7 af 12 frambjóðendum koma úr Garðabæ og Kópavogi

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi hófst í gær en tólf frambjóðendur sækjast eftir að skipa sex efstu sæti Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu, en prófkjörinu lýkur á morgun, laugardag.  

Lýðræðisveislan heldur áfram

Á heimasíðu Sjálfstæðisflokksins kemur fram að lýðræðisveislan haldi áfram með prófkjörinu í Suðvesturkjördæmi, en áður hafa farið fram vel heppnuð prófkjör hjá flokknum í þremur kjördæmum.

Fjórir úr Garðabæ og þrír úr Kópavogi

Sjö af tólf frambjóðendum úr Suðvesturkjördæmi koma úr Garðabæ og Kópavogi, fjórir úr Garðabæ og þrír úr Kópavogi, en Arnar Þór Jónsson, Bjarni Benediktsson, Sigþrúður Ármann og Vilhjálmur Bjarnason eru búsett í Garðabæ og þau Hannes Þórður Þorvaldsson, Karen Elísabet Halldórsdóttir og Jón Gunnarsson búa í Kópavogi.

Sýnishorn að kjörseðli í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi.vísir

Spennan magnast með hverjum klukkutímanum

Góð ásókn var í gær og spennan magnast með hverjum klukkutímanum sem líður, en Bjarni Benediktsson formaður flokksins sækist einn eftir fyrsta sætinu í Suðvesturkjördæmi. Auk hans vilja þrír núverandi þingmenn flokksins skipa efstu sæti listans áfram, það eru þau Bryndís Haraldsdóttir, Jón Gunnarsson og Óli Björn Kárason auk þess sem einn fyrrverandi þingmaður flokksins, Vilhjálmur Bjarnason, sækist eftir því að komast aftur á þing fyrir flokkinn sem hefur fjóra þingmenn í kjördæminu í dag. Auk áður talinna frambjóðenda vilja Arnar Þór Jónsson, Bergur Þorri Benjamínsson, Guðbjörg Oddný Jónsdóttir, Hannes Þórður Þorvaldsson, Karen Elísabet Halldórsdóttir, Kristín Thoroddsen og Sigþrúður Ármann skipa eitthvað af sex efstu sætum listans.

Flokksmenn geta kosið á fimm þéttbýlisstöðum í kjördæminu til klukkan sex í  dag en kosningunni lýkur klukkan sex á laugardag. Í Garðabæ er kosið í félagsheimili Sjálfstæðisfélags Garðabæjar á Garðatorgi 7, en í Kópavogi er kosið í félagsheimili Sjálfstæðisfélagsins í Kópavogi að Hlíðasmára 19 í dag og á morgun, 12. júní, er kosið í Lindaskóla, Núpalind 7.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar