Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga sendi Kópavogsbæ erindi nýverið eftir að hafa yfirfarið fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árið 2023. Ástæða erindisins var að lögbundið lágmarks skilyrði um framlegð var ekki uppfyllt. Rekstrargjöld eru of há miðað við reglulegar tekjur. Eftirlitsnefndin lagði áherslu á það við sveitarstjórn að fara vel yfir fjárhagslegar forsendur sveitarfélagsins til að ná framangreindum lágmarksviðmiðum og bauð jafnframt fram aðstoð við að leiðbeina sveitarfélaginu svo fjármál þess stefni ekki í óefni.
Á sama fundi bæjarráðs og erindið frá eftirlitsnefndinni kom inn, barst erindi meirihlutans um frekari lántökur. Samkvæmt fjárhagsáætlun meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknar þá er gert ráð fyrir lántökum upp á rúma 8 milljarða á árinu, þ.a. eru 4,5 milljarðar ný lán. Kópavogsbær náði ekki að framkvæma að fullu þau verkefni sem voru áætluð 2022 en fjárfestingaáætlun fyrir 2023 hljóðar upp á um 6 milljarða. Að mínu mati er áætlun ársins í ár í besta falli óljós. Mörgum vikum eftir að ég óskaði nákvæmari áætlunar um uppbyggingu grunn- og leikskóla samhliða uppbyggingu íbúðarhúsnæðis barst minnisblað. Í því eru upplýsingar sem passa engan veginn við samþykkta fjárfestingaáætlun, hvorki fyrir þetta ár né næstu þrjú þar á eftir.
Í sömu fjárhagsáætlun samþykkti meirihlutinn hagræðingu upp á 230 milljónir á árinu 2023. Um þessar mundir eru liðnir um fjórir mánuðir síðan fjárhagsáætlunin var samþykkt en enn bólar ekkert á útfærslu eða tillögum um samþykkta hagræðingu. Heppilegast hefði verið að tillögur um þær hefðu komið fram samhliða samþykktri fjárhagsáætlun rétt eins og Reykjavíkurborg gerði með ábyrgari og gagnsæri hætti.
Frá því ég var fyrst kosin í bæjarstjórn hef ég lagt áherslu á að breyta verklagi við gerð fjárhagsáætlunar til að tryggja örugga meðferð fjármuna bæjarbúa og mæla árangur. Því miður gengur afar hægt að koma á vönduðu ferli í þeim efnum. Við vorum komin vel af stað með fyrrum bæjarstjóra í brúnni en með nýjum meirihluta og nýju fólki hrökk flest í gamla farið. Nú er svo komið að ég tel nauðsynlegt að gera heildstæða rekstrarúttekt á starfsemi bæjarins til að tryggja skilvirkan og sjálfbæran rekstur, þó ekki væri nema til þess að koma í veg fyrir að Kópavogsbær fái gula spjaldið aftur frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga. Aðallega þó til að sjá framtíðina fyrir og bregðast við í tíma. Það er ekki boðlegt hvað allt er á síðasta snúningi, hvað vinnubrögðin eru léleg og hvað metnaðurinn er lítill.
Theódóra S. Þorsteinsdóttir, bæjarfulltrúi og oddviti Viðreisnar í Kópavogi