199 atkvæðaseðlar bárust með 577 atkvæðum!

Mikil þátttaka var í kosningu barnanna í Garðabænum um vinsælustu barnabækur síðasta árs í Bókaverðlaunum barnanna. Þrír heppnir þátttakendur voru dregnir út og fengu bók í verðlaun, en það voru þau Freyja Lillý í 4.bekk í Urriðaholtsskóla, Sigrún Ásta í 4.bekk í Álftanesskóla og Guðmundur K. í 2.bekk í Hofsstaðaskóla. Óskum við þeim innilega til hamingju.

Guðmundur í 2. bekk Hofsstaðaskóla

Börnin gátu kosið sínar uppáhaldsbækur á Bókasafni Garðabæjar og skólabókasöfnum. 199 atkvæðaseðlar bárust með 577 atkvæðum og fengu 79 bækur atkvæði. Vinsælustu íslensku bækurnar voru Orri óstöðvandi: Draumur Möggu Messí eftir Bjarna Fritzson, Alexander Daníel Hermann Dawidsson: Bannað að ljúga eftir Gunnar Helgason og Skólaslit eftir Ævar Þór Benediktsson. Af þýddum bókum fengu Ekki opna þessa bók: þú munt sjá eftir því, Dagbók Kidda klaufa: Meistarinn og Fótboltastjörnur: Salah er frábær flest atkvæði. Þökkum öllum kærlega fyrir þátttökuna.

Nú styttist í að Sumarlestur hefjist og eru grunnskólabörn hvðtt til að vera með í því lestrarátaki til að forðast að missa niður lestrargetuna í sumar. Skráning hefst á opnunarhátíð sem verður 20.maí kl.12 á Garðatorginu, lestrardagbækur verða afhentar og blaðrarinn skemmtir. Þemað í ár er geimurinn og munu því plánetur og geimflaugar skreyta sumarlestrarvegg bókasafnsins núna. Geysumst um bókageiminn! Lesum saman í sumar!

Rósa Þóra Magnúsdóttir

Forsíðumynd: Feryja Lillý í 4. bekk Urriðaholtsskóla

Sigrún Ásta í 4. bekk Álftanesskóla

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar