Amma mín úr Vestmannaeyjum hefur komið víða við á langri starfsævi. Hún var m.a. fiskverkakona, bankastarfsmaður og húsmóðir. Afi kom að vestan og vann sem rafvirki hjá einu stærsta verktakafyrirtæki landsins. Þeirra kynslóð lagði grunninn að þeim miklu lífsgæðum sem við yngri kynslóðir höfum notið: gjaldfrjálsri menntun, opinberu heilbrigðiskerfi og sterkum innviðum. Við sem yngri erum stöndum í þakkarskuld við þetta fólk.
Hvað hljóta þessar eldri kynslóðir að launum fyrir langa og erfiða starfsævi? Fá þær að njóta ávaxta eigin erfiðis og eiga áhyggjulaust ævikvöld? Nei, allt of margir af kynslóð ömmu og afa þurfa að draga fram lífið á grunnlífeyri sem er orðinn 85 þúsund krónum lægri en lágmarkslaun í landinu. Í þokkabót er þeim boðið upp á heimsmet í skerðingum, þar sem lífeyristekjur þorra ellilífeyrisþega eru skertar um helming eða meira. Afleiðingin er sú að þriðjungur eldri borgara lifir á tekjum sem eru undir lágmarkslaunum og rúmlega helmingur þeirra fær minna en 400 þúsund krónur í heildartekjur á mánuði, fyrir skatt.
Þessa stöðu er einfalt að laga, eins og fram kemur í nýrri skýrslu Stefáns Ólafssonar um kjör eldri borgara. Niðurstöður hans eru að það þurfi að hækka grunnlífeyrinn, draga úr skerðingum og lækka skattbyrði á þau sem lægstar hafa tekjurnar. Samfylkingin tekur undir þessi sjónarmið og hefur á yfirstandandi kjörtímabili ítrekað lagt fram tillögur þess efnis á Alþingi. Við viljum að lífeyrir hækki árlega í samræmi við raunverulega launaþróun í landinu og standi undir mannsæmandi framfærslu, draga verulega úr skerðingum og hækka frítekjumark lífeyrisþega.
Við sem yngri erum skuldum kynslóðunum á undan okkur að sjá til þess að þær geti lifað mannsæmandi lífi að starfsævinni lokinni. Þess vegna mun ég berjast fyrir því að stefna Samfylkingarinnar um hækkun grunnlífeyris almannatrygginga, minni skerðingar og lægri skattbyrði ellilífeyrisþega nái fram að ganga.
Óskar Steinn Jónínuson Ómarsson, deildarstjóri í leikskóla og frambjóðandi Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi fyrir komandi Alþingiskosningar.