Þegar annar okkar ( sá sem er örlítið aftar í starfrófinu) lá á Landspítalanum í 33 daga nú í sumar, með framúrskarandi umönnun og alúð þess starfsfólks sem þar vinnur, varð hann þess áskynja að sumir höfðu stoppað þar lengur við en aðrir. Í samtali við ungan mann sem þar var kom fram að hann hafði þá legið á sjúkrahúsinu í 200 daga. Ástæðan fyrir þessari löngu spítaladvöl var sú að heimahjúkrun treysti sér ekki til að sinna honum lengur. Hann hafði því engan annan valkost en að dvelja utan síns heimilis á dýrasta úrræði sem landsmenn bjóða upp, á Landspítala háskólasjúkrahúsi. Frægasta dæmi um langa spítalainnlögn er dæmi Tryggva heitins Ingólfssonar sem lá samfellt í 420 daga á lungnadeild Landspítalans. Slík meðferð eða öllu heldur skortur á viðeigandi stuðningi til mannsæmandi lífs, samræmist ekki vel fagurgala um metnað og gæði í heilbrigðisþjónustu.
Á ferðum okkar um landið nú í sumar höfum við átt samtöl við fjölmarga sem eiga daglega bein og óbein samskipti við heilbrigðisstofnanir, lækna, hjúkrunarfólk o.fl. Rauður þráður í þeim samtölum hefur verið sá að heilbrigðiskerfið sé of hólfaskipt og heildar samræmingu skorti. Myndbirtingar þessa ágalla eru margvíslegar, þar á meðal ,,fráflæðisvandi” sem valdið getur útskriftartöfum á borð við það sem fyrr var nefnt. Auk þess blasir við að á meðan kerfið er ekki betur straumlínulagað nýtast fjármunir, tími, sérfræðiþekking og húsrými ekki eins vel og æskilegt væri. Hér eru ekki litlir hagsmunir í húfi. Fyrir utan þá armæðu sem óþarflega löng sjúkrahúsvist veldur fólki, blasir við að slíkt hefur í för með sér óheyrilegan fjárhagslegan kostnað. Nægir þar að nefna að daglegur raunkostnaður spítalavistar nemur um 306.000 krónum sé miðað við svokallaða DRG gjaldskrá Landspítala. Frammi fyrir því má öllum vera ljóst að hér er til mikils að vinna. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki farið með heilbrigðisráðuneytið nú í 4 ár en framangreindar staðreyndir eru þess eðlis að við viljum gjarnan leggja okkar lóð á vogarskálar betra skipulags, bættra vinnubragða, sparnaðar og velferðar þeirra sem þurfa að leggjast inn á sjúkrahús til lengri eða skemmri tíma.
Mál unga mannsins sem minnst var á í upphafi þarf síðan að leysa sérstaklega, það á ekki að koma í hlut Landspítala að vera búseta fólks um lengri tíma. Það er ekki hans hlutverk, þær stofnanir sem eiga að sinna því hlutverki að finna búsetu fyrir fólk verða að standa undir því hlutverki. Þjónustu við viðkomandi ætti síðan að leysa með notendastýrðri persónulegri aðstoð, sem gefist hefur vel.
Við hvetjum kjósendur til að veita Sjálfstæðisflokknum umboð til þarfra umbóta í þessum efnum.
Arnar Þór Jónsson og Bergur Þorri Benjamínsson frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í Suðvestur kjördæmi