Virkjum kraftinn í okkur sjálfum

Öflugt atvinnulíf er forsenda framfara og undirstaða velferðarkerfisins á Íslandi. Hlutverk stjórnvalda er að skapa heilbrigt og hvetjandi umhverfi fyrir atvinnulífið svo nýta megi krafta okkar einstaklinganna til fulls. Skattkerfið og regluverk atvinnulífsins á að vera einfalt og sanngjarnt og hvetja til fjárfestinga og eðlilegrar samkeppni. Stjórnmálamenn þurfa að skapa skýrt og stöðugt starfsumhverfi fyrir allar atvinnugreinar, en ekki velja hvaða atvinnugreinar eiga að vera ráðandi. Öll eggin mega ekki vera í sömu körfunni. Við þurfum að tryggja meiri fjölbreytileika í íslensku atvinnulíf, efnahagur okkar má aldrei ráðast af afkomu eins fyrirtækis eða einnar atvinnugreinar. Þess vegna er nauðsynlegt að stuðla að nýsköpun í íslensku atvinnulífi og styðja við hverskonar virkjun hugvits.
 
Fjöldi vísbendinga eru um að regluverk hér á landi sé meira íþyngjandi en í þeim löndum sem við berum okkur saman við auk þess sem skattar eru með því hæsta sem gerist og skattkerfið óskilvirkt. Þetta er meðal þess sem fram kom í skýrslu Viðskiptaþings 2021, þessu þarf að breyta.

Sjálfbær nýting náttúruauðlinda

 Við erum rík af náttúruauðlindum og mikilvægt er að standa vörð um þær sem og náttúru Íslands. Gæta þarf að því að hún sé nýtt með sjálfbærum hætti þjóðinni allri til hagsbóta, bættra lífsgæða og velferðar. Auður Íslendinga felst m.a. í þeirri orku sem býr í iðrum jarðar og sjávar. Sjálfbær nýting auðlinda er grundvallaratriði í öllum ákvörðunum. Þeir sem halda á nýtingarrétti í náttúruauðlindum þurfa að greiða fyrir það sanngjarnt gjald sem tekur mið af hagnaði vegna nýtingarinnar. Slík gjaldtaka þarf að taka mið af hagsmunum þjóðarinnar til langs tíma litið.
 
Ég býð fram krafta mína, reynslu og þekkingu.

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, gefur kost á sér í 2. sæti í prófkjöri flokksins í SV kjördæmi 10-12 júní næstkomandi.

Frekari upplýsingar www.bryndisharalds.is

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar