Tónlistarstarfið á Hæðarbóli hefur verið innihaldsríkt í vetur. Öll börn skólans fara reglulega í vinnustundir í tónlist og kynnast þar hljóðfærum, dans, leikjum o.fl að ógleymdum barnakórnum sem tveir elstu árgangar skólans syngja í. Elstu börnin í skólanum hafa unnið markvisst með tónsöguna Karnival dýranna eftir Camille Saint-Saëns. Þar segir frá tónskáldi sem var boðið í barnasamkvæmi og ákvað að semja tónsögu til að hafa með sér í veisluna. Í sögunni var hinum ýmsum dýrum s.s. ljóninu og fílnum í Afríku, hænum, skjaldbökum o.fl. boðið að taka þátt í karnivalhátíð. Vikulega á nýliðinni vorönn unnum við markvisst með söguna og nýttum m.a. kennslugögn Lindu Margrétar Sigfúsdóttur „Gaman saman með Karnival dýranna“ til að kynnast tónlistinni og sögupersónum. Þegar börnin voru farin að þekkja söguna tók við undirbúningur fyrir sýningu sem við ákváðum að setja upp. Börnin teiknuðu sögupersón-urnar fyrir brúðuleikhúsuppsetningu og gerðu stórt ljón sem var samvinnuverkefni. Á dögunum var allt efnið tilbúið og þegar búið var að taka nokkur rennsli rann stóri dagurinn upp. Brúðuleikhússýningin „Karnival dýranna“ var sýnd í sal skólans og öllum samnemendum og kennurum skólans boðið að njóta. Sýningin var dásamleg og börnin gengu stolt frá vel unnu verki. Æska landsins er svo sannarlega hæfileikarík og flott.
Anna María Sigurjónsdóttir, verkefnstjóri tónlistar á Leikskólanum Hæðarbóli