Umhverfismál eru mjög mikilvæg og aldrei eins mikilvæg og nú. Þegar við ræðum við ungt fólk og spyrjum það um þeirra framtíðarsýn þá fáum við gjarnan þau svör að þau hafa miklar áhyggjur af þeirri stöðu sem upp er komin í umhverfis- og loftslagsmálum. Svo miklar, að sum hver telja sig jafnvel ekki tilbúin að stofna til fjölskyldu og bjóða upp á líf við þessar aðstæður. Þetta er skiljanleg afstaða, dapurleg og grafalvarleg. Unga fólkið gerir sér betur grein fyrir hvað umgengni okkar við umhverfið hefur verið óábyrg því þau munu erfa jörðina. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að kominn er tími á alvöru aðgerðir. Við verðum að spyrja: hvað höfum við gert og hvernig getum við snúið þessari þróun við.
Svarið er: við höfum verið óvarkár og rænulaus gagnvart umhverfinu, gagnvart loftslagsvánni. Svarið er líka: það það er ekki hægt að laga allt saman. Sumt er búið og gert og verður ekki hægt að færa til fyrra horfs. En það er eitt mikilvægasta verkefni okkar nú að gera hvað við getum. Það er ansi margt hægt að gera sem Móðir Jörð verður þakklát fyrir og getur vonandi hindrað varanlegar loftslagshamfarir, og snúið hlutunum til betri vegar.
Við í Viðreisn viljum menga minna, og láta þá borga sem menga. Við viljum láta banna leit og vinnslu jarðefnaeldsneytis í íslenskri lögsögu. Við viljum stefna að kolefnislausu og jarðefnaeldsneytislausu Íslandi á næstu 10-20 árum. Við viljum að Ísland helmingi heildarlosun ríkisins (með landnotkun) á áratugs fresti og verða þannig við ákalli vísindasamfélagsins um að halda hnattrænni hlýnun innan 1,5°C. En það er ekki nóg. Við þurfum einnig að koma á mun betri endurvinnslu. Urðun úrgangs á ekki að eiga sér stað á 21. öld heldur á allur efniviður að vera hluti af stöðugri hringrás þar sem vörum og efni er haldið í notkun með endurnýtingu, endurvinnslu, viðgerðum og endursölu. Einnig viljum við styðja við græna nýsköpun í endurvinnslu sem og að skapa græna hvata fyrir fyrirtækin í landinu.
Þessi dæmi eru bara dropi í hafið enda svo margt annað sem við viljum gera betur.
En góð ríkisstjórn þarf að koma með skýrar lausnir svo hægt sé að vinna þetta á skipulagðan, markvissan og árangursríkan hátt. Við hjá Viðreisn erum meira en tilbúin í að vinna af ástríðu að þessum málum með þjóðinni. Saman getum við náð góðum árangri og skapað betri framtíð fyrir börnin okkar og þeirra afkomendur. Það er okkar skylda að bregðast við núna því við bjuggum til þennan vanda. Við megum ekki varpa því yfir á herðar afkomenda okkar að takast á við okkar mistök. þetta er á okkar ábyrgð! Spurningin er, hvaða ríkisstjórn sérð þú fyrir þér leysa þetta risastóra verkefni? Ef þú ert sammála, þá veist þú hvar þú setur x-ið þann 25. september. Við erum allavega tilbúin!
Ástrós Rut Sigurðardóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir frambjóðendur Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi