Sérstaða okkar í grænum iðnaði

Viðreisn er sérstök fyrir þær sakir að hún er frjálslynt afl sem tekur loftslagsmálum alvarlega. Það sást greinilega þegar Ungir umhverfissinnar kynntu matskvarða sinn á umhverfisstefnum flokkanna. Viðreisn lenti þar í öðru sæti í loftslagsmálum og í því fyrsta fyrir stefnu sína í hringrásarhagkerfinu. En hvað er það sem einkennir okkar sýn í þessum efnum?
Við áttum okkur á því að við sigrumst ekki á loftslagsvánni án endurnýjanlegrar orku. Alþjóðasamfélagið leitar nú allra leiða til að losa sig við jarðefnaeldsneyti og nýta þess í stað endurnýjanlega orku. Það liggur í orðanna hljóðan, orkan sem við notum til langframa verður að vera endurnýjanleg, annað er óábyrgt.

Viðreisn vill að Ísland verði kolefnishlutlaust og laust við jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2040. Til þess að svo verði þarf skýr markmið stjórnvalda um losun í hverri atvinnugrein, græna hvata til að þau raungerist og samráð við atvinnulífið til að tryggja að hagkvæmasta leiðin sé farin.

Iðnaður sem losar mikið magn gróðurhúsalofttegunda á ekkert erindi á 21. öldinni. Stjórnendur þessara fyrirtækja verða að taka ábyrgð á losun sinni með mótvægisaðgerðum eða hætta að losa. Raunveruleikinn er ekki flóknari en þetta þegar kolefnishlutleysi er takmarkið. Við erum hins vegar í dauðafæri þessa dagana þar sem kolefnisförgun og endurnýting kolefnis er atvinnugrein hér á landi. Á Íslandi eru framsæknustu fyrirtæki heims á þessu sviði, t.a.m. CarbFix, Carbon Recycling og ClimeWorks. Ef hlúð verður að nýsköpun í loftslagsmálum á næstu árum er ekki fjarri lagi að þessi græni iðnaður verði fjórða stoð hagkerfisins.

Við viljum ná kolefnishlutleysi með markvissum aðgerðum, tekjuhlutlausum grænum hvötum og viðspyrnu frá stöðnunar pólitík.

Sigmar Guðmundsson 2. sæti Viðreisnar í Kraganum
Rafn Helgason 6. sæti Viðreisnar í Kraganum

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar