Jólahugvekja – Fullorðins jól

Ég var nokkuð nálægt því að komast í jólaskap fyrir nokkrum dögum.
Í útvarpinu var verið að spila lagið Jólin koma með Ellý og Vilhjálmi. Ég gíraðist allur upp því þetta jólalag er samofið æskuminningum. Ég hef alltaf haft gaman af söngtextum en þegar ég var barn hætti mér til að skilja þá full bókstaflega. Meðal annars þessar línur úr fyrrnefndu lagi; 
 
Hann er svo blankur auminginn hann pabbi 
að ekki gat hann gefið mömmu kjól.
Svo andvarpar hann úti á búðalabbi:
Það er svo dýrt að halda þessi jól.

 Og ég sá pabba minn fyrir mér öslandi slabbið, dæsandi yfir dýrtíð og kjólakaupum en þar pössuðu illa saman hljóð og mynd.
En svona er að uppgötva heiminn. Börn eru stöðugt að taka inn upplýsingar, máta þær við raunveruleikann og kanna hvort þær standist skoðun. Það einskorðast vitanlega ekki bara við börnin. Erum við ekki alltaf að endurskoða okkur sjálf og afstöðu okkar til allra skapaðra hluta? Oft er ekki annað hægt en að samsinna Línu Langsokki: Ýmislegt fær maður að heyra áður en eyrun detta af manni. 

Þegar ég var lítill leit ég afar mikið upp til foreldra minna og ömmu og afa. Þetta fólk virtist geta allt og vita allt, en svo var það eins og allt annað breytingum háð.
Það er lífsins gangur að með tíð og tíma tökumst við á við lífið á eigin spítur og myndum okkur eigin skoðanir sem geta breyst eins og allt breytist.
Eitt hefur þó ekki breyst og kemur aldrei á óvart. 
Er nálgast jólin lifnar yfir öllum 
það er svo margt sem þarf að gera þá… 
Söngur Ellýar og Vilhjálms verður aldrei sannari en á þessum tíma árs.
 
 Við segjum stundum að jólin séu hátíð barnanna.  En eru jólin barnaleg? Sagan um Maríu, Jósef, jötuna og fjárhirðana, englana, vitringana og jólabarnið. Er hún eingöngu við hæfi barna?  
Höfum við ástæðu til að taka stefnumótið við frelsarann í jötunni alvarlega sem fullorðið fólk? Þarf trúin á guð ekki að fá að þroskast og breytast með okkur eins og skóstærðir, skoðanir og tilfinningar?
 
Trúin á margt líkt með sambandi barns og foreldra. Til dæmis kenndi Jesús okkur að hugsa þannig um guð. Með öðrum orðum er hann þannig að kenna okkur auðmýkt. Sú kennsla er þó ekki orðin tóm. Í jólaguðspjallinu kennir guð okkur auðmýkt i verki. Guð fæðist þar sem lítið barn og gerir sig háðan umönnun manna en er um leið allsvaldandi guð sem sendi engilinn með skilaboð elskunnar: Óttist ekki!

Hlustum. Engillinn er ekki þagnaður. Jólin eru fullorðins. 

Guðmundur Karl Brynjarsson,
Sóknarprestur í Lindakirkju

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar