Miðflokkurinn hefur frá því hann kom inn á þing árið 2017 bent á stöðuna sem útlendingalögin og lausatök á landamærunum myndu á endanum leiða til.
Stjórnleysi undanfarinna ára hefur sett þannig þrýsting á heilbrigðis- og menntakerfið, á húsnæðismálin og í raun öll stoðkerfin okkar að flestir flokkar eru nú orðnir svolitlir Miðflokkar í sér hvað málefni hælisleitenda varðar. Þar höfum við í Miðflokknum góða og staðfasta sögu að segja, öfugt við marga þeirra sem nú hoppa á vagninn.
Við þekkjum öll sögur af börnum sem verða af sérkennslu sem þau þurfa sárlega á að halda, vegna þess að þeir sem veita þá þjónustu eru uppteknir við annað. Við þekkjum öll áhrifin af þróun mála á leigumarkaðinn, þar sem einstæða tveggja barna móðirin getur ekki boðið jafn öruggar greiðslur og tryggingar og sá sem kemur með uppáskrifað frá Vinnumálastofnun eða sveitarfélagi.
Við í Miðflokknum ætlum að ná stjórn á landamærunum. Við ætlum ekki að eyða 26 þúsund milljónum á ári í þennan málaflokk – sem fyrir aðeins nokkrum árum kostaði innan við milljarð. Í þeirri tölu eru svo ótaldir þeir tugir milljarða sem leggjast á heilbrigðis- og menntakerfið og önnur stoðkerfi okkar, áhrif á húsnæðismarkaðinn og svo mætti áfram telja.
Við ætlum samt áfram að hjálpa fólki í neyð – bara beita skynseminni. Við bjóðum hingað fólki í neyð til landsins – fjölda sem við ráðum við – og hjálpum því að aðlagast íslenskri menningu og samfélagi. Við hjálpum fólki í neyð einnig á þeirra nærsvæðum, þar sem hver milljón skilar margfalt fleirum hjálp en hún gerir hér í einu dýrasta landi í heimi. Með skynsamlegum leiðum Miðflokksins hjálpum við fleirum og eflum íslenskt samfélag.
Um leið og við náum stjórn á landamærunum náum við stjórn á ríkisútgjöldunum. Grjóthart aðhald á útgjaldahlið ríkissjóðs er nauðsynlegt og í raun eina leiðin til að ná tökum á stjórnlausum útgjaldavexti ríkissjóðs á liðnum árum. Þannig falla verðbólguvæntingar og í framhaldinu verðbólga og vextir, eins og steinn. Við stöðvum alla óráðsíu í ríkisrekstri. Það á ekki að bruðla með peningana þína.
Við þurfum að framleiða meiri orku, meira rafmagn, til að fyrirtæki geti vaxið og dafnað eins og möguleikar þeirra standa til. Aðgengi að nægu rafmagni á hagstæðu verði er ein meginforsenda verðmætasköpunar á Íslandi. Við ætlum að virkja – setja sérlög um virkjanakosti í nýtingarflokki rammaáætlunar og ganga í verkin. Það er ekki eftir neinu að bíða.
Við þurfum að innleiða aftur séreignarstefnuna sem meginreglu á húsnæðismarkaði – Íslenska drauminn – sú nálgun virkaði svo vel áratugum saman. Hættum að þvinga fólk í hlutverk leiguliðans og hjálpum fólki að byggja upp eignarhlut sem tryggir festu til framtíðar.
Eldri borgarar hafa svo beðið of lengi eftir löngu tímabærri lagfæringu á stöðu sinni. Við ætlum að auðvelda þeim sem vilja og geta að vera áfram virkir á vinnumarkaði, til þess ætlum við að hækka frítekjumark atvinnutekna í 600 þúsund á mánuði, í fyrsta skrefi. Við ætlum jafnframt að hækka frítekjumark greiðslna úr lífeyrissjóði í 150 þúsund á mánuði.
Við í Miðflokknum gerum það sem við segjumst ætla að gera. Þú getur stólað á árángur hjá okkur.
Áfram Ísland!
Bergþór Ólason, oddviti Miðflokksins í SV-kjördæmi