eftir lækkun með þeim lægstu á landsvísu en allir bæjarbúar njóta góðs af lækkuninni. Fasteignagjöld eru svo áþreifanleg þar sem fólk greiðir þau um hver mánaðarmót og við viljum koma í veg fyrir að þau hækki tugi prósenta milli ára vegna hækkandi fasteignaverðs. Þess í stað eru fasteignagjöld að meðaltali að fylgja verðlagsþróun, þó það er vissulega breytilegt milli hverfa,” segir hún.
Væntingar og vinnulag bæjarfulltrúa voru ólíkar við vinnu fjárhagsáætlunar
Fram kom á fundinum að minnihlutinn í bæjarstjórn harmar afturför í vinnubrögðum við gerð fjárhagsáætlunar Kópavogs, engin samvinna á milli minnihlutans og meirihlutans eins og hefð hefur verið fyrir – hvað viltu segja um það? ,,Ljóst er að væntingar og vinnulag bæjarfulltrúa voru ólíkar við vinnu fjárhagsáætlunar. Minnihlutinn ákvað að vinna ekki áfram með okkur í sameiginlegri fjárhagsáætlunarvinnu í fyrra. Í ár var aðgerðaáætlun málefnasviða lögð fram á vinnufundum fyrir fagráðin, þar sem minnihlutinn á sína fulltrúa. Vinnufundur var einnig haldinn með fulltrúum bæjarráðs þar sem aðgerðaáætlanir fagráða voru lagðar fram og ræddar. Í bæjarráði var sömuleiðis fjárhagsáætlun rædd og vísað til umræðu í bæjarstjórn. Ég veit ekki betur en að þetta er svipuð vinna og unnin er í öðrum sveitarfélögum.”
Það er ekki rétt að verið sé að skerða þjónustu
En umræðurnar í bæjarstjórn voru nokkuð fjörugar og allir bæjarfulltrúar minnihlutans gagnrýndu, hver fyrir sig, ákveðin og að einhverju leiti ólík atriði í fjárhagsáætluninni m.a. stuðning við alla tekjuhópa um öruggt húsnæði í bænum, skerta þjónusta við bæjarbúa, færri tækifæri fyrir þá til að hafa áhrif þar sem íbúalýðræðisverkefninu Okkar Kópavogur sé afturkallað, að það sé verið að auka við skuldir bæjarfélagsins með lántökum o.s.frv. Hvað viltu segja um þessa gagnrýni og á hún rétt á sér í einhverjum tilvikum? ,,Það er mjög eðlilegt að pólitískar umræður séu líflegar í kringum fjárhagsáætlun enda eru áherslur flokka ólíkar. Ég tel hins vegar að gott jafnvægi er í fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar, afgangur er á rekstri og álögur að lækka á bæjarbúa. Þá er fjármagni forgangsraðað í grunnþjónustu, einkum velferðarmál og áfram staðið vörð um góða þjónustu við íbúa. Það er því ekki rétt að verið sé að skerða þjónustu. Þá erum við ekki að afturkalla íbúalýðræðisverkefnið, Okkar Kópavogur, áfram verður jafn mikið fjármagn sett í verkefnið en kosið ekki eins ört,” segir Ásdís.
Ekki gert ráð fyrir tekjum vegna úthlutun lóða
Ásdís segir að skuldastaða Kópavogsbæjar sé sjálfbær, skuldir á hvern íbúa lægri en í nærliggjandi sveitarfélögum og skuldahlutföll verða áfram vel undir skuldaviðmiðum. ,,Í áætlun okkar er gert ráð fyrir umfangsmikilli innviðauppbyggingu, eins og leik- og grunnskólar, meðal annars því úthlutun er framundan í nýju hverfi í efri byggðum Kópavogs. Inn í okkar áætlun er hins vegar ekki gert ráð fyrir tekjum vegna úthlutun lóða sem að sjálfsögðu mun fjármagna að hluta þá innviðauppbyggingu sem er framundan. Þannig að sú orðræða að verið sé að skuldsetja sveitarfélagið með óábyrgum hætti stenst ekki skoðun að mínu mati þegar horft er til skuldastöðu bæjarins og þá staðreynd að við fáum tekjur á móti þegar lóðum verður úthlutað,” segir hún.
Einstakir fulltrúar minnihlutans vildu seilast dýpra í vasa skattgreiðenda
Og þú vilt meina að minnihlutinn hafi kosið gegn skattalækunum? ,,Við erum að skila góðum rekstri til bæjarbúa í formi fasteignaskattslækkana. Ljóst er að bæjarfulltrúar hafa ólíka sýn á það hvernig við nýtum skattstofna sveitarfélagsins. Í bæjarstjórn kusu sem dæmi allir fulltrúar minnihlutans gegn fasteignaskattslækk- un á bæjarbúa,” segir hún og heldur áfram: ,,Í umræðunni voru einstakir fulltrúar minnihlutans að gagnrýna meirihlut- ann fyrir að vannýta tekjustofna bæjarins, bæði útsvarið og fasteignaskattana, og vildu því seilast dýpra í vasa skattgreiðenda til að fjármagna frekari útgjöld eða greiða niður skuldir bæjarins. Þessi nálgun er ekki í samræmi við stefnu meirihlutans, meðan skuldastaðan er sjálfbær og rekstur traustur viljum við fremur skapa rými til að lækka skatta á bæjarbúa.”