Sjálfstæði atvinnurekandinn í öndvegi

Hvað eiga framtaksmaðurinn, frumkvöðulinn og sjálfstæði atvinnurekandinn sameiginlegt? Þeir eru allir drifkraftar efnahagslífsins, aflvakar framfara og bættra lífskjara. Oftar en ekki sameinast þeir allir í einum og sama einstaklingnum. Með nýrri hugsun kemur hann auga á tækifærin og með nýjum aðferðum býður hann nýja vöru og þjónustu, skapar störf og eykur lífsgæði almennings með beinum og óbeinum hætti.

Sumum stjórnmálamönnum og jafnvel heilu stjórnmálaflokkunum gengur erfiðlega að skilja hvernig verðmætin verða til – verðmætin sem standa undir velferðarsamfélagi. Skilja ekki samhengið á milli öflugt atvinnulífs og lífskjara.

Þjóðfélög sem ýta undir sjálfstætt framtak einstaklinga, með hagstæðri umgjörð skatta, einföldu regluverki og þróttmiklu menntakerfi, eru samfélög velmegunar og velferðar. Það er því ein af frumskyldum stjórnvalda á hverjum tíma að huga vel að umhverfi sjálfstæða atvinnurekandans – tryggja að til sé frjór jarðvegur svo frumkvöðulinn þrífist og dafni.

Allt frá 2013 hefur tekist að gera umhverfi fyrirtækja, lítilla og stórra hagstæðara, með lægri sköttum og einföldun regluverksins. Undir forystu Sjálfstæðisflokksins hefur tryggingagjald verið lækkað um liðlega 20% eða um 25 milljarða á ári. Regluverk hefur verið einfaldar, hundruð reglugerðar og laga verið afnumin. En það er langt í að verkinu sé lokið. Endurskoða verður stofn og álagningu tryggingagjalds og þá sérstaklega gagnvart litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Reglugerðarfrumskógurinn er enn þéttur – allt umhverfi byggingariðnaðarins er þeim hætti að óvíða er byggingarkostnaður hærri en hér á landi. Eitt mesta hagsmunamál launafólks er að ráðist verði á frumskóginn sem umlykur byggingariðnaðinn – leysa hann úr fjötrum.

Það væri ekki ónýtt fyrir íslenskt efnahagslíf til langrar framtíðar ef ríkisstjórn sem tekur við völdum að loknum kosningum tæki afstöðu með sjálfstæða atvinnurekandanum, frumkvöðlinum og framtaksmanninum, litlu og meðalstóru fyrirtækjunum, á næstu fjórum árum. Gera þeim lífið léttara og einfaldara. Við öll munum njóta þess. En það er borin von að slíkur draumur rætist í vinstri stjórn. Vilji kjósendur slíka stjórn ættu þeir ekki að styðja Sjálfstæðisflokkinn, – þeir geta kosið alla aðra flokka.

Óli Björn Kárason

Höfundur er alþingismaður og situr í 4.sæti framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar