Sönn jól!

Ég las um daginn tilvitnun þess efnis að jólin væru tími til að gleðjast yfir ástinni og yfir þeim sem við elskum.

Ég hugsa svo oft um það hversu mikið jólin breytast eftir því sem við eldumst, elskum og missum.
Ég var alveg óskaplega glatt jólabarn og í mínum barnshuga komu jólin alltaf einhvern veginn áreynslulaust.

Mamma sá um allt. Þegar lítið var til, saumaði hún á okkur systkinin jólafötin, jólasveinarnir skiptu litlum smartís stauk á milli okkar systkinanna, einu sinni laumaðist kartafla í skóinn minn þegar ég var búin að vera óþekk með eindæmum. Það gerðist aldrei aftur.

Mamma fór alltaf síðust í jólabaðið, þegar hún var viss um að við systkinin værum öll græjuð og fín. Við vorum forgangsatriðið hjá henni alltaf.

Kl. 18.00 var aftansöngurinn í útvarpinu frá Dómkirkjunni. Þá sátum við systkinin saman í sófanum, prúðbúin og fín. Ég man að þá fengum við kók í lítið glas og einn Macintosh mola til að halda okkur nokkuð stilltum yfir messunni fram að mat.

Jólamaturinn var alltaf fullkominn, möndlugrautur í forrétt og Rjúpur í aðalrétt. Mamma og pabbi tóku sér svo alltaf góðan tíma í að vaska upp, sem okkur systkinunum fannst alltaf mjög erfitt, enda styttist í pakkastundina sem við jú vorum búin að bíða eftir lengi og vera frekar stillt að okkar eigin hógværa mati.

Þessi minning er einhvern veginn svo dýrmæt í huganum og í raun svo mikilvæg vegna þess að hún kenndi mér svo margt og er full af óeigingjarnri elsku og hún hlýjar alltaf þegar ég leyfi huganum að reika til bernskujólanna.

Mamma nefnilega kenndi mér að bíða, þó að eftirvæntingin á aðfangadag væri mikil, þá lærðum við systkinin að njóta. Njóta dagsins, njóta stundarinnar þegar jólin voru hringd inn í Dómkirkjunni og “Heims um ból” hljómaði í lok messunnar.

Við lærum að njóta matarins og eiga þessa stund saman án þess að vera að flýta okkur að borða til að komast beint í pakkana.

Við lærðum að njóta pakka stundarinnar, alltaf var bara einn pakki opnaður í einu og allir fylgdust með þeim sem var að opna og samglöddust yfir góðum gjöfum.

Það dýrmæsta er, að ég lærði að þakka. Þegar ég horfi til baka og sé allt sem mamma lagði á sig í desember og vinnan hennar sem lá að baki öllu sem var lagt fram og gert fyrir okkur, var nefnilega alls ekki sjálfsögð. Hún gerði þetta af kærleika, af því að hún elskaði okkur meira en lífið sjálft. Allt var framreitt af ást og óeigingirni.

Og það er það sem jólin snúast um fyrst og fremst.

Jólin eru ást.
Jólin eru nærvera með þeim sem við elskum.
Jólin eru lítið barn í jötu og þarf á þér að halda, að þú umvefjir það sannri ást.
Jólin eru himneskur friður sem myndast hvar sem sanna elsku er að finna.
Jólin eru sjálfsmildi og auðmýkt í okkar eigin garð og annarra.
Jólin verða til í þér og í mér og okkur öllum þegar við ákveðum að elska og leyfa okkur að vera og finna, sakna og syrgja, gráta og gleðjast.

Já góður Guð gefi ykkur öllum góð og gleðileg jól í kærleika og friði með þeim sem við elskum mest í þessu lífi.

Sr. Sunna Dóra Möller sóknarprestur í Hjallakirkju

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar