Vaxtarstyrkur eflir forvarnir

Það er óumdeilt að þátttaka barna og unglinga í skipulögðu íþrótta- og tómstundarstarfi hefur mikið forvarnargildi. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á að þátttaka í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi styrkir líkamlegan, félagslegan og andlegan þroska barna. Slík þátttaka dregur úr hvers konar frávikshegðan, hefur jákvæð áhrif á námsárangur, eflir einstaklinginn á margvíslegan hátt og styrkir sjálfsmyndina. Þannig má álykta að skipulagt íþrótta- og tómstundastarf leiði til þjóðfélagslegs heilsuábata og minnki álag á heilbrigðiskerfið. Einnig hefur verið sýnt fram á að þátttaka í slíku starfi hefur jákvæð áhrif á skólastarf og vinnumarkað í formi færri veikindadaga og aukinnar framleiðni.

Við í Framsókn viljum auka áhersluna á forvarnir. Þannig eflum við einstaklinginn, léttum á útgjöldum fjölskyldunnar í dag, og drögum úr álagi og auknum útgjöldum heilbrigðiskerfisins til framtíðar.

Lengi býr að fyrstu gerð.

Það er mikilvægt að tryggja að öll börn hafi jöfn tækifæri til íþrótta- og tómstundaiðkunar óháð efnahag fjölskyldunnar því slíkt eykur lífsgæði og er mikilvægur liður í heilsusamlegum lífsstíl. Sveitarstjórnir hafa stutt við fjölskyldur með frístundastyrkjum, og niðurgreitt skipulagt íþrótta- og tómstundastarf. Það hefur skilað jákvæðri þróun og tölfræðin hefur sýnt okkur að í þeim sveitarfélögum þar sem frístundastyrkir standa til boða hefur verið aukning iðkenda í nær öllu skipulögðu frístundastarfi.

Við í Framsókn ætlum að koma til liðs við sveitarstjórnir, þá fjölmörgu aðila sem skipuleggja íþrótta- og tómstundastarfið og fjölskyldurnar í landinu með því að ýta undir þessa jákvæðu þróun og stuðla enn frekar að því að börnin okkar blómstri. Við viljum leggja 60 þúsund króna styrk til allra barna um allt land til viðbótar við þann styrk sem þegar er greiddur af sveitarfélögunum. Með þessum vaxtarstyrk jöfnum við tækifæri barna til þátttöku í skipulögðu frístundastarfi.

Það er hluti af þjóðarátaki í lýðheilsutengdum forvörnum.

Undirritaður er oddviti Framsóknar í Suðvesturkjördæmi

Willum Þór Þórsson

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar