Skipulagsmál – ef hlustað hefði verið

Undirritaður, íbúi hér í „hreppnum“ til 60 ára, hóf afskipti af sveitarstjórnarmálum í Garðabæ fyrir 12 árum síðan. Það voru skipulagsmál sem voru kveikjan að þátttökunni. Var óánægður með stöðuna og margar þeirra hugmynda sem uppi voru í skipulagsmálum.

Viðraði óánægju mína við vini mína í meirihlutanum – en fékk skömm í hattinn fyrir. Bauðst þá óvænt sæti á lista minnihlutans með það fyrir augum að taka sæti í skipulagsnefnd bæjarins. Þáði sætið og hef síðan setið fyrir minnihlutann í skipulagsnefnd bæjarins. Starfið í nefndinni hefur um margt verið fróðlegt og skemmtilegt, enda á mínu fagsviði.

Á þessum 12 árum hef ég haft ánægju af því að starfa í nefndinni en það er í þessu eins og öðrum málaflokkum, það er engum til góðs þegar allt vald er á höndum eins flokks svo áratugum skiptir eins og raunin er í okkar samfélagi. Meðal annars hefði ég viljað að eftirfarandi mál hefðu fengið meira vægi í umræðunni í samráði við Garðbæinga.

Hugmyndir um nýja miðbæinn og sundurlaust yfirbragð hans. Þrír algerlega aðskildir og ótengdir kjarnar hafa verið skapaðir s.k. Hagkaupstorg, Garðatorg og Vídalínstorgið. Ekkert þeirra þó „torg“ í raun, aðeins bílastæði. Vissulega komin starfsemi í miðbæinn og er það vel, en aðlaðandi eru „torgin“ ekki og bútasumurinn alger.

● Þetta hefði mátt koma í veg fyrir – ef hlustað hefði verið.

Skipulag við Ásgarð. Benti á hvaða möguleikar væru þar til uppbyggingar á heildstæðu svæði allra íþróttagreina. Rýmið var þá nægt og skv. þeim hugmyndum sem ég og félagi minn Eyjólfur Bragason lögðum fram í samvinnu við þáverandi formann Stjörnunnar Snorra Ólsen. Hvort tveggja rými fyrir handboltahús, körfu og knatthús auk fimleika, á svæðinu. Svartsýnispár okkar gengu því miður eftir. Ekkert rými eða skipulag til staðar þegar að æskilegum framkvæmdum kom á svæðinu. Íþróttasvæðin nú því aðgreind og á þremur stöðum.

● Þetta hefði mátt koma í veg fyrir – ef hlustað hefði verið.

Skipulagshugmyndir á Garðaholti. Eitt besta og verðmætasta byggingarland á öllu höfuðborgarsvæðinu. Nægt rými fyrir allt að 7-8 þús manna byggð af hæfilegum þéttleika og fjölbreytni, sérbýlis og fjölbýlis, auk atvinnu og skóla. Meirihlutinn hafði á árum áður haft þar hug á myndarlegri uppbyggingu, en núverandi öfl hafa snúið blaðinu algerlega við. Falið einkaaðila að skipuleggja svæðið til minningar um látinn einstakling og til verndar „byggðamynstri 20. aldar“ sem þar ku blasa við. Óábyrg meðferð á verðmætum og framtíðarmöguleikum okkar bæjarbúa. Vissulega er hún falleg og rómantísk hugmyndin um verndun, en núverandi byggðin þarna er bæði sundurlaus og ósamstæð. Auk þess sem „verndarskipulagið“ gefur færi á allt að 30 viðbótar einbýlishúsum með hinum undarlegustu skilmálum 19. aldar húsa. Þetta er í raun upplegg að hefðbundnu fasteignabraski. Stórkostlegu tækifæri og milljörðum króna okkar fórnað. Fjármunum sem að öðrum kosti myndu renna í bæjarsjóð okkar, íbúa bæjarins, til þess að skapa enn betri bæ. Ekki veitir af er bókhaldið er skoðað. Með ábyrgri landnotkun og myndarlegri þéttri byggð á þessu svæði tengjum við einnig Álftanesbyggðina mun betur við austari svæði bæjarins.

● Þetta má enn leiðrétta – ef hlustað verður og X sett við G.

Baldur Ó. Svavarsson arkitekt. Skipar 6. sæti Garðabæjarlistans

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar